20.12.1948
Sameinað þing: 29. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 3 í D-deild Alþingistíðinda. (4278)

111. mál, frestun á fundum Alþingis

Forsrh. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Herra forseti. Ég leyfi mér fyrir hönd ríkisstj., eins og í till. greinir, að leggja til, að Alþ. ákveði fyrir sitt leyti að fresta fundum þingsins frá og með deginum í dag að telja, enda komi það eigi siðar saman en 21. jan. n. k. Ástæður, sem liggja til þess, að þessi þáltill. er fram borin nú, eins og á s. l. ári, eru þær, að bæði allmargir hv. þm. og þó einkum þeir, sem fara heim til sín um jólin, en heima eiga utan Reykjavíkur og hafa nokkrum störfum að gegna þar í sambandi við áramótin, hafa látið það í ljós við ríkisstj., að þeir óskuðu eftir því, að þingið kæmi ekki saman fyrr en nokkuð væri komið fram í janúarmánuð, og einnig er hitt, að ríkisstj. finnst eðlilegt, að hún fái nokkurt tóm til undirbúnings ýmsum málum, sem Alþ. væntanlega fjallar um, þegar það aftur kemur saman til framhaldsfunda á næsta ári. Fyrir þessar sakir er till. þessi fram komin.

Ég skal leyfa mér að geta þess í sambandi við þessa till., að ríkisstj. hefur rætt um það sín á milli, hvernig hún fyrir sitt leyti teldi rétt og sanngjarnt, að kaupgreiðslu til þm. skyldi vera háttað, meðan á þessari fundafrestun stendur. Og ríkisstj. hefur setið á fundi nú í hléinu á milli þingfundanna í dag með þeirri n., sem ákvarðar um kaupgreiðslu eða kaupreikninga alþm., og ríkisstj. vildi fyrir sitt leyti, þegar á allt var litið, frekar mæla með því, að kaup þm. héldist þann tíma, meðan þingfrestunin ætti sér stað. En það þýðir vitanlega aftur hitt, að þeir hv. þm., sem ferðast út á land, fá ekki greiddan ferðakostnað fyrir ferðir sínar út á land og til þings aftur í þinghléinu. Og mér er kunnugt um, að nefnd sú, sem fjallað hefur um þetta, vill að meiri hluta til ákvarða þetta fyrir sitt leyti um kaupgreiðslu til alþm. — Í fyrra var það svo, að alþm. fengu — eins og sjálfsagt var — dagkaup fyrir þann venjulega tíma, sem þeir njóta jólaleyfis, sem var fram til 4. jan. Hins vegar var þeim ekki greitt kaup frá þeim tíma og þar til er þing kom saman aftur. Hins vegar ákváðu hæstv. forsetar þá, að allt starfslið þingsins skyldi halda kaupi á þessu tímabili, og það má búast við því, að hæstv. forsetar hafi þá með þeirri ákvörðun gefið það fordæmi, sem þeir væntanlega munu vilja fylgja nú aftur. Og það eru þá líka rök fyrir því, að þm. fái þá greidda dagpeninga á þessu tímabili, þegar starfslið þingsins, sem þó er ekki bundið við störf á þessu tímabili, tekur þar kaup.

Ég vildi með þessum fáu orðum mínum mæla með því, að þessi till. verði samþ.