26.01.1949
Sameinað þing: 32. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 74 í D-deild Alþingistíðinda. (4353)

22. mál, landbúnaðarvélar

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það er rétt hjá hæstv. samgmrh., að samþykkt till. sem þessarar mundi vera skoðuð sem ósk, svo lengi sem Alþ. tekur sér ekki vald til að ákveða vöruinnflutninginn sjálft. Og slíkt er ekki hægt, nema um leið sé tekin ákvörðun um annaðhvort að draga úr öðrum innflutningi eða bæta það upp á annan hátt. En við komumst ekki hjá að endurskoða vinnubrögð Alþ. í málum eins og þessum. Ég sé sem sagt ekki, að kjósendur séu neitt bættari, þótt svona samþykktir séu gerðar, ef engin trygging er fyrir því, að vilji samþykktarinnar verði framkvæmdur. En það verður að fjalla um þessi mál í heild. Það er ekki hægt að samþ. innflutning landbúnaðarvéla í dag, jeppa á morgun, annarra bíla hinn daginn, kaffis og vefnaðarvöru þar á eftir. Það eru engin vinnubrögð að samþykkja slíkt hér og senda það hæstv. ríkisstj. og segja svo við kjósendur: Ég gerði svona góða samþykkt í þinginu. — Alþ. afgreiðir fjárlög upp á 200–300 millj. kr., og við rífumst um, hvort einn vegur á að kosta 15 eða 20 þús. kr. En Alþ. semur ekki innflutningsáætlunina, sem er raunar miklu þýðingarmeiri fyrir fólkið. Svo rekst þetta hvort tveggja á. Slíkt eru engin vinnubrögð, og því getur enginn mælt bót fyrir sínum kjósendum. Það er ekki hægt að reikna með í dag að veita 8 millj. í bíla, en komast svo að þeirri niðurstöðu á morgun, að þær ættu að fara eitthvað annað. Þessir hlutir verða að fara saman, þannig að innflutningsáætlunin, sem fjárhagsráð undirbýr, sé lögð fyrir Alþ. með fjárlögum og afgreidd samhliða þeim. Það eru einu vinnubrögðin, sem vit er í.

Auðvitað er enginn þm. á móti svona till., það er svo sem gefið mál., öll n. er með henni, allir sammála um hana. En hvar er svo tryggingin fyrir því, að þetta verði framkvæmt, hver tekur ábyrgð á því? Ég álít, að Alþ. eigi að fara fram á, að innflutningsáætlunin sé lögð fyrir það, og þá getur þingið sjálft tekið ákvarðanir sínar um það, hvað mikið skuli flutt inn af hverri vörutegund, bílum, vélum, kaffi, fatnaði o. s. frv., ákveðið, hvar þörfin er mest og hvað skuli spara, til þess að hægt sé að flytja það inn, sem talið er nauðsynlegast. Sannast að segja finnst mér anzi hart, að ég sem formaður stjórnarandstöðunnar hér í þinginu skuli þurfa að standa upp og halda hér ræðu um þetta, því að það hefði staðið stuðningsmönnum stj. nær að benda á þetta. Það er verið að gera Alþ. aftur að ráðgefandi þingi með þessum vinnubrögðum, er gefur ríkisstj. og fjárhagsráði ráðleggingar, en ræður ekki sjálft. Ég álít, að það eigi að afgreiða innflutningsáætlunina jafnhliða fjárlögum, og ég skírskota alvarlega til allra þingmanna að taka þetta upp, taka sjálfir ábyrgð á þessari áætlun og afgreiða hana með fjárlögum. Annars er þetta allt saman skollaleikur einn, leikinn fyrir kjósendur.