02.02.1949
Sameinað þing: 35. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 87 í D-deild Alþingistíðinda. (4368)

22. mál, landbúnaðarvélar

Gylfi Þ. Gíslason:

Ég stend upp aðallega til að ræða þingsköp og nokkur almenn atriði, sem lúta að fundahaldi Sþ. undanfarna daga og jafnvel vikur. Ég get tekið undir með hæstv. forseta, að sá máti, sem farið er að taka upp í Sþ., að haldnar séu margar ræður og jafnvel tugir ræðna um tiltölulega ómerkilegar þáltill., nær engri átt. Hér er komið út í fullkomnar öfgar. Ég sé ekki betur en sóma þingsins sé stefnt í voða. Ef litið er á dagskrá þessa fundar, sést, að af 9 málum, sem eru á dagskrá, eru 4 þáltill., þar sem lagt er til, að Alþ. hafi bein eða óbein afskipti af innflutningsmálum, þ. e. að segja innflutningsyfirvöldum fyrir verkum um það, hvernig þau skuli haga sínum ákvörðunum, þeim yfirvöldum, sem Alþ. hefur sjálft sett l. um, að skuli fara með innflutningsmálin. Það á að segja fyrir um jeppa, landbúnaðarvélar, efni í vinnuföt og raftæki til heimilisnota. Þessi afskipti Alþ. af innflutningsmálunum á þennan hátt eru komin út í algerðar öfgar og farin að nálgast hreina vitleysu. Alþ. hefur sett l. um, að ákvarðanir í þessum málum skuli vera í höndum tiltekinnar n., sem a. m. k. allir stjórnmálaflokkar eiga menn í. Meiningin hlýtur að vera að treysta þessum mönnum að leysa þetta þannig af hendi, að sómasamlegt og viðunandi teljist. Er ekki líklegt, að 52 menn í Alþ. séu færari að taka ákvarðanir um ýmis framkvæmdaatriði á innflutningi til landsins, enda hefur það sýnt síg í þeim hrókaumræðum um flestar þessar till., að þær eru ekki alvarlega meintar, heldur áróðursherferð eingöngu, aðallega þeirra, sem hljóta sinn stuðning að mestu leyti í sveitum landsins. Það á að fiska eitthvað í þessum málum. (Rödd: Þetta er þá beituspursmál!) Það er rétt. Hér er um að ræða beitumál fyrst og fremst. Það getur ekki gengið að gera sameinað Alþingi að slíkri beitustöð. Starfsemi Alþ. er kostnaðarsamari en svo, að hægt sé að eyða tímanum dag eftir dag í slíkar umræður, sem auðsjáanlega eru ekki ætlaðar til annars, en að hafa áróðursgildi nú, þegar liða tekur að kosningum. En til slíkra hluta hafa stjórnmálaflokkarnir sín blöð, og er því ástæðulaust að halda okkur hér á snakki dag eftir dag og kvelja okkur til þess að vera hér á nóttunni líka. Og ég verð að segja, að mér finnst það hafa komið einna greinilegast í ljós í kvöld, að hér er einungis að ræða um — ég vil segja ómerkilegt áróðursfyrirbrigði, þar sem á dagskrá er till., sem svo að segja heill þingflokkur stendur að, Sjálfstfl., og þá heldur sá hinn sami flokkur fund á sama tíma. Honum er þetta ekki meira alvörumál en svo. Aðeins er hann nauðbeygður til að skilja eftir hæstv. forseta í forsetastól og hv. frsm. n. Ég verð að segja, að þetta nálgast ósvífni við okkur, þm. annarra flokka. Ég vil engan veginn taka því með þökkum, að menn séu kallaðir hingað á kvöldfundi til þess að ræða till., sem sjálfir flm. sýna ekki meiri áhuga og alvöru en svo, að þeir sjá ekki ástæðu til að sýna sig á fundinum.