23.11.1948
Sameinað þing: 20. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 89 í D-deild Alþingistíðinda. (4378)

33. mál, stjórn stærri kauptúna

Flm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Í þessari till. til þál., sem við þm. Eyf. flytjum og prentuð er á þskj. 35, er lagt til, að Alþ. skori á ríkisstj. að semja frv. til l., er kveði á um, hvernig stjórn hinna stærri kauptúna verði fyrir komið í framtíðinni. Það mætti nú kannske segja sem svo, er talað er um að undirbúa löggjöf í þessu efni og skorað er á hæstv. ríkisstj. að gera það, að við flm. þessarar till. hefðum eins getað samið þetta frv. sjálfir og lagt það síðan fyrir Alþ. Vissulega hefði svo getað verið. En bæði er það, að ekki er óalgengt nú orðið, að fluttar séu till. til þál. um að skora á ríkisstj. að semja lagafrv., auk þess sem hér er um að ræða löggjöf, sem snertir allt landið. Er því alls ekki óeðlilegt, að þm. skori á ríkisstj. að undirbúa slíka löggjöf. Í grg., sem fylgir með þessari till. til þál., er nokkuð vikið að þeim ástæðum, sem fyrir liggja og hafa orðið til þess, að þessi till. er flutt. Það er og vikið að þróun þessara mála og þeim breytingum, sem orðið hafa í því efni. Tel ég því óþarfa að víkja hér að löngu máli. Þjóðfélaginu er skipt niður í sveitir, sýslur og hreppa. Er kauptúnin fóru að vaxa og þörf á sameiginlegum framkvæmdum óx þar, bar fljótlega á því, að kauptúnin þurftu að fá sjálfsstjórn til þess að hafa aðstæður til þess að geta leyst mál sín. Var þá farin sú leið að skilja kauptúnin út úr hreppsfélaginu. En er þau stækkuðu meir og sameiginleg verkefni íbúa kauptúnanna urðu víðtækari, kom í ljós, að t. d. oddvitar áttu mjög erfitt með að sinna þeim verkum, sem þessar auknu framkvæmdir lögðu þeim á herðar. Er slíkt engin furða, þar sem oddvitar hafa öll sín störf fyrir sveitarfélag sitt í hjáverkum, sem eru og illa launuð. Vegna þessa hefur nú verið horfið að því ráði að löggilda marga kaupstaði á landinu með bæjarstjórn, bæjarstjóra og öðru sem tilheyrir, þegar svo er komið. Millibil þessarar skipunar málanna hefur verið það, að settur hefur verið lögreglustjóri, sem sinnti störfum oddvita, fyrst að mig minnir á Siglufirði og Akranesi. Var það og þannig hugsað, að lögreglustjórinn yrði þá um leið eins konar bæjarstjóri fyrir kauptúnið. Slíkir lögreglustjórar hafa verið skipaðir af dómsmrh., og hefur hann ekki haft neina vissu fyrir því, að viðkomandi hreppsnefnd væri ánægð með skipunina, að minnsta kosti ekki sú næsta eða komandi hreppsnefndir. Hefur sú reynsla á þessu orðið, að lögreglustjórar þessir hafa yfirleitt ekki sinnt þessum störfum nema stuttan tíma. Þeir hafa oft haft heldur lítið að gera. Endalokin hafa orðið þau, að kauptúnið hefur verið gert að kaupstað. Árangur þessarar aðferðar hefur reynzt illa sem nokkur lausn til frambúðar, og vonir manna um það úrræði brugðizt.

Í Dalvík, sem er í kjördæmi mínu, svo að ég ætti að vera málum kunnugur, er svo ástatt, að kauptúnið hefur rafmagnsveitu, vatnsveitu, mikla gatnagerð o. fl. um að sjá. Þessar framkvæmdir útheimta starf, en þar er ekki um annan mann að ræða en oddvitann, sem jafnframt gegnir öðru starfi. Því var það, að við þm. Eyf. fórum fram á það á sínum tíma, að skipaður yrði lögreglustjóri í Dalvík, sem tæki að sér oddvitastörf og framkvæmdastjórn kauptúnsins. Ég bar fram frv. til l. um þetta í Ed. á þinginu 1945. Allshn. Ed., sem ég þá átti sæti i, lagði til, að málið yrði afgr. með rökst. dagskrá, þar sem látin var í ljós ósk um það, að hæstv. stjórn tæki til athugunar, hvernig stjórn stærri kauptúna yrði bezt hagað í framtíðinni. Ég gat fallizt á og sætt mig við þessa afgreiðslu, einkum þó sökum þess, að þáverandi félmrh. tók málinu vel og hafði áhuga á, að það yrði athugað. En það frv. kom aldrei til frekari athugunar í Ed., því að annað frv. um sama efni var á döfinni í Nd. þingsins, og var beðið eftir því, en frv. dagaði sökum þessa uppi.

Ef þróun kauptúnanna verður stöðug og það fólk, sem fjölguninni nemur, hverfur ekki allt til Reykjavíