03.11.1948
Sameinað þing: 12. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 73 í D-deild Alþingistíðinda. (4348)

22. mál, landbúnaðarvélar

Flm. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég vildi mega gera örstutta athugasemd. — Mér þótti vænt um, að hv. þm. V-Húnv. skyldi segja, að hann hefði ekki rætt um hina liði till., því að það er þó viðurkenning á því, að hann sleit úr samhengi þennan lið, og hann vildi sem sagt alls ekki loka augunum fyrir því, að hann verkar ef til vill alls ekki sem hemill, ef till. er skoðuð í heild. Hann sagði, að Búnaðarfélagið stigi stærra skref í till. sinni. Hversu miklu stærra? Hefur Búnaðarfélagið ekki gert áætlun um 60 millj. kr. innflutning á 4 árum? En eins og þessi till. er orðuð, fer hún fram á 20 millj. kr. innflutning á næsta ári — eða 60 millj. kr. á 3 árum. Hún verkar því alls ekki sem hemill, og það sést, ef hún er lesin í heild.

Flm. eru auðvitað reiðubúnir til viðræðna um breytingar, ef talið væri heppilegra að auka innflutning stærri véla og draga úr innflutningi á öðru. En ég geri ráð fyrir, að engum detti í hug, að fluttar verði inn landbúnaðarvélar á næsta ári fyrir meira en 20 millj. eins og till. gerir ráð fyrir.

Ég þarf svo ekki að orðlengja þetta. Ég vona, að hv. þm. V-Húnv. rétti upp höndina með till. ásamt öðrum, sem sammála verða um hana. Hér er stórt spor stigið í áttina til þjóðþrifaframkvæmda og gleðilegt, að hæstv. ríkisstj. skuli beita sér fyrir innflutningi landbúnaðarvéla í svo stórum stíl.