28.04.1949
Efri deild: 90. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 597 í C-deild Alþingistíðinda. (4247)

197. mál, laun starfsmanna ríkisins

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Þetta frv. er sannast að segja dálítið vanhugsað, og ég held, að það eigi ekki að samþ. það. Ástæðan er næsta augljós. Þessi n., sem hefur verið skipuð til að úrskurða, hvað séu aukastörf og hvað aðalstörf, er bersýnilega skipuð til þess að ná samkomulagi við embættismennina, þess vegna er henni falið að skera úr um þetta atriði. En það er augljóst, ef n. er afnumin, hver úrskurðar, og það er undarlegt, að þetta skuli vera rætt hér án þess, að athygli sé vakin á því. Hvernig fá menn greidda reikninga, sem þeir senda stjórnarráðinu? Bara með því, að fjmrh. úrskurði þá. En svo að farið sé inn á annað atriði, þá er ekki undarlegt, þó að sú spurning vakni, hvort ráðh. fái ekki með þessu frv. dómsvald um það, hvað sé aðalstarf og hvað aukastarf, og það er ekki eðlilegt, að embættismennirnir sætti sig við það. Eins og nú er, hafa þeir, eins og hver annar, rétt til að bera það undir dómstólana, hvort ráðh. hefur úrskurðað rétt. Í frv. segir: „Fjmrh. úrskurðar, hver aukastörf sé rétt að telja til aðalstarfs og hver beri að launa sérstaklega“. Það er spurning, hvort með þessu er ekki loku skotið fyrir það, að embættismenn geti sótt rétt sinn til dómstólanna um þetta atriði. Ef n. er afnumin, þá kemur það í staðinn, sem ætíð hefur verið, úrskurður fjmrh. (HV: Og ríkisráðsmaðurinn.) Já, og ríkisráðsmaðurinn. Það ætti því að vísa frv. frá með rökst. dagskrá, því að það er það eðlilega, að ráðh. og ráðsmaður taki við, þegar n. er farin. Ég ætla svo ekki að eyða fleiri orðum að þessu, en vildi víkja nokkrum orðum til hv. þm. Barð.

Hv. þm. Barð. hefur undarlega ástríðu til þess, þó að hann beri öðrum á brýn — - — Hvar er hv. þm. Barð.? Það er rétt að sækja hann. Hann er vanur að vilja, að aðrir hlusti á sig, og ég vildi gjarnan tala til hans um þetta mál. ——Það var út frá því, sem ég hafði sagt, að ég taldi, að vísa ætti málinu frá með rökst. dagskrá; því að það væri vanhugsað. Ég skal ekki endurtaka það, en ég vildi víkja nokkuð að því, sem hv. þm. Barð. sagði um vinnutíma rektors. Hv. þm. Barð. sagði, að hv. þm. N-M, hefði bara skammir um Sjálfstfl. fram að færa. Það virðist af fundi, sem haldinn var fyrir nokkru af launamönnum, þar sem hv. þm. Barð. talaði, og ræðu hans áðan, að honum sé svipað farið viðkomandi rektor. Ég veit ekki, hvað það á að þýða að segja, að rektor vinni bara 15 stundir á viku. Það kann að vera, að hann kenni 15 stundir á viku, en hvaða rök eru það? (HV: Það er ólíklegt, að hann kenni meira en 2–3 stundir á viku.) Já, það er ólíklegt með tilliti til þess mikla starfs, sem hvílir á honum fyrir utan kennsluna. Ég hef nokkrum sinnum þurft að ná í rektor milli klukkan tólf og eitt og veit, að hann kemur aldrei heim í mat fyrr en klukkan eitt eða langt gengin í tvö. Hann hefur ekki tíma til að fara heim fyrr. Hann er á skrifstofunni til viðtals og til þess að gera ýmsar ráðstafanir frá því klukkan 11 og fram undir klukkan tvö. Það vita allir, að aðalstarf rektors er ekki kennslan, heldur stjórn skólans, og það er einkennilegt, ef hann getur kennt 15 stundir á viku, því að það er ærið starf að stjórna skólanum, þó að ekki komi kennsla til viðbótar. Starf rektors er erfiðara en flestra annarra embættismanna. Þegar hv. þm. Barð. telur það óviðkunnanlegt, að ráðizt sé á flokka og þm., eins og hann segir, að hv. þm. N-M. geri, hvað á maður þá að segja um það, þegar ráðizt er hér á fjarstadda embættismenn, eins og hv. þm. Barð. hefur gert?

Viðvíkjandi vinnutíma embættismanna og því, sem hv. þm. N-M. sagði, vildi ég segja, að það fara að verða einkennileg vinnubrögðin á Alþ. Reglugerðin um starfstíma embættismanna var samþ. sem kosningamútur í sambandi við síðustu kosningar. L. um almannatryggingarnar og l. um orlof voru túttur, sem stungið var upp í forustumenn verkalýðsflokkanna til þess að hafa þá góða, meðan verið var að vinna myrkraverkin í fjármálunum. Nú er búið að hnupla orlofsfénu, eins og hv. þm. Barð. hefur sagt, byrjað að afnema þessa löggjöf og sagt, að þetta sé ekki framkvæmanlegt. Um vinnutíma opinberra starfsmanna er sama vinnuaðferð höfð. Allt er í öngþveiti, svo að fjármálin riða á .... það kannast allir við kvæði Þorsteins Erlingssonar, svo að það er óþarfi að segja meira. Þegar komið er á þann barm, þá er risið upp til þess að afnema orlofsl., breyta vinnutíma opinberra starfsmanna, eyðileggja beztu tryggingalöggjöf í heimi og afnema ýmsar stofnanir. Og þá rísa upp ráðh. Alþfl. og spyrja undrandi: „Hvað er þetta? Þetta eru frv., sem þið sjálfir hafið flutt og samþ.“ En það eitt er víst, að þeir eiga áreiðanlega eftir að reka upp enn stærri augu. Og það er ástæða til þess að vekja eftirtekt ekki aðeins hv. þd., heldur alþjóðar á þessu. — Ég fer út í þessi mál svo nákvæmlega að gefnu tilefni í ræðu hv. þm. Barð., þar sem hann talaði svo mjög um afstöðu hv. 1. þm. N-M. til þessa máls. 1946 settu þessir flokkar reglugerð um starfstíma opinberra starfsmanna og notuðu hana sem nokkurs konar kosningabeitu, en nú þegar reglugerðin er orðin óvinsæl, þá á að fara að afnema hana. Það voru líka sett orlofslög, tryggingalög o. fl. af sömu mönnum, sem nú berjast eins og ólmir væru til að afnema þau. Það virðist vera ástæða fyrir hv. þm. Barð. að móðgast, þegar á þetta er minnzt, eða hitt þó heldur! Nei, staðreyndin er sú, að þeir menn, sem settu þessi lög og státuðu af þeim í fyrstu, eru búnir að gera þau svo óvinsæl, að þeir berjast nú hver sem betur getur til að afnema þau. Ég legg því til, að Alþfl. og Sjálfstfl. séu látnir eiga sig með tryggingal., orlofsl. o. fl., því eins og einu sinni var sagt, þá eigast þeir einir þar við, er ég ekki hirði, þótt drepi hvor annan. Þeirra er skömmin hvort eð er. Allt þetta er sagt að gefnu tilefni í ræðu hv. þm. Barð.