02.05.1949
Efri deild: 92. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 603 í C-deild Alþingistíðinda. (4262)

199. mál, orlof

Björn Ólafsson:

Herra forseti. Ég skal ekki blanda mér í það, í hvaða n. þetta mál fer, en hallast þó að því, að það eigi heima í fjhn., því að hér er um það spursmál að ræða, hvort ávaxta skuli þetta fé á annan hátt en áður, og er þetta því ákvörðun um fjármál. Undanfarið hefur póstsjóður haft þessi mál með höndum; honum hefur verið falið að taka við fénu inn og greiða það út, og það verður náttúrlega að teljast jafnöruggt, hvort féð er geymt í vörzlum póstsjóðs eða bankanna, nema hv. flm. telji hættu á, að póstsjóður misnoti það og af því gæti stafað skaði fyrir ríkissjóð. Með öðrum orðum, það hlýtur að vaka fyrir hv. flm. að vilja flytja féð á tryggari hendur. Þetta frv. er vantraustsyfirlýsing á þessa stofnun, sem er hluti af ríkissjóði sjálfum. Það má deila um það, á hvern hátt málunum væri betur komið, en ég verð að segja, að meðan ekki koma fyrir alvarleg embættisafglöp í sambandi við þetta, þá er ekki viðeigandi að taka þetta fé úr höndum póstsjóðs, nema hv. flm. geti með sterkum rökum skýrt nauðsyn þess að firra ríkissjóð eða launþegana í landinu yfirvofandi tapi. Annan tilgang getur flutningur þessa frv. tæpast haft.