02.02.1949
Sameinað þing: 35. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 85 í D-deild Alþingistíðinda. (4365)

22. mál, landbúnaðarvélar

Frsm. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Tveir hv. þm. — 1. þm. N-M. og þm. Barð. — voru með fyrirspurn til mín fyrir nokkrum dögum. Þeir eru nú ekki staddir hér og því varla von, að ég geti nú upplýst þá. En ég vil geta þess, að hæstv. viðskmrh. kom á fund hjá allshn. í morgun, og var honum skýrt frá viðhorfi n. Og sé við það miðað, hvernig till. er nú orðuð, eftir að allshn. hefur skilað henni frá sér, getur þetta allt saman samrýmzt ágætlega, og ráðh. þarf ekki að leggja annan skilning í till. en eftir orðanna hljóðan. En eins og hv. þm. muna, var það það, sem hæstv. ráðh. fór fram á fyrir nokkrum dögum, að ef hann mætti skilja till. svona eða svona, þá gæti hann þolað, að hún yrði samþ. En nú er það svo, að n. hefur lagt aðaláherzluna á það, að innflutningur stórra ræktunarvéla væri látinn sitja í fyrirrúmi. Ég hef kynnt mér, hve mikil væri þörf búnaðarfélaga og ræktunarsambanda. Nemur hún 3½–4 millj. kr., eftir því sem ræktunarráðunautur ríkisins telur. Sennilega nægði 3½ milljón, ef hætt er við að flytja inn stærri dráttarvélar, 30–40 hestafla. En ráðunauturinn telur hæpið, að rétt sé að kaupa þær vélar, með því að bændur eru nú almennt að eignast eigin dráttarvélar, sem þeir geta notað til jarðvinnslu, eftir að stórvirkari vélar hafa brotið landið. En hvað snertir smærri búvélar, svo sem heimilisdráttarvélar og aðrar vélar, er þannig til orða tekið í till., að gert sé eins og unnt er í þessu efni, eða eins og gjaldeyrisgeta þjóðarinnar leyfir og innflutningsyfirvöld og ríkisstj. sjá sér fært að fara. Þegar þess vegna n. hafði talað við ráðh. og upplýst var, að nær 12 millj. kr. voru ætlaðar til þessa á innflutningsáætluninni, kom í ljós, að ráðh. getur sætt sig við samþykkt till., þótt hún sé ekki skilin á annan veg, en hún bókstaflega hljóðar á þskj. 247.