01.11.1948
Sameinað þing: 11. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 36 í D-deild Alþingistíðinda. (4301)

21. mál, jeppabifreiðar

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Mér finnst þessar umræður hafa orðið æði spaugilegar á köflum og þær hafa ekki snúizt um till., sem fyrir liggur, heldur fyrst og fremst um jeppainnflutninginn fram til þessa. — Hæstv. menntmrh. sagði síðast, að úthlutun nýbyggingarráðs á sinum tíma hefði verið hneyksli. — Hæstv. fjmrh. kvað svo að orði, að úthlutun Búnaðarfél. hefði verið mjög ábótavant og nærri því hneyksli. — Hv. þm. Barð. tekur enn meira upp í sig, og hefur talið úthlutun Búnaðarfél. algert hneyksli. — Og enn hefur hv. 1. þm. Skagf. sagt um úthlutun nýbyggingarráðs, að henni hafi verið mjög ábótavant. — Loks taldi hv. 1. flm., að úthlutun allri á jeppabifreiðunum hafi verið mjög ábótavant.

Þannig hafa 2 hæstv. ráðh. lýst því yfir, að úthlutuninni hafi verið ábótavant, og 2 hv. þm. tekið undir það ásamt flm., að báðir hafi rétt fyrir sér.

Ég vil nú sem óbreyttur þm., sem hlustað hefur á umr. og hefur áhuga á málinu, eins og vera ber, þar sem um góð mál er að ræða, — ég vil nú bera fram eina spurningu: Er ekki þegar svo mikið sagt um þessa úthlutun og stóru orðin orðin svo mörg, að það verði ekki unnt að komast hjá því að taka þetta til gagngerðrar athugunar og gera ráðstafanir til þess, að málið verði rannsakað? — Ég held, að annað væri óverjandi. Og þar sem ég geri ráð fyrir, að málið fari til allshn., vildi ég mega beina því til hv. n., að hún rannsaki málið ýtarlega og helzt að hún semji skrá yfir alla þá, sem úthlutað hefur verið jeppum, — það eru hvort sem er ekki nema 1.220 aðilar, — og athugi, hvað rétt sé í því, sem hér hefur verið staðhæft í ásökunum hæstv. ráðh. og hv. þm., að úthlutun þeirri hafi verið ábótavant. Sjálfur vil ég hér engan dóm á leggja, þar sem ég er þessu máli ókunnugur. En ég vildi bæta því við, að þegar svo hefur hvinið í mönnum (og ég vil taka það fram, að ég býst við því, að réttmætar ástæður hafi legið til þess, að svo hvein í mönnum, þar sem ýmislegt, sem ég hef heyrt utan að mér um málið, bendir til þess) — fyrst svo hefur hvinið í mönnum út af úthlutun jeppanna, hvað mundi þá verða, ef úthlutun fólksbilanna yrði tekin til athugunar? — Undanfarin ár hafa verið fluttar inn fólksbifreiðar svo að þús. skiptir; nokkuð hefur farið til bifreiðaumboða, sem hafa ráðstafað þeim eftir geðþótta, sem mestu hefur verið úthlutað beint til einstakra manna; og það mun allra manna mál, að sú úthlutun sé hið mesta hneyksli. Ef ástæða er til að rannsaka jeppaúthlutunina, er vissulega einnig ástæða til að rannsaka úthlutun fólksbifreiðanna. En sjálfsagt væri að bíða þó fyrst eftir því, að allshn. ljúki rannsókn sinni á jeppaúthlutuninni, og leiði hún í ljós, að sú úthlutun hafi verið hneykslanleg, þá er rétt að taka fólksbifreiðarnar fyrir. Ég mun beita mér fyrir því, ef misfellur koma í ljós við þá rannsókn.