28.04.1949
Efri deild: 90. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 596 í C-deild Alþingistíðinda. (4246)

197. mál, laun starfsmanna ríkisins

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Þegar ég hreyfði þessu máli í fyrri ræðu minni, var það af því, að hæstv. utanrrh. hafði gert grein fyrir atkv. sínu um till. á þskj. 482 og taldi þetta svo mikla nauðsyn, að hann greiddi atkv. með því, að það yrði sett inn í l., þar sem það átti síður heima en í þessu frv., sem hér liggur fyrir. Ég óskaði, að fjhn. tæki til athugunar, hvort meiri hl. n. vildi taka þetta inn í samráði við stj. Ef n. vildi flytja slíka brtt., er það ljóst, að það væri meiri styrkur fyrir málið en ef einstakir þm. flyttu hana, og eftir yfirlýsingu hæstv. ráðh. er eðlilegt, að n. taki til athugunar fyrir 2. umr., hvort hún vill taka þetta upp í frv. Ef ekki er áhugi fyrir þessu í n., mun ég bera fram brtt. um þetta, en það væri eðlilegast, að till. kæmi frá n., svo að málið væri athugað sem bezt.

Hv. þm. N-M. óð hér úr einu í annað og tuggði upp sömu fullyrðingarnar og hann er vanur, ásamt rógi um Sjálfstfl. og form. hans, eins og honum er tamt. Hann getur varla rætt um nokkurt mál án þess að koma því að. En eftir ræðu hans nú verður ekki annað séð en hann hafi ekkert meint með till. á þskj. 482 nema að reyna að spilla fyrir málinu, því að nú, þegar tækifæri gefst, fer hann undan í flæmingi og er í raun og veru að mæla gegn þessu eins og hann getur.

Það er ekki í fyrsta skipti, sem þessi till. kemur fram. Í sambandi við dýrtíðarl. bar ég fram till. um, að vinnuvikan yrði lögbundin við 48 stundir. Sú till. var felld, ef til vill af því, hversu margar stundir þetta voru, ef til vill af því, að till. var borin fram í sambandi við óskylt mál. En ég gat ekki komið henni að við neitt skyldara mál. Nú liggur hér fyrir frv. um breyt. á launal., og meðan beðið er eftir frv. um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, er sjálfsagt að koma þessari breyt. hér að. Ef til vill getur það flýtt fyrir samkomulagi um þessi mál. Málið hefur verið rætt við starfsmenn ríkis og bæja, en ekki er vitað, hvaða afstöðu þeir tækju t. d. til þess, að vinnutíminn væri lengdur úr 35½ klukkustund í 42. Ég veit ekki, hvort eins mikil andstaða verður gegn því, og tel rétt, að n. athugaði, hvort ekki er hægt að ná samkomulagi. Við getum ekki lifað á því að vinna 35 stundir á viku, eða bara 15 stundir, eins og ákveðið er um suma embættismenn. (Dómsmrh.: Hvaða embættismenn eru það?) Það er t. d. rektor menntaskólans, sem aðeins er ætlað að kenna 15 stundir í viku, og þó ekki nema nokkurn hluta ársins. (Dómsmrh.: Aðalstarf hans er fólgið í öðru.) Já, en honum er aðeins ætlað að kenna 15 stundir, yfirkennurum 18 og öðrum kennurum 24 stundir. Svo er svo og svo mikið frí frá störfum. Hvað vinnutíminn verður margar stundir í viku, er ekki gott að segja, en ætli það verði mikið yfir 15 stundir? Ekki verður heldur vinnutíminn hjá loftskeytamönnunum í Gufunesi sérstaklega langur nú, þegar búið er að skipta vinnunni niður í fimm eða sex vaktir.

Ég get vel hugsað, að erfitt verði að taka upp þessa grein óbreytta, af því að búið er að fella hana, en það þarf ekki að binda þetta við 48 stundir, það má binda það við 41 eða 42 stundir eða eitthvað annað. Ef ekki fæst fylgi við þetta mál hér, þá hafa þessir fimm menn, sem greiddu atkvæði með þessu um daginn, ekki meint það. Ég á erfitt með að trúa slíku um hæstv. utanrrh., þó að svo kunni að vera um hv. þm. N-M.

Ég hefði aldrei trúað því, að hv. 1. landsk. yrði með þessu. Það er hans lifibrauð að vinna að því, að menn hafi sem hæst laun og vinni sem minnst. En það gæti komið til mála, að þetta yrði samþ., þó að hann verði ekki með því. (SÁÓ: Það er ekki óvanalegt, að maður sé einn á báti.) Nei, því er ég heldur ekki óvanur, og við munum hvorugur fá hjartaslag af því.

Ég vil enn á ný mælast til þess, að fjhn. taki málið til athugunar og skýri frá því við 2. umr., hvort nokkurt fylgi er fyrir því í n. að taka upp 40 stunda vinnuviku eða aðra, svo að það verði lögfest, hvað opinberir starfsmenn eiga að vinna lengi. Það mundi létta störf ráðh., og deilur um reglugerðina, að menn vinni bara 35½ stund í viku, mundu falla niður. Ég vænti þess, að hv. frsm. láti athuga þetta í n.