25.01.1949
Sameinað þing: 31. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 50 í D-deild Alþingistíðinda. (4315)

21. mál, jeppabifreiðar

Jón Pálmason:

Herra forseti. Ég er einn af flutningsmönnum þessarar þáltill., og finnst mér því ástæða til þess, að ég segi hér nokkur orð. Ég tek það fram, að ég legg enga áherzlu á, að málið verði afgreitt í dag, enda eru svo margir á mælendaskrá, að óvíst er, að svo yrði, þótt því væri ekki frestað. Ég leyfi mér að þakka hv. allshn. fyrir afgreiðslu hennar á till., því að það var ekki nóg með, að hún legði til, að till. væri tekin til greina, heldur hefur n. bætt við till. meiru en við flm. sáum okkur fært að fara fram á. Ég gerðist flm. þessarar till. einkum af því, hvernig farið hefur verið með þetta mál á undanförnum árum, því að ekki hefur verið leyft að flytja inn milli 90–100 jeppa, sem búið var að veita leyfi fyrir, þegar fjárhagsráð tók við störfum, og er sú meðferð alleinkennileg. Það er mikil eftirspurn eftir bifreiðum alla vega, og þeirri eftirspurn hefur ekki verið fullnægt, en það er hins vegar upplýst í þskj., að á fyrstu 9 mánuðum ársins 1948 voru fluttar inn bifreiðar fyrir 4 milljónir króna, en enginn jeppi. (Einn, segir sessunautur minn, og kann það að vera rétt.) En vegna þessarar meðferðar hef ég gerzt flm. þessarar till., og legg ég áherzlu á, að hún verði hér afgreidd, hvort sem það verður í þeirri mynd, sem hv. allshn. hefur afgreitt hana, eða þá með einhverjum breytingum. Það er kunnugra en frá þurfi að segja, að jeppabifreiðar eru svo hentug tæki í sveitunum, að meiri eftirspurn er eftir þeim, en nokkru öðru, og þótt fluttir yrðu inn 600 jeppar á þessu ári, mundi það engan veginn svara eftirspurn.

Þá vík ég að því í tilefni af ræðu hæstv. viðskmrh., að hann benti á, að útflutningur landbúnaðarafurða minnkaði um helming. Ég vefengi ekki þau ummæli, en hvers vegna verður þetta? Það er vegna þess, að framleiðsla landbúnaðarafurða dregst nú saman, af því að ekki er nógu vel búið að landbúnaðinum. Fólkið streymir úr sveitunum til þægindanna í bæjunum. Upplýst er nú, að horfur séu á, að allt kindakjöt, sem framleitt var á síðasta ári, verði búið um sumarmál, og ekkert af framleiðslu síðasta árs var flutt út. Þetta stafar auðvitað af því, að fólkinu fjölgar í bæjunum, en fækkar í sveitunum og landbúnaðarframleiðslan dregst saman. Það er enn fremur upplýst, að af innanlandsneyzlunni eru um 50% innanlandsframleiðsla. Ég tek undir þau orð hv. frsm., að það er ekki sambærileg þörf fyrir aukinn verkfærakost í sveitunum og fyrir vinnusparandi tæki í kaupstaðina. Það er engin furða, þótt bændum ógni, er þeir sjá þúsundir nýrra bíla hér í höfuðstaðnum, þegar þeim er synjað um svo þýðingarmikil tæki sem jepparnir eru. Ég mun ekki hafa hér um fleiri orð að sinni. Ég reikna með, að málinu verði frestað bráðlega, og má þá athuga, hvort ekki sé hægt að breyta tölu þeirri, sem allshn. hefur gengið út frá, ef svo þröngt er um okkar gjaldeyrismál sem heyrzt hefur. Það kemur alltaf til mála að breyta till. eitthvað, en vegna þess, hvernig farið hefur verið með þetta mál undanfarin tvö ár, er þörfin enn meiri en líkur eru til, að þyrfti að vera.