28.10.1948
Sameinað þing: 9. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 6 í D-deild Alþingistíðinda. (4284)

21. mál, jeppabifreiðar

Steingrímur Steinþórsson:

Mig langar til að segja örfá orð í sambandi við þessa till., ekki svo mjög út frá till. sjálfri, heldur meira almennt um þetta jeppamál frá því það fyrst kom upp fyrir fjórum árum. Ég á ekki sæti í þeirri n., sem fær þetta mál til meðferðar, og þykir því rétt að drepa á þetta við 1. umr.

Ég vil taka það fram, að ég er efni till. samþykkur, svo langt sem hún nær, en mér þykir hún ekki ganga nógu langt. Ég vildi, að hún tæki yfir meira en innflutning til eins árs, og þætti það eðlilegt í sambandi við aðrar áætlanir, sem nú er verið að gera, en úr þessu má bæta. Í sambandi við uppkast það að áætlun, sem Búnaðarfélag Íslands hefur gert, var áætlað, að 1.500 jeppar yrðu fluttir inn á næstu fjórum árum og að helmingur þeirra kæmi á næsta ári, en minna síðari árin.

Ég sé, að fluttar hafa verið brtt. á tveimur þskj. um varahluti, þó að önnur till. eigi í raun og veru ekki heima í sambandi við þetta mál. En það er rétt, að ekki má gleyma varahlutunum. Fjöldi jeppa er nú í strandi vegna varahlutaleysis. Það er óhugsandi, að Alþ. láti málið fara þannig frá sér, að ekki sé rækilega bent á þörfina fyrir varahlutum. Ég geri líka ráð fyrir því, að n., sem fjallar um málið, geri á því einhverjar töluverðar breytingar.

En ég vildi minnast á málið almennt. Það er tvennt í till., sem er eftirtektarvert. Annað er það, að þessir jeppar eiga eingöngu að fara til sveitanna, hitt er það, að setja skal strangar reglur um það, að þeir haldist í sveitunum. Þetta er gott og blessað, en ég vil vekja athygli á því, að í þessu er falin sterk ádeila á nýbyggingarráð og þá ríkisstj., er þá sat. Ég ætla að færa rök að því, að þessi ádeila er rétt, en ég verð þá að taka allt frá byrjun.

Í okt.-nóv. 1945 birti nýbyggingarráð mikla tilkynningu um jeppabíla. Ég átti sæti í nýbyggingarráði á þeim tíma. Ég ætla að leyfa mér að lesa upp hluta úr þessari tilkynningu, með leyfi hæstv. forseta: „Á fundi sínum hinn 5. okt. s. l. gerði nýbyggingarráð samþykkt um að fara þess á leit við landbrh., að hann beitti sér fyrir því í ríkisstj., að innflutningur yrði leyfður á nýjum jeppabílum til afnota við landbúnaðarstörf. Nýbyggingarráð lét þess um leið getið, að það teldi það óhjákvæmilegt, ef leyfið yrði veitt, að það yrði veitt með því skilyrði, að úthlutun bílanna fari eingöngu fram fyrir milligöngu Búnaðarfélags Íslands og hreppabúnaðarfélaganna, sem tryggi það, að bílarnir verði notaðir sem landbúnaðartæki, en gangi ekki kaupum og sölum öðruvísi en undir eftirliti og með samþykki nefndra félagsstofnana.“

Nýbyggingarráð fól mér svo að tala um þetta mál við Búnaðarfélag Íslands, og náðist fullt samkomulag á grundvelli, sem báðir aðilar virtust algerlega sammála um, sérstaklega um það, að úthlutunin færi fram gegnum hreppabúnaðarfélögin og Búnaðarfélag Íslands og að bílarnir yrðu ekki fluttir aftur úr sveitunum.

Ég skal geta þess, að það var 11. des. 1945, er Búnaðarfélag Íslands skrifaði bréf til hreppabúnaðarfélaganna um þetta mál. Ég bar þetta bréf undir nýbyggingarráð, og það samþykkti það. Með leyfi hæstv. forseta vil ég leyfa mér að lesa nokkur orð úr þessu bréfi:

„Stjórnir hreppabúnaðarfélaganna skulu síðan úthluta þeim bílum, sem hvert félag fær til umráða. Við þá úthlutun skal sitja í fyrirrúmi, ef hægt er, að nota bílana á félagslegum grundvelli. Það er, ef nokkrir bændur í félagi geta hagnýtt sér jeppabíl sameiginlega, svo sem til mjólkurflutninga, annarra flutninga eða til hvers konar annarra búskaparstarfa. Skal stjórn hreppabúnaðarfélagsins þá setja reglur um notkun bílsins, sem allir þeir bændur, er að kaupunum standa, skulu undirrita. Sé bílunum úthlutað til einstaklinga, skulu þeir bændur látnir sitja í fyrirrúmi, sem að dómi félagsstjórnarinnar hafa mesta og almennasta þörf fyrir slíkan bíl.

Stjórnir hreppabúnaðarfélaganna skulu láta sérhvern þann, sem fær keyptan jeppabíl, undirrita skuldbindingu um það, að ef hann selji bílinn á næstu tveimur árum, skuli hann skyldur til að afhenda búnaðarfélagsstjórninni hann til ráðstöfunar, sem þá úthlutar honum að nýju. Stjórn Búnaðarfélags Íslands mun síðar senda skuldbindingarskírteini, sem kaupendur skulu látnir undirrita.“

Ég skal ekki þreyta hv. þm. á því að lesa meira úr þessu bréfi, en það sýnir ljóslega, að reynt var að fullnægja því, sem nýbyggingarráð fyrst og fremst lagði megináherzlu á.

Þetta var í árslok 1945. Búnaðarfélagið hóf síðan úthlutanir sínar á þessum grundvelli í febrúar 1946. Tveir stjórnarnefndarmenn, Bjarni Ásgeirsson, hæstv. núverandi atvmrh., og Pétur Ottesen, hv. þm. Borgf., úthlutuðu bifreiðunum fyrir hönd stjórnar félagsins með þeirri aðstoð, sem ég gat veitt, og þeir bera því fyrst og fremst ábyrgð á úthlutuninni. Síðan úthlutaði Búnaðarfélagið 90 jeppabílum 27. febrúar, 89 23. apríl, 45 20. maí, 75 11. júlí og 37 2. ágúst, eða samtals 336 jeppabílum. En 10. ágúst þetta ár berst Búnaðarfélagi Íslands bréf frá nýbyggingarráði, þar sem því er lýst yfir, að það hafi ekki leyfi til að úthluta nema 14 bílum til, það hafi þegar úthlutað 336 bílum og hafi ekki haft til úthlutunar nema 350 bíla alls. Það verður tæpast sagt, að þetta hafi verið nærgætnislegt af hálfu nýbyggingarráðs, þar sem það var gert fyrirvaralaust og engin tök voru því á því að jafna bílunum sem jafnast niður, ef miða skyldi við jafnlitla tölu.

Ég skal geta þess, að Búnaðarfélag Íslands fylgdi mjög nákvæmlega þeim ákvæðum, sem samkomulag varð um milli nýbyggingarráðs og Búnaðarfélagsins um úthlutun bílanna. Gengið var út frá, að þeir menn, sem bílana fengju, undirrituðu skuldbindingu um það, að þeir úthlutuðu búnaðarfélögum sínum bílum, ef þeir vildu losna við þá innan tveggja ára, eins og um var samið. Búnaðarfélagið hélt sig algerlega við það að úthluta ekki persónulega þessum bílum, heldur eingöngu félagslega, þannig að fyrst fram eftir sumrinu var ekki úthlutað til neinna nema búnaðarfélaganna. Ég vil geta þess, að á þeim 450 bílum, sem Búnaðarfélagið fékk til ráðstöfunar á þessu ári, þá hefur úthlutunin verið framkvæmd á þann hátt af hálfu félagsins, að til hreppabúnaðarfélaganna sjálfra hafa farið 392 bílar og til búnaðarsambandanna og Búnaðarfélags Íslands 21 bíll. Flestöll búnaðarsamböndin hafa fengið bíl, sum tvo, og stjórnarmenn búnaðarfélaganna hafa fengið fjóra eða fimm bíla, sem þeir hafa notað í félögum sínum. Þá hefur verið úthlutað til annarra stofnana landbúnaðarins 19 bílum, til stjórnar eins nautgripasambands og ýmissa fleiri, mjólkursamlaga, skógræktarinnar og sandgræðslunnar, sem fengu bíla. Loks eru svo 16 bílar, sem úthlutað hefur verið til einstaklinga, þar af eru þrír, sem gengið hafa til dýralækna, sem starfa sérstaklega á vegum landbúnaðarins. — Ég hef talið rétt í sambandi við þetta mál að gefa skýrslu um það, hvernig þessi úthlutun fór fram á þeim 448 jeppabílum, sem Búnaðarfélag Íslands gaf leyfi fyrir.

Það liggur í hlutarins eðli, að það, sem hv. flm. leggja hér áherzlu á, er það, að settar verði strangar reglur um það, að jeppabílar verði ekki fluttir úr sveitum landsins. Nýbyggingarráð fór á sínum tíma að úthluta bílunum í stríðum straumum, þar sem engin slík skilyrði voru sett, ekki einu sinni grennslazt eftir því, hvaða menn hefðu fengið jeppabíla. En það fór svo í einu eða tveimur tilfellum, að menn, sem búnir voru að fá úthlutað bíl gegnum hreppabúnaðarfélag sitt, fengu um það tilkynningu frá nýbyggingarráði, án þess að hafa dottið í hug að fara fram á það, að þeir hefðu fengið úthlutað jeppabílum. Svona hlálegir hlutir komu fyrir í sambandi við það flaustursverk, sem kom fyrir í nýbyggingarráði. Ég hvarf frá störfum í nýbyggingarráði í apríl 1946, áður en fyrsta bílasendingin kom til landsins. — Mér þykir því mjög vænt um framkomu þessarar þáltill. Ég mun að sjálfsögðu fylgja henni til nefndar og vænti, að hún komi þaðan endurbætt og nái síðan samþykki hæstv. Alþ.