26.01.1949
Sameinað þing: 32. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 77 í D-deild Alþingistíðinda. (4355)

22. mál, landbúnaðarvélar

Frsm. (Ingólfur Jónsson):

Hæstv. viðskmrh. sagði hér nokkur orð í sambandi við þessa till., og hann vildi skilja hana dálítið öðruvísi, en hún hljóðar. En ég bið hv. þingmenn að lesa tillgr. eins og hún er orðuð á þskj. 247, og þá munu þeir komast að raun um, að það er ekki neitt hættulegt að samþ. hana með því orðalagi og skilja hana eftir orðanna hljóðan. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta: „Á næsta ári verði fluttar til landsins landbúnaðarvélar, eftir því sem þörf krefur, svo sem jarðýtur, skurðgröfur og aðrar stórvirkar vélar, til að fullnægja þörf búnaðarfélaga og ræktunarsambanda. Einnig minni dráttarvélar og aðrar búvélar, eftir því sem frekast er unnt.“ Litlar dráttarvélar og aðrar búvélar munu verða miklu fyrirferðarmeiri í innflutningnum en stórvirku vélarnar, enda stendur aðeins í till., að minni vélarnar skuli fluttar inn eftir því, sem unnt er. Það liggur því engin hætta í því að samþ. tillgr. og skilja hana eftir orðanna hljóðan. Ég geri ráð fyrir, að flestir þm. vilji fullnægja þörf búnaðarfélaga og ræktunarsambanda fyrir stórvirkar vélar á þessu ári. Tillgr. miðast víð að flytja þær vélar inn eftir þörfum, og sannast að segja eru það ekki svo ýkja margar stórvirkar vélar, sem þarf að flytja inn. Sá innflutningur verður miklu minni, en innflutningur á minni dráttarvélum og öðrum búvélum.

Hæstv. samgmrh. minntist á það í ræðu hér í gær, að landbúnaðurinn hefði dregizt saman á síðustu árum. Það er rétt, og það stafar aðallega af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi er það fólksfækkunin, og í öðru lagi er ræktunin of lítil og framþróunin of hægfara á því sviði. Enn er heyjað með orfum og hrífum, tækjum, sem eru orðin úrelt og þyrftu að hverfa úr sögunni, og enn er heyjað á útengi, þótt svo þyrfti að vera í haginn búið, að allur heyskapur væri tekinn á ræktuðu landi, og það þarf að verða svo sem allra fyrst.

Ég er því vitaskuld fyllilega sammála, að miða þurfi innflutninginn við gjaldeyrisöflunina hverju sinni. En þótt fjárhagsráð hafi í áætlun sinni gert ráð fyrir 10 millj. kr. til innflutnings landbúnaðarvéla, þá dettur mér ekki í hug, að ekki megi hreyfa við þeirri áætlun. Einmitt af því, að gjaldeyririnn er naumur, þarf vel að vega og meta, hvað helzt á að ganga fyrir um innflutning, og er ég þá ekki í neinum vafa um, að þar kæmu landbúnaðarvélar og tæki fremst í flokki. Ef þeirri þörf væri fullnægt, væri hægt að hætta innflutningi á smjöri og að tala um mjólkurskort í stórum stíl. Ég vil því eindregið mæla með því, að þessi till. verði samþ. og skilin eins og hún hljóðar, enda var allshn. ekki í neinum vafa um, hvernig ætti að skilja hana, hún var öll sammála um, að fullnægja bæri þörf búnaðarfélaga og ræktunarsambanda í þessu efni. Þetta vildi ég aðeins segja við hæstv. samg.- og viðskmrh.

Ég veit ekki, hvort ég á að fara að eyða orðum við hv. 2. þm. Reykv. Hann talaði um það með miklum málalengingum, að það væri ekkert vit í því og engin vinnubrögð hjá Alþ. að samþykkja þessa till. til þál. Hvenær öðlaðist hann slíkan skilning á ályktunum Alþ.? Hefur hann haft þennan skilning, er hann hefur sjálfur flutt þáltill., sem ekki hefur sjaldan borið við, eða er yfirborðsmennskan svona mikil? Ég legg allt annan skilning í slíkar tillögur. Ef Alþ. samþykkir till., sem er svo greinileg, að hún verði ekki misskilin, þá sé ég ekki, að það sé gert til annars en að fara eftir því. Ég fæ ekki skilið, að það séu engin vinnubrögð. Hv. þm. hefur hingað til talið þál. skipta máli. — Ég held, að það sé með öllu óþarft að fjölyrða um þetta. En ég taldi rétt að svara athugasemd hæstv. viðskmrh., og ég held, er hann athugar þetta nánar, að hann geti með góðri samvizku verið með þessari till.