10.12.1948
Neðri deild: 31. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 291 í B-deild Alþingistíðinda. (432)

17. mál, kjötmat o.fl.

Frsm. (Jón Sigurðsson):

Þetta mál hefur verið athugað af landbn. Hefur hún átt tal við yfirkjötmatsmenn til að afla sér frekari upplýsinga. Árangurinn af þessu varð sá, að n. hefur borið fram nokkrar brtt., en þær eru þannig vaxnar, að aðeins ein þeirra er efnisbreyt., en hinar eru mest leiðréttingar á prentvillum. Það er 2. brtt., sem felur í sér efnisbreyt. og er á þá leið, að síðasti málsliður 3. gr. orðist svo: Ráðuneytið heldur skrá yfir löggilt sláturhús og frystihús, þar sem hvert þeirra hefur sérstakt löggildingarmerki eða löggildingarnúmer, og skal númer þetta eða merki koma fram í kjötstimpil, sem notaður er til auðkennis í hlutaðeigandi sláturhúsi. — Eftir þeim upplýsingum, .sem n. aflaði sér, þá er í sérstöku samkomulagi við Englendinga svo ákveðið, að það sé ákveðinn stimpill, sem það kjöt er merkt með, sem út er flutt, og það er ekki talið ráðlegt að breyta þeim stimpli.

4. brtt. er á þá leið, að n. gerir ráð fyrir, að fyrst fari fram mat á kjötinu og ef yfirmats er þörf, þá fari það fram, en skv. frv. mætti hugsa sér, að yfirkjötmatsmanni væri ætlað að meta allt kjöt, en það var aldrei tilgangurinn. Þetta er aðeins skýrara orðalag til að taka ljósar fram þá hugsun, sem í frv. er.

Að endingu skal ég geta þess, að fyrir stuttu vakti hv. þm. V-Húnv. athygli á einu atriði í frv., sem ef til vill þyrfti athugunar við, en af því að fyrirvarinn var svo stuttur, þá hef ég ekki haft tíma til að bera það undir n., en það skal verða gert fyrir 3. umr.

Ég þarf svo ekki fleira að taka fram, en legg til, að frv. verði samþ. með þessum breyt.