25.01.1949
Sameinað þing: 31. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 40 í D-deild Alþingistíðinda. (4308)

21. mál, jeppabifreiðar

Sigurður Kristjánsson:

Herra forseti. Það hafa komið fram hér upplýsingar, sem ég undrast nokkuð, í þessu máli. Till. flm. var upphaflega að skora á ríkisstj. að flytja inn 600 jeppabifreiðar á þessu yfirstandandi ári, og hefur n. hækkað þá tölu upp í 750. Ég hef, eins og kunnugt er, þreytt það mjög fast að fá flutta inn eina jeppabifreið, svo að árum skiptir. Og alveg nýlega komst fjárhagsráð að þeirri niðurstöðu, að landið risi ekki undir því, og synjaði því og sagði mér, að þegar slík umsókn kæmi, yrði hún ekki lesin. Þetta mál kom svo fyrir Alþ., og hv. Nd. kom því í n., og það hefur fengið þannig meðferð þar, að þótt um milliríkjasamninga hefði verið að ræða, hefði það ekki kostað meiri heilabrot. Og á endanum komst n. að þeirri niðurstöðu, að það væri ofvaxið íslenzka ríkinu, jafnvel svo hættulegt, að ekki gæti komið til mála að flytja til landsins á þessum tímum eina jeppabifreið. Nú liggur fyrir sömu mönnum till. um að flytja inn nokkrar jeppabifreiðar, till. um að flytja inn 600 bifreiðar og nú 750. Ég er alveg hissa á, að ekki skuli líða yfir einn einasta hv. þm. Hvernig væri, að hv. þm. gerðu sér ljóst, hvaða samræmi er í þessari afstöðu til mála? En ástæðan til þess, að ég kvaddi mér hljóðs, var samt ekki þetta, heldur það, að hæstv. samgmrh. skýrir frá því, að n., sem ekki taldi ástæðu til, að bóndinn, sem hefur algerða sérstöðu vegna opinbers ábyrgðarstarfs síns, fengi einn jeppa, leggur nú til, að fluttar verði inn nokkur hundruð bifreiðar. Þetta eru skoðanaskipti í hinni valdamestu n., sem sett hefur verið af Alþ. Allshn. hefur séð ástæðu til þess að gera breyt. á till., um að hækka tölu bifreiðanna, og einnig aðra breyt., sem er á þá leið að binda ekki þennan innflutning við venjulegar jeppabifreiðar, heldur eitthvað svipaðar bifreiðar frá Englandi, bifreiðar, sem enginn maður þekkir neitt til og enginn maður veit, hvort fært er að flytja inn í stórum stíl né varahluti í þær. En við höfum fengið reynslu fyrir hinum amerísku bifreiðum og hana góða, því að fjölmargar slíkar bifreiðar eru til í landinu og þar af leiðandi auðveldara að fá varahluti og viðgerð á þeim. Það er almenn viðurkenning á því hér á landi, að ensku bifreiðarnar séu bæði stærri og óheppilegri fyrir okkur og þá einnig dýrari heldur en þær amerísku, sem hingað hafa flutzt: Hins vegar er það vitað, að í okkar dollaraleysi hættir bæði viðskiptan. og bönkum við að reyna að ýta viðskiptum okkar frá Ameríku, og það er ósköp eðlilegt, en við höfum fengið smjörþefinn af því, við höfum fengið þá reynslu, að það hefur verið farið út í vöruskiptaverzlun, sem hefur leitt til þess, að ýmsar vörutegundir hafa hvorki meira né minna en sexfaldazt í verði. Með öðrum orðum, vara, sem fyrir þær hefur verið látin, hefur verið seld fyrir smámuni, alveg sáralítið verð, ef miðað er við vörur, sem fást í staðinn. Og þessi vöruskiptareynsla hefur orðið til þess, ekki einungis að fá eins dýrar vörur, heldur að þær þjóðir, sem látið hafa okkur í té vörur í þannig skiptum, hafa látið okkur oft hafa þær vörur, sem aðrar þjóðir vilja ekki. Ef nokkuð yrði úr samþykkt þessarar till. eins og hún liggur fyrir, mundi það leiða til þess, að reynt yrði að beina þessum viðskiptum sem mest frá Ameríku, sem gæti þá orðið til þess, að við fengjum ef til vill eitthvert „skítti“, sem aðrir vilja ekki kaupa, og þá einnig miklu dýrara, eins og ég tók fram áðan. Þess vegna er ég undrandi, að n. skyldi koma með þessa till., og vil ég mæla eindregið á móti því, að brtt. á þskj. 268 verði samþ.