19.11.1948
Efri deild: 17. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 288 í B-deild Alþingistíðinda. (423)

17. mál, kjötmat o.fl.

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Eins og fram kemur í nál., þá hefur n. haldið nokkra fundi, þar sem frv. hefur verið rætt, og hefur n. fengið yfirdýralækni, Sigurð Hlíðar, til þess að mæta þar. Stjórn Dýralæknafélags Íslands hefur enn fremur verið sent frv. til umsagnar og hefur hún sent till. sínar. Út úr öllu þessu hafa svo komið þær brtt., sem prentaðar eru á þskj. 110, og eru þessar helztar:

Við 2. gr. er brtt., fólgin í því að bæta við síðustu málsgr. orðunum: „að fengnum till. yfirdýralæknis.“ Þetta er svo sjálfsagður hlutur, að ekki þarf að ræða það, þar sem gert er ráð fyrir því í lögum, að yfirdýralæknir hafi yfirumsjón með slátur- og frystihúsum landsins.

Í brtt. við 3. gr. er gert ráð fyrir því, að hvert sláturhús fái sitt löggildingarnúmer, sem sett verði á þann stimpil, sem yfirdýralæknir setur á kjötið í viðkomandi sláturhúsi. Verður þá auðveldara að fylgjast með því, ef um misfellur á kjötskoðun eru að ræða, hvar það er, og koma þá við umbótum. Þetta er nýtt í lögum, og hefur verið sérstök óregla á þessum málum hingað til. Læknar og læknanemar hafa fengið stimpla frá stjórnarráðinu, og mér er sagt, að það muni ekki vera nema eitt dæmi þess, að þeim hafi verið skilað til stjórnarráðsins aftur, er viðkomandi menn voru hættir að nota þá. Ef farið verður eftir till. verða sérstakir stimplar í gildi fyrir hvert sláturhús og nákvæmt eftirlit með afhendingu þeirra. En þetta gerir það að verkum, að ef eitthvað er að, þá er betra að „konstatera“ það og fá það lagfært.

Við 5. gr. eru tvær brtt. Hin fyrri er sú, að yfirdýralæknir, eins og í 1. gr., geri till. um læknisskoðun og mælingu sláturfjárafurða, ef þörf krefur. Þetta er hans verksvið, og er eðlilegt, að hann geri það. — Síðari brtt. er sú, að síðari hluti gr. falli burt, þar sem þóknun fyrir læknisskoðun á kjöti er þegar ákveðin með sérstakri reglugerð, svo að frekari ákvæði eru óþörf.

Næsta breyt., sem lagt er til, að gerð sé, er við 7. gr. Þar er gert ráð fyrir því, að þar, sem ekki náist í dýralækni, þar skuli læknir, sem fengið hefur sérstakt próf að afloknu námi hjá yfirdýralækni, annast stimplun kjötsins. — Hér er nokkur breyting frá sjálfu frv. Í 7. gr. er gert ráð fyrir því, að aðrir en dýralæknar geti stimplað kjötið — í fyrsta lagi héraðslæknirinn á staðnum, í öðru lagi læknanemar, sem hefðu tekið slíkt próf. og í þriðja lagi „greinargóðir menn“, eins og það er orðað — en síðari möguleikarnir báðir eru með brtt. felldir niður. — Nú skal þó viðurkennt, að á einstöku stað geti orðið að fá aðra menn til þessa, en fulllærða héraðslækna og verði því að notast við læknanema, út úr neyð. En að setja það í lögin, nær ekki nokkurri átt. Við ætlumst til þess, að kjötið sé markaðsvara, og því þarf að gera í þessu efni sambærilegar kröfur og þær, sem tíðkast í markaðslöndum okkar, en þar annast dýralæknar einir kjötskoðun. Það hefur tvisvar komið fyrir í okkar sögu, að við borð hefur legið að banna sölu á kjöti okkar vegna þess, að það hefur ekki verið skoðað af dýralæknum, og verið afstýrt með því einu að telja viðkomandi yfirvöldum trú um, að svo hafi verið, þar sem héraðslæknar, sem tekið höfðu próf í kjötskoðun, gerðu það. — Ég legg þess vegna höfuðáherzlu á það, að þessi grein verði samþ. Hins vegar getur komið fyrir, að ekki náist í dýralækni eða héraðslækni, en ég lít svo á, að alveg eins og það getur gengið að setja hreppstjóra í stað sýslumanns vestur í Dölum, á meðan hann gegnir störfum í Rvík, þá geti þarna komið maður í manns stað, án þess að það sé lögfest, og geri hann þá verkið á ábyrgð hins, enda eru það í mesta lagi þrír staðir á landinu, sem þannig koma til greina.

Þá er un brtt. við 9. gr., og er hún í því falin að lækka laun kjötskoðunarmannanna. Okkur fannst, að yfirleitt væri ekki um að ræða nema svona mánaðartíma að haustinu, og fannst okkur þá, að sú þóknun, sem hér er ákveðin, væri hæfileg, þar sem líka koma til dagpeningar til uppihalds.

Fyrir framan 11. gr. er lagt til, að bætt sé ákvæði, sem er efnislega að mestu samhljóða því, sem áður hefur verið í lögum, að ef kjöt er flutt á ákveðinn stað til sölu og hefur ekki áður verið skoðað, þá skuli það stimplað þar, sem það á að seljast. Þetta er þó ekki látið ná til þorpa og kaupstaða, sem hafa færri en 500 íbúa, en mjög er þó gengið enn lengra en áður hefur verið í lögum, því að þar er miðað við 1.000 íbúa þorp.

Loks voru teknar tvær greinar úr eldri lögum, sem sleppt hefur verið úr frv., er það var samið, en ekki var rétt að fella niður að okkar dómi.

Ég vil geta þess, að einn nm., Guðm. Í. Guðmundsson, gat ekki verið við, er þetta var afgr. í n.; hann var veikur, er ég reyndi að ná í hann, og hef ég ekki getað talað við hann ýtarlega; en hann lét hins vegar í ljós, að sér þætti miklu skipta, að við vildum athuga möguleika á því að búa svo um hnútana, að neytendur gætu fylgzt með flokkuninni á kjötinu, séð hana, er þeir keyptu það.

Ég geri ráð fyrir því, að erfitt mundi reynast það, sem sums staðar tíðkast, að leyfa aðeins einstaka kjötbúðum að selja 1. fl. kjöt, og hinar seldu þá einungis það, sem lélegra væri. Þessa leið mundi ekki vera hægt að fara til tryggingar fyrir neytendur. Hins vegar mætti reyna að stimpla flokksnúmerið á skrokkana á einum 6 stöðum, svo að kaupandi gæti séð það, a.m.k. ef hann biður ekki um því minna af kjöti. Við höfum ekki tekið þetta inn í frv., en ætlazt er til, að um þetta verði settar reglur, og mætti taka ákvæði um þetta upp í reglugerð. Ég vil því benda hæstv. ráðh. á að athuga það, hvort ekki væri rétt að taka upp ákvæði um það, að kjötið sé stimplað með flokksstimpli á fleiri stöðum, en nú er gert, og þætti mér vel hlýða, að nánari ákvæði væru sett um það í reglugerð, en e.t.v. ekki rétt að taka það beint inn í lögin. Öðrum aðferðum held ég, að erfitt yrði að koma við, en n. mun athuga þetta á milli 2. og 3. umr., og í bili vil ég láta nægja að benda hæstv. ráðh. á þetta.