26.01.1949
Sameinað þing: 32. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 82 í D-deild Alþingistíðinda. (4359)

22. mál, landbúnaðarvélar

Gísli Jónsson:

Áður en greitt er atkv. um þessa till., vildi ég gjarnan fá upplýst hjá hv. frsm., hvort skilningur minn á till. muni falla saman við skilning hans og hv. allshn. á henni, eins og hún er hér á þskj. 247. Þar skilst mér, að aðalmarkmið till. sé fyrst og fremst að flytja inn jarðýtur, skurðgröfur og aðrar stórvirkar vélar, svo að það fullnægi ræktunarsamböndum, eins og hann tók fram, en það er ekki upplýst hér, hvað mikil fjárhæð þetta kann að vera. Síðar í þessari till. er því einnig slegið föstu, að jafnframt skuli séð fyrir nægilegum varahlutum, væntanlega til þeirra véla. Þetta tvennt felur till. í sér að eigi að ganga fyrir öðrum innflutningi á búvélum. Nú vil ég spyrja um það, hvort þessi upphæð muni nema eins miklu eða meiru en sú upphæð, sem sett er inn af fjárhagsráði, 10 millj. kr., og hvort ætlazt er til, að haldið sé fast við þennan innflutning, og minni dráttarvélar eigi ekki að koma til greina. En þessi hlýtur skilningurinn að vera á till. eins og hún liggur fyrir, hún verður ekki skilin öðruvísi, en að ríkisstj. skuli stuðla að því fyrst og fremst að flytja inn stórar vélar eftir þörfum og alla varahluti, sem einnig fullnægi eftirspurninni, en síðan komi svo minni dráttarvélar eftir því, sem gjaldeyrir er til á hverjum tíma. Ég vildi gjarnan fá þessar upplýsingar hjá hv. þm. Þegar athuguð er sjálf þáltill., þá sést, að flm. hafa lagt áherzlu á að fá 500 smærri dráttarvélar, en nú er það sett til hliðar hér á þskj. 247. Ég veit ekki, hvort þetta er gert í samráði við flm., en það getur hv. frsm. upplýst. Að vísu má segja, að þetta þrennt í frumtill. sé jafnrétthátt, en það verður ekki skilið af till. á þskj. 247, því að þar er þessi skilgreining gerð eins og ég hef lýst.

En úr því að ég stóð upp í sambandi við þetta mál, þá vil ég minnast á ummæli hv. frsm. Hann sagði, að hann ætlaðist ekki til þess að Alþ. samþ. tillögur nema farið væri eftir þeim, þannig að þær yrðu ekki aðeins ómerkilegt plagg. Mér skildist einnig á hans ræðu, að það væri tilgangurinn með samþykkt þessarar till., að hún yrði ekkert ómerkilegt plagg, ef hún yrði samþ. Nú vil ég spyrja: Er það álit hv. flm., sem eru margir, að gera með þessu merkilega plaggi ákvæði fjárhagsráðsl. að ómerkilegu plaggi, en það er alveg sjálfsagt, að ef staðið er fast á þeirri skoðun, að þessi þál. sé merkilegt og gilt plagg, þá verði hitt plaggið að víkja til hliðar, ef það fer aðrar leiðir, en þetta nýja plagg, sem verið er að gefa út nú.

Það er nokkuð alvarlegt mál, að hvenær sem rætt er um verzlunarmál og viðskiptamál hér á þingi, þá skuli koma frá einhverjum stuðningsmanni ríkisstj., eða ríkisstj., hrein og bein klögun á fjárhagsráð. Það voru ekki minna en 3 ráðh., sem klöguðu undan fjárhagsráði á síðasta Alþ., og nú er komin fram kvörtun um, að þeir fái ekki að ráða málum, og það koma fram fleiri till. um að skora á ríkisstj. að beita sér fyrir því, að aðrar leiðir verði farnar í innflutningi, en fjárhagsráð fer. Virðist þá vera kominn tími til að athuga, hvort þm. eigi ekki að taka sig saman um að gera breyt. á þessum l. Ég kom með breyt. á fjárhagsráðsl. á síðasta Alþ., þar sem lagt var til, að fjárhagsráð yrði lagt niður. Þessi till. mín var felld, en ég sé, að nú skýtur upp daglega þessum ásökunum á þessa stofnun, og held ég því, að það sé kominn tími til að athuga, hvort ekki eigi að minnka vald þessarar stofnunar og leggja innflutningsáætlunina fyrir Alþ.

Ég sé, að fundartími er úti, og þótt margt mætti ræða frekar um þetta atriði, þá skal ég ekki tefja fundinn í dag, en þetta er svo alvarlegt mál, að það veitti ekki af að taka það til athugunar.