03.11.1948
Sameinað þing: 12. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 69 í D-deild Alþingistíðinda. (4343)

22. mál, landbúnaðarvélar

Skúli Guðmundsson:

Það er að sjálfsögðu rétt, sem hæstv. ráðh. benti á, að vald yfir því, hvað inn er flutt af landbúnaðarvélum, er í höndum fjárhagsráðs. Því er það, að þótt þessi till. verði samþ., þá er það, eins og hæstv. ráðh. réttilega tók fram, viljayfirlýsing, sem getur haft sitt gildi, en reynslan hefur sýnt okkur því miður, að þótt samþykktir séu gerðar í þál.-formi til okkar stjórnarvalda um sérstakar framkvæmdir í viðskiptamálum, þá hafa þær ekki ávallt borið tilætlaðan árangur.

En ég vil aðeins benda á í sambandi við þetta mál, áður en það fer til n., að sé til þess ætlazt, að till. um þetta verði samþ. á þingi, og hún verði til þess að ýta undir og örva innflutning á landbúnaðarvélum þeim, sem um er rætt í till., þá held ég, að þurfi að gera breyt. á henni. Mér skilst á hæstv. 1. flm., að nú sé í pöntun nokkuð á annað þúsund dráttarvélar. Ég geri ráð fyrir, að reynt hafi verið að fá leyfi fyrir innflutningi á þessum vélum hjá viðkomandi yfirvöldum. Hér í þessari till. er minnzt á þessar smærri dráttarvélar, og er þar lagt til, að á næsta ári verði fluttar inn 500 af þeim vélum. Verði till. samþ. óbreytt, sýnist mér, að þeir, sem hafa vald á þessum innflutningi, hafi nokkra afsökun, þó að þeir veiti ekki innflutningsleyfi á næsta ári fyrir fleiri vélum en þetta. En ef fyrir liggja nú þegar pantanir í á annað þúsund af slíkum vélum, þá finnst mér því langt frá því fullnægjandi að fá þessa tölu. Ég veit ekki, hvað langt er komið hjá fjárhagsráði að áætla innflutning fyrir næsta ár og hvað mikið ráðið kann að ætla til kaups á landbúnaðarvélum, en mér sýnist þörf á að flytja meira inn af þessum heimilisdráttarvélum, en þarna er talað um í till. Vildi ég því beina þeirri ósk til n., sem fær till. til meðferðar, að hún athugi þetta mál og kynni sér það sem bezt og miði till. sínar sérstaklega við það eða geri þær þannig úr garði, að ekki verði hætta á því, að þær verði hemill á þennan vélainnflutning á næstu árum, því að það er auðvitað síður en svo, að bændum sé greiði gerður með því, að hér sé verið að samþ. ályktanir um þessi mál, ef þær ályktanir eru hemill á innflutninginn. Ég vona því, að n. taki þetta atriði sérstaklega til athugunar.

Annað vildi ég benda á í sambandi við þessa till., og gildir að því leyti sama um þá till., sem var næst á undan á dagskránni, þ. e. um innflutning jeppabifreiða, að á meðan svo stendur á, að ekki er hægt að fá fullnægt á einu ári eða mjög skömmum tíma eftirspurn eftir þessum tækjum, þá tel ég mjög þýðingarmikið, að því, sem inn er flutt af þessum tækjum, verði dreift réttlátlega um héruð landsins. Ég vildi því skjóta til hv. n., hvort hún vildi ekki athuga. hvort ekki ætti að setja beinlínis í slíka till. eitthvert ákvæði um það, að félagssamtök bænda hefðu yfirstjórn á því, hvernig þessum tækjum skuli dreift um landið, meðan svo stendur á, að ekki er hægt að fullnægja eftirspurninni og draga verður úr pöntunum, sem berast. Ef það er þannig, að aðeins þeir, sem fást við innflutning á þessum hlutum, ráði því, hverjum þessi tæki eru seld, getur þessi skipting komið mjög misjafnlega niður í hinum einstöku byggðarlögum. Ef það er einn aðili, sem hefur yfirstjórn á dreifingunni, má vænta þess, að meiri sanngirni ráði í skiptingu þessara tækja. Ég tók eftir því, að í grg. þáltill. um innflutning á jeppabifreiðum víkja flm. að þessu á þá leið, að það sé sjálfsagt, að það sé félagsskapur bænda, sem hafi stjórn á þessum hlutum. Þeir tala þar um það, að sjálfsagt sé, að einhver stofnun bændastéttarinnar hafi með úthlutun tækjanna að gera. Ég vil því skjóta til n., hvort ekki væri ástæða til að fá þetta alveg ákveðið í till. sjálfa.