26.01.1949
Sameinað þing: 32. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 75 í D-deild Alþingistíðinda. (4354)

22. mál, landbúnaðarvélar

Finnur Jónsson:

Mér þótti þetta mjög góð ræða hjá hv. 2. þm. Reykv., og ef ég hefði talað hér um jeppainnflutninginn í gær, mundi ég hafa sagt eitthvað svipað þessu.

Ég hafði einmitt ætlað mér að skora á hæstv. viðskmrh. að birta innflutningsáætlun fjárhagsráðs sem fyrst, af því að það er skoðun mín, að með því yrði leitt í ljós, að það er varhugavert af Alþ. að samþykkja að flytja inn svo og svo mikið af tilteknum vörum án þess að hafa gert sér þess ljósa grein, hvað þarf af öðrum vörum. Segjum t. d., að Alþ. samþ. að flytja inn landbúnaðarvélar á árinu fyrir 20 millj. kr., en í innflutningsáætluninni væri ekki gert ráð fyrir nema 10 millj. kr. í þessu skyni. Ef áætlunin væri birt, hefðu þm. skilyrði, annars ekki, til að benda á, hvaða innflutningsliðir þyrftu þá að lækka til að vega upp á móti auknum innflutningi landbúnaðarvéla, svo að innflutningur og útflutningur stæðust á. Með því hins vegar að birta þm. ekki áætlunina, þá koma þeir með tiliögur, sem eru stundum alveg út í loftið. Ég vil ekki segja, að innflutningsáætlunin sé plagg, sem ekki megi breyta eða hrófla við, en að baki hennar liggur margra mánaða vinna fjárhagsráðs, og þeir, sem hafa samið hana, hafa reynt að gera sér sem allra ljósasta grein fyrir einstökum liðum hennar og byggt þar á beztu upplýsingum, sem fáanlegar eru hér á landi. Ríkisstj. var send áætlun þessi upp úr áramótunum, og hún er þar enn til athugunar.

Ég held nú, að ekki ætti að leggja þessa innflutningsáætlun fyrir Alþ. í því skyni, að það afgr. hana. Til þess þyrfti fyrst að breyta lögunum um fjárhagsráð, en aðalmótbáran er sú, að slík áætlun verður að vera mjög teygjanleg, en ekkert svipuð lagaákvörðunum frá Alþ. T. d. hefur verið mikið kvartað um það, að það vantaði vörur fyrir útgefnum skömmtunarseðlum. Nú mun vera meiningin á þessu ári að auka vefnaðarvöru í landinu, auka þær birgðir af vörum, sem skömmtunarseðlarnir eru ávísun á. Enn fremur hefur verið gert ráð fyrir, að ríkið hefði sérstakar tekjur af innflutningi ýmissa vörutegunda, og er tekið tillit til þeirrar tekjuöflunar í áætluninni, eða reynt að gera það. En jafnvel þótt samin sé áætlun og frá henni gengið í nóvember, eða ekki fyrr en um áramót, eins og nú var gert, þá getur ýmislegt komið fyrir, sem gerir það að verkum, að nauðsynlegt reynist að breyta þeirri áætlun og meira en svo, að Alþ. geti afgreitt hana. Það þarf að gera breytingar á þessari áætlun eftir þörfum, og ástæðurnar geta verið þær, að meira eða minna þarf að nota af þessari eða hinni vörutegund, þegar kemur fram á árið. En langveigamesta ástæðan til þess, að áætlunin þarf að vera teygjanleg, er óvissan um útflutning okkar, um hann er svo erfitt að segja fyrr en líður á árið. Annars ætla ég ekki að fara að gera þessa áætlun að umtalsefni í einstökum atriðum, enda liggur hún ekki hér fyrir Alþ. En ég vil benda á eitt nærtækt dæmi, sem sýnir glöggt, hve útflutningurinn er breytilegur, og þá jafnframt, hvað innflutningsáætlun þarf að vera teygjanleg, en ekki fastskorðuð. Ég ætla að benda á það, að fyrstu tvo mánuði ársins í fyrra var flutt út faxasíld fyrir 50–60 millj. kr., en nú í ár hefur engin faxasíld veiðzt, og er raunar séð fyrir endann á því, að hún kemur ekki að þessu sinni. Segjum að annar útflutningur í ár yrði svipaður og í fyrra, togarafiskurinn, hraðfrysti fiskurinn, Norðurlandssíldin o. s. frv., en þó svo yrði, væri heildarverðmæti útfluttrar vöru landsmanna 50–60 millj. kr. minna en í fyrra. Að vísu áttu bankarnir 26 milljónir í sjóði núna um áramótin umfram ábyrgðir, en þegar þess er gætt, að gjaldeyriseyðsla þjóðarinnar er 1,1 millj. kr. á degi hverjum, þá sjá menn að 26 milljónir hrökkva skammt, ef ekki kemur annað til.

