02.02.1949
Sameinað þing: 35. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 57 í D-deild Alþingistíðinda. (4322)

21. mál, jeppabifreiðar

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég skal reyna að vera stuttorður um málið. Þegar þetta mál var til umr. hér síðast, var ég einn af þeim, sem benti á, að varhugavert væri að afgreiða till., eins og hún kom frá allshn. Ég tók undir þau orð, sem hæstv. viðskmrh. talaði hér í sambandi við þetta mál. Ég fékk þá ýmsar hnútur hér frá hv. flm., t. d. um það, að ég væri kominn hér í sérstaka afstöðu gegn bændastéttinni, og þar með, að ég hefði ekki hugsað nægilega um hag þeirra manna, sem ég ætti að vera fulltrúi fyrir hér á Alþ. Eitt af dagblöðum bæjarins sendi frétt út um það, að þm. Barð. væri mikið á móti þessum framfaramálum bænda.

Nú sýnist mér risið á n. hafa heldur lækkað, eftir að hún hefur rætt við hæstv. viðskmrh. Nú eru menn beðnir að minnast þess, þegar atkv. verða greidd um þessa till., að um hana eigi ekki að gilda annað eða meira en það, sem hæstv. viðskmrh. fór fram á, þegar ég studdi hans mál hér, sem sé, að þetta verði gert í samræmi við annan innflutning, þ. e. a. s., ef gjaldeyrir væri til fyrir þessu magni. Það er látið í hendur hæstv. viðskmrh. og fjárhagsráðs að fara með málið, eins og þeim aðilum sýnist sjálfum. Það er ekki bara vikið frá þeirri ákvörðun að hækka innflutning jeppabifreiðanna úr 600 upp í 750, heldur er hér farið niður fyrir 400, eins og upplýst er, að hæstv. ráðh. hugsar sér að flytja inn. Þetta er allur árangurinn. Það er rétt að taka fram, að eftir nýjustu upplýsingum um þetta mál — og er gott fyrir formann n. að athuga þetta, vegna þess að hann var að tala um misræmi, sem ætti sér stað við skiptingu þeirra bifreiða, sem flytja á inn — þá mun hugsað að flytja inn á árinu 1949 200 fólksbifreiðar. Nú vildi ég því biðja formann n. að athuga, hvort ekki er hægt að fá samkomulag um að færa til af þessari áætlun eitthvað af þessum 200 bifreiðum og bæta við þá upphæð, sem allshn. hefur nú sætt sig við, þ. e. 400 jeppabifreiðarnar. Ég hef einnig fengið upplýsingar um, að flytja eigi inn 500 vöru- og jeppabifreiðar. Það er ekki flokkað niður hér, hvernig á að skipta þessu, en viðskmrh. hefur gefið upp, að fluttar yrðu inn 400 jeppabifreiðar og 100 vörubifreiðar. En við vitum, að svo mikið er til af vörubifreiðum í landinu, að til vandræða horfir að starfrækja þær allar. Væri það ekki verkefni fyrir n. að ræða enn einu sinni við hæstv. viðskmrh. og við fjárhagsráð og fá að vita, hvort ekki er hægt að ná samkomulagi um að sameina þessar áætlanir um innflutning jeppabifreiða. Ég er á sama máli um það, að óverjandi sé að flytja inn 200 fólksbifreiðar á árinu 1949, en skera niður í 400 innflutninginn á jeppabifreiðunum. Það væri þess vegna æskilegt að fá samkomulag um þetta, áður en till. er kastað svona út, sem er lítill sómi fyrir þá menn, sem hafa ætlað að bera þetta mál fram til sigurs.

Hv. 1. þm. Arn. sá ástæðu til þess í sambandi við þetta mál að bera saman gjaldeyrisöflun hins íslenzka landbúnaðar og gjaldeyrisöflun togaraflotans íslenzka. Hv. 1. þm. Árn. sagði, að á árinu 1947 hefði nettótekjuöflun af landbúnaðinum orðið 26 millj. kr. í erlendum gjaldeyri, en nettógjaldeyrisöflun togaranna mundi hafa verið 34 millj. kr. Ég skal ekkert um það segja, hvort þessar tölur eru réttar, en ég vil benda á, að í áætlun fyrir 1949, sem byggð er á reynslu, er talið, að meðaltekjur hinna nýju togara muni vera 4 millj. kr. á ári. Þegar komnir eru 30 togarar, verða þetta 120 millj. kr. á ári, þ. e. a. s. brúttósalan. 15 togarar gefa af sér 3 millj. kr. hver, sem verður 45 millj. kr. á ári. Þetta verða 165 millj. kr. alls brúttó í erlendum tekjum. Af þessu verða að jafnaði eftir um 25% í erlendri mynt, sem ekki er hægt að segja, að raunverulega ætti að draga frá, vegna þess að mest af þessu eru laun greidd fólkinu, sem keyptar eru ódýrari vörur fyrir erlendis, en hér er hægt að fá, og þyrfti þá annars að eyða í það öðrum gjaldeyri. Þá eru eftir rúmlega 123 millj. kr. Ég geri ráð fyrir, að nokkuð af þessum mismun stafi af því, hvaðan sem hv. þm. hefur fengið þetta, að ekki hefur verið reiknað með allri þeirri óhemju gjaldeyrisöflun, sem liggur í lýsi því, sem togararnir afla og sent er út sem sjávarafurðir, en það er stundum fullkomlega 1/3 af afla togaranna. Ég skil ekki, hvernig þetta mál kemur innflutningi jeppabifreiða við, hvaða tilraun þetta er til þess að vekja úlfúð milli þessara tveggja atvinnuvega. Ef dæma ætti um þetta til fulls, þá er ekki nóg að reikna með þessum 24 millj. króna fyrir landbúnaðinn. Á móti kæmi svo allt það, sem innflutt er til landbúnaðarins og bændur fá, vélar, áburður o. fl., sem flutt er inn beinlínis til þess, að hægt sé að framleiða vörur fyrir þetta margar millj. til útflutnings. Þá sagði hv. form. n., að önnur deild sjávarútvegsins bætti þetta betur upp, smábátaútvegurinn. Ég get upplýst það, eftir skýrslum um þetta, að allur sá fiskur, sem veiddur er á báta, mun gefa 100 millj. kr. útflutning, af því þarf ríkissjóður sjálfur að taka yfir 20 millj. kr. á sig í styrki. Það er kannske þessi leið, sem hv. þm. vill fara lengra inn á. Svo má bæta því við, að síldarútvegurinn gefur af sér að meðaltali 100 millj. kr. á ári. Ég held, að hv. 1. þm. Árn. ætti að lesa betur þessi gögn öll, áður en hann ræðir meira um samanburð á útflutningi landbúnaðarins og sjávarútvegsins. Ég vil taka það fram, að ég er ekki að draga úr þeim kostum, sem því fylgja að framleiða einnig landbúnaðarvörur til þess að selja á erlendum markaði. Svo fast situr í þessum hv. þm. hatrið til togaraútgerðarinnar, að hann getur ekki sagt satt um þetta atriði. Það er honum þá víst gleðiefni, að útlit er fyrir, að í dag verði að leggja öllum flotanum, svo að hann getur ekki orðið aðalútflutningsstoð landsmanna.