02.02.1949
Sameinað þing: 35. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 86 í D-deild Alþingistíðinda. (4366)

22. mál, landbúnaðarvélar

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það er upplýst hér í umr., að haldinn sé flokksfundur í einum þingflokknum, meðan fundur stendur hér í Sþ. Ég verð að taka enn fram það, sem ég sagði áðan, að það er teflt á það tæpasta að taka til umr. í Sþ. till. á kvöldtíma, jafnvel á meðan einstakir þingflokkar eru að halda flokksfundi, — ég tala nú ekki um, þegar um slíkar till, sem þessa er að ræða. Ég vil aðeins vekja athygli hæstv. forseta á því, að ef umr. á Alþ. eiga að veita eitthvað örlítið brot af líkindum fyrir því, að það kynni að vera hægt að koma við rökum eða fá menn til að hugsa um það, sem sagt er, þá er fyrsta skilyrðið, að menn séu viðstaddir, sem á þyrftu að hlýða. Hér er síðari hluti umr. um þáltill., og því hæpið að ljúka henni meðan heill þingflokkur er á sínum eigin fundi.

Ég hef flutt brtt. á þskj. 291 við þá brtt., sem allshn. gerir við þá till., sem fyrir liggur. Mín till. fer fram á, að Alþ leggi fyrir ríkisstj. og gjaldeyrisyfirvöld að fullnægja þörfinni til landbúnaðarvéla áður en leyft er að flytja inn bíla. Það er upplýst í umr., sem hafa farið fram í dag um skylda till. þessari, að gjaldeyrir sá, sem landsmenn hafa til umráða til innflutnings á þessu ári, verður líklega 50 millj. kr. minni en í fyrra. Nú nam útflutningur síðasta árs um 400 millj. kr. Finnst mér ekki ólíklegt, að fjárhagsráð hafi miðað við eitthvað svipað. En minnki gjaldeyrisfúlgan um 50 milljónir, verður að gera ráðstafanir viðvíkjandi því, hvað menn ætla að láta ganga fyrir og hvað skal sitja á hakanum, ef Alþ. á annað borð skiptir sér af innflutningsmálunum, sem ég álít það ætti að gera meira að. Það þarf að láta í ljós sína skoðun á málinu. Í minni till. er tiltekið, að fyrst sé séð fyrir þörf landbúnaðarins, áður en leyfður er innflutningur á bílum. Annars er hætt við, að ríkisstj. hefði tilhneigingu til að skera jafnt niður af hvoru tveggja. Mér finnst rétt, um leið og Alþ. afgr. svona till., að það segi til, hvernig það hugsi sér, að farið sé að, sérstaklega ef séð er fram á, að gjaldeyrir hefur eitthvað minnkað frá því, sem var. Og ég vil einnig taka fram, að ég álít þá eina afgreiðslu sómasamlega á þeim till., sem liggja fyrir, hvort heldur er um innflutning rafmagnstækja eða véla til rafmagnsverksmiðja, hráefna til þeirra, sem fyrir eru, innflutning á landbúnaðarvélum og öðru slíku, að afgr. innflutningsáætlun í sambandi við fjárveitinguna. Þetta eru svo náskyldir liðir, að ómögulegt er að slíta í sundur. Meira að segja fjárl. byggja á þessum hlutum, svo að ég tali ekki um ráðstafanir í landinu um atvinnu og atvinnuöryggi. Og meðan Alþ. álítur ekki rétt að afgr. innflutningsáætlunina sjálft og hafa þar endanlegt vald, en ekki aðeins ráðgefandi aðstöðu, eins og kemur fram í þáltill., þá finnst mér betra að bæta því við, sem ég hef lagt til.