Í samræmi við það, sem ég hef nú sagt, vildi ég á þessu stigi málsins mjög vara hv. þm. við því að gera samþykktir um innflutning, sem væru e. t. v. þýðingarlausar, er til framkvæmdanna kæmi. Ég hef mikla samúð með því að flytja inn landbúnaðarvélar, og vélar og nýsköpunartæki yfirleitt, enda er það svo, að í lögunum um fjárhagsráð er ákveðið, að leggja skuli a. m. k. 15% af útflutningstekjunum á nýbyggingarreikning til uppbyggingar atvinnuveganna. Á síðasta ári voru lögð fram a. m. k. 30% í þessu skyni, og á þessu ári mun verða lagt til hliðar miklu meira en 15% í þessu skyni og notað til innflutnings á byggingarvörum. Ég er þess fullviss, að fjárhagsráð mun fara svo langt í því efni að flytja inn tæki til atvinnuveganna sem frekast er unnt að yfirsýn þess. En þegar þess er gætt, að við vitum þegar, að við missum í ár útflutningslið, sem var mjög stór í fyrra, þ. e. faxasíldina, og að eini möguleikinn til að vinna það tap upp er, að sumarsíldin verði meiri en í fyrra eða að faxasíld komi að haustinu, þegar þess er gætt, er það vissulega athugavert og varhugavert af Alþ. að taka á þessum tíma ákvarðanir um verulega aukinn innflutning frá því, sem fjárhagsráð kann að hafa hugsað sér eða áætlað. Ég tel að þegar stj. hefur gengið frá innflutningsáætluninni, væri rétt, að hún væri látin þm. í té til afnota, bæði í sambandi við þessar tillögur hér í þinginu um aukinn innflutning og eins vegna þess, að svo stendur á um ýmsar framkvæmdir einstaklinga, að þær verða að fara eftir því, hvað ríkið ákveður af sínum framkvæmdum. Því meira sem ríkið byggir, því minna byggja einstaklingar. Það er rétt hjá hv. 2. þm. Reykv., að fjárlög og innflutningsáætlun verða að vera í nokkru samræmi, og þm. gerðu vel í því að gera sér ljóst, að á meðan takmarka þarf innflutninginn, fara framkvæmdir einstaklinga mikið eftir því, hvað ríkið ákveður af sínum framkvæmdum, og þá verða þm. að ákveða, í hvaða hlutföllum framkvæmdir þessara aðila, húsabyggingar eða hvað annað, skuli standa innbyrðis. Æskilegast væri, að fjárlagafrv. gæti fylgt hrein áætlun um ríkisbúskapinn í stórum dráttum, bæði búskap ríkisins og einstaklingsrekstur. En því miður eru hagskýrslur þannig, að á þessu er enginn kostur, og til þess að svo mætti verða, yrði að eiga sér stað gerbreyting á skýrslum hagstofunnar. Það verður því að láta nægja að leggja fram útflutnings- og innflutningsáætlun við afgreiðslu fjárlaganna.