02.02.1949
Sameinað þing: 35. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 62 í D-deild Alþingistíðinda. (4329)

21. mál, jeppabifreiðar

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Ræða hæstv. viðskmrh. gefur mér ástæðu til að biðja um orðið. Hér hefur borið nokkuð á milli. Hæstv. ráðh. segir, að munurinn stafi af því, að sú stofnun, sem upplýsingarnar sendir, geri ráð fyrir töluverðum innflutningi bíla gjaldeyrislaust. Nú þykir mér ólíklegt, að grannar vorir í útlöndum séu svo gjafmildir við okkur, að þeir láti vörur af hendi gjaldeyrislaust. Hæstv. ráðh. kveður um 40–50 umsóknir um bíla liggja hjá yfirvöldunum, og þarna vantar upplýsingar um, hvernig þessir menn hafa aflað sér gjaldeyris. Ég held það sé rétt, ef þessir menn hafa fengið hann á annan hátt en þann, sem yfirvöldunum er kunnugt um, að þau láti athuga þetta nánar og vísi þeim góðu mönnum í banka til að skila þangað erlendum gjaldeyri. Er það beinlínis skylda manna, svo að fjárhagsráð geti ráðstafað þessum peningum. Hygg ég, að benda mætti á fleira, sem þörf er á að flytja til landsins, en þessa 40–50 bíla, sem hæstv. ráðh. hefur gefið upplýsingar um. Hæstv. ríkisstj. ætti að taka það til athugunar, hvort eigi væri rétt að skila þessum gjaldeyri í bankana, þeim er fara á til bílakaupa, og gæfist þess þá kostur að festa kaup á ýmsu þarfara í staðinn.