02.02.1949
Sameinað þing: 35. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 58 í D-deild Alþingistíðinda. (4323)

21. mál, jeppabifreiðar

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Í fyrsta lagi vildi ég minnast aðeins á þann innflutning bifreiða, sem hv. þm. Barð. minntist á hér og er að verulegu leyti byggður á misskilningi. Hv. þm. sagði, að gert væri ráð fyrir að flytja inn 200 fólksbifreiðar og vöru- og jeppabifreiðar samtals að upphæð 500 stykki. En á innflutningsáætluninni, eins og fjárhagsráð nú hefur gengið frá henni, eru áætlaðar 3 millj. kr. til jeppabifreiða, en ekki er þar gert ráð fyrir neinum vörubifreiðum. Sérleyfisbifreiðar eru þar fyrir 1 millj. kr. og fólksbifreiðar fyrir 750 þús. kr. Ég skal taka það fram, að þessi upphæð, 3 millj. kr., var lögð til grundvallar, þegar ég taldi, að innflutningur á jeppabifreiðum mundi verða 400–500 stykki. Sérleyfisbifreiðarnar eru að nokkru leyti ákveðnar í samræmi við sérleyfishafana, og þeir telja, að með því að flytja að mestu leyti inn grindur og láta byggja yfir þær hér heima, verði þetta nægileg upphæð. Til fólksbifreiða eru, eins og fyrr segir, áætlaðar 750 þús. kr., og fer það eftir því, hve dýrar bifreiðar verða keyptar, hve margar þær verða. En sé reiknað með meðalverði, þá mun það vera kringum 15 þús. kr. fyrir bifreið. Þetta verða þá 50 fólksbifreiðar alls yfir árið, minna ef meðalverðið yrði hærra, en meira ef það yrði lægra. Ég tel ekki hægt að fara neðar með innflutning þessara bifreiða, en gert er. Ef þess vegna á að hækka enn þennan lið, jeppabifreiðarnar, þá er það ekki hægt nema með því að hækka áætlunina í heild, en við því var ég að vara við í umr. á fyrra stigi málsins og líka við því að taka einn lið út úr og ákvarða innflutning hans án þess að miða við afgreiðslu áætlunarinnar í heild. Ég þakka hv. allshn. fyrir það, að hún gaf mér kost á að ræða við sig í morgun um þetta mál, og get ég eftir atvikum fallizt á þá afgreiðslu, sem hún leggur til, að höfð verði á þessu, ef á annað borð er verið að gera ályktanir um mál eins og hér liggur fyrir, en ég er á móti því af ástæðum, sem ég hef áður skýrt frá og hirði ekki að endurtaka hér. Ég geri ekki ráð fyrir, að n. leggi fram brtt. um þetta, en þessi ákvörðun komi aðeins fram sem yfirlýsing frá hv. þm. N-Ísf. Sé þessi yfirlýsing skráð, — en hana má skilja þannig, að innflutningsáætlun jeppabifreiðanna hrófli ekki við innflutningsáætluninni að öðru leyti og komi því aðeins til framkvæmda, að gjaldeyrir verði til umfram það, sem áætlunin gerir ráð fyrir, þá get ég, eins og áður er sagt, eftir atvikum fallizt á þessa afgreiðslu n.

Ég þarf raunar ekki að hafa fleiri orð um þetta mál, en ég get ekki stillt mig um að víkja nokkrum orðum að því, sem hv. 1. þm. Árn. sagði hér áðan. Ég er á sömu skoðun og hv. þm. um það, að það sé mjög óviðeigandi, ef þn. geta ekki togað út plögg, sem þær þurfa að nota, frá nýbyggingarráði. Ég álít, úr því að Búnaðarfélag Íslands hefur lagt fram sín plögg, þá eigi líka að koma fram, hvernig nýbyggingarráð hefur annazt sinn hluta, svo að það liggi fyrir opinberlega líka. Ég er þeirrar skoðunar, að þá yrði ýmislegt upplýst, eins og raunar verður við allar slíkar úthlutanir. Hitt atriðið, sem hv. þm. minntist á, þar sem hann var að bera saman útflutning landbúnaðarins og togaraflotans, þar er ég honum ekki eins sammála. Hv. þm. minntist á, að tölur yfir nettó-gjaldeyrisöflun togaranna og hins vegar landbúnaðarins á vissu ári nú nýliðnu hefðu verið mjög sambærilegar, og virðist vilja leiða rök að því, að þessi atvinnuvegur, landbúnaðurinn, eigi ekki síður skilið stuðning en togaraútgerðin, sem kostað sé til tugum millj. í innflutningi. (JörB: Ég kom ekki að því.) Hv. þm. kom ekki beint að því, en mér virtist mega skilja, að hann undirbyggi þessa skoðun. Það þarf ekki að vera neinn mælikvarði um þetta efni, þó að landbúnaðurinn flytji ekki út eins mikil verðmæti og togararnir afla. Það getur fullkomlega komið til mála og verið sjálfsagt að veita landbúnaðinum þann stuðning, sem frekast væri hægt, til vélakaupa og eins af öðrum ástæðum. Það gæti verið, að landbúnaðurinn ynni svo mikið fyrir innlendan markað, að hann hefði þess arna fulla þörf og gæti sömuleiðis með öflun þessara tækja lækkað verð á landbúnaðarafurðum. Í þriðja lagi, þá gæti hann komið til með að auka útflutningsverðmæti sitt. Nú vil ég spyrja formælendur þessa máls hér um það, hvort þessi aukni innflutningur landbúnaðarvéla mundi þýða það, að búast mætti við, að eitthvað væri hægt að lækka verð á framleiðsluvörum landbúnaðarins, ef þessi innflutningur yrði framkvæmdur. Mér skilst, að framleiðsluverðmæti til útflutnings muni ekki aukast. Það hefur verið upplýst hér, að samtímis hinum stórauknu framlögum til vinnuvéla hefur útflutningur landbúnaðarins minnkað úr 26 millj. kr. og niður í 10 millj. kr., sem hann er áætlaður í ár. Þetta er að vísu áætlun, en eftir gögnum, sem ég hef fengið, er talið, að útflutningur 1949 verði ekki mikið yfir 10 millj. kr. Og þá finnst mér, að eitthvað þurfum við að hafa til að rökstyðja það, að þessi gífurlegi innflutningur á landbúnaðarvélum skuli veittur umfram það, sem venjulegt er. Spurningin er þá, hvort ekki mundi hægt með öllum þessum vinnuvélum að lækka verð þeirra vörutegunda, sem framleiddar eru. Það væri vel þegið í okkar verðbólgulandi. Væri hægt að fá yfirlýsingu um þetta frá forsvarsmönnum þessa máls, þá teldi ég afar mikið unnið og það mundi breyta mjög mínu viðhorfi til málsins.