28.10.1948
Sameinað þing: 9. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 13 í D-deild Alþingistíðinda. (4288)

21. mál, jeppabifreiðar

Forseti (JörB):

Hv. þm. Barð. kvartar yfir því, að fjmrh. skuli ekki vera viðstaddur við þessar umræður. (GJ: Ég kvarta undan því, að forseti skuli ekki hafa látið hann vita að verið væri að bera á hann ásakanir í þessum umr.) Ég skil ekki hv. þm. Barð. Þó að hann hafi fyrr gert kröfur til mín um mannlegar dyggðir, þá bjóst ég ekki við því, að hann ætlaði mér að vita fyrir fram, hvað menn segðu í umræðum um þetta mál. Enn er umræðum ekki lokið, og er því hægurinn hjá, að ráðh., sem var formaður nýbyggingarráðs, honum gefist kostur á að taka til máls, áður en fyrri umr. málsins er lokið. Annars er búið að tala um það við fyrsta flm. að fresta umræðu af þessum ástæðum, og svo í öðru lagi til þess að enn betra tóm verði til að íhuga málið og ræða. Annars verður umr. ekki lokið að sinni, því að nokkuð margir eru á mælendaskrá. — Ég er hér staddur í fjarveru forseta, en ég þykist vita, að forseti hefði ekki frekar en ég haft vitneskju um, hvernig umr. mundu falla, og því ekki getað gert ráðstafanir til þess, að hæstv. fjmrh. yrði við. Ég býst við, að forseti hafi ekki haft vitneskju um það, hvort hann mundi koma hér eða ekki. Vera má, að hæstv. fjmrh. hafi verið forfallaður frá að koma, en það er mér ekki kunnugt um.