25.01.1949
Sameinað þing: 31. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 41 í D-deild Alþingistíðinda. (4309)

21. mál, jeppabifreiðar

Steingrímur Steinþórsson:

Það eru aðeins örfá orð. Ég vildi fyrst taka fram, af því að hv. frsm. vitnaði í áætlun Búnaðarfélags Íslands um innflutning á jeppabifreiðum á vegum Búnaðarfélagsins, sem gerð var í sambandi við hina svonefndu Marshall-áætlun, sem þá var miðuð við 4 ár af hálfu Búnaðarfélagsins, eins og þetta „plan“ mun hafa verið hugsað, að þá gerðum við í þeirri áætlun ráð fyrir innflutningi á 1.500 jeppabifreiðum á 4 árum. Þetta er náttúrlega ekki mikið, en ég vil taka fram sérstaklega, að þetta var gert með hliðsjón af því að, að öðru leyti yrði fullnægt þeirri áætlun, sem við gerðum um innflutning á léttum dráttarvélum, sem við gerðum ráð fyrir, að yrðu 3 þús., því þótt þarna sé ekki að öllu leyti um hliðstæð tæki að ræða, þá má þó nota þau jöfnum höndum við bústörfin. En hitt er rétt, að á árinu 1949 höfum við gert ráð fyrir, að það þyrfti að flytja inn 750 jeppabifreiðar, og það var með tilliti til þess, að ásóknin hefur verið svo geysimikil frá bændum, að við töldum, að það yrði erfitt, þótt allar þessar vélar gengju til landbúnaðarins að dómi þessarar n. Það munu vera eitthvað yfir 2 þús. bændur, sem hafa sótt um, og sóttu allir fast, þó mismunandi fast. Þörfin er auðvitað misjöfn. En að okkar dómi er ekki hægt að greiða fyrir þessum bændum, sem hafa svipaða aðstöðu, með lægri upphæð en þessari. Ég vildi aðeins skýra frá þessu af því, að hv. frsm. minntist á þessa áætlun. Það verður að taka á þessum málum með skilningi. Ef hægt er að fullnægja landbúnaðinum með léttum dráttarvélum, sem við öll heimilisstörf notast betur en jepparnir, þó að það megi nota þá við mörg þeirra, þá verður náttúrlega að takmarka hitt að einhverju leyti. Og mitt álit er, að ef á 4 næstu árum eru fluttar inn 1.500 jeppabifreiðar og varahlutir til þeirra, þá megi segja, að séð sé vel fyrir bílakosti í sveitinni, ef jafnframt væri hægt að fullnægja þörfinni hvað snertir léttar dráttarvélar. Þetta vildi ég sérstaklega taka fram varðandi þetta mál nú.

Ég ætla mér ekki að ræða það, sem farið hefur á milli hæstv. ráðh. og hv. frsm. um þetta mál. En úr því að ég stóð upp, vil ég leyfa mér að beina einni spurningu til hv. frsm. allshn., algerlega að gefnu tilefni. Ég held, að það hafa verið strax fyrsta daginn eftir að þessi till. fór til n., löngu fyrir áramót í vetur, að þá komu tilmæli til Búnaðarfélags Íslands frá hv. allshn. um það, að Búnaðarfélagið afhenti n. skýrslu sem það hefur, um innflutning þeirra jeppabifreiða, sem Búnaðarfélagið úthlutaði á sínum tíma. Ég sendi næsta dag til n. þau gögn; sem voru í höndum félagsins um úthlutun þeirra 45 jeppa, sem Búnaðarfélagið úthlutaði. Ætlaðist ég til, að hægt væri af þeim gögnum að sjá, hvernig sú úthlutun hefði farið fram. Nú langar mig til að spyrja, í hvaða tilgangi n. óskaði eftir þessu, og þá um leið, hvort ekki hafi verið óskað eftir sams konar upplýsingum frá öðrum þeim aðilum, sem hafa haft úthlutun jeppabifreiða með höndum, og hvort n. hafi gert athugun og skýrslu um það, hvernig úthlutunin hefur farið fram hjá hvorum aðila um sig, og hvort það sé ekki tilgangur n. að gefa yfirlit um það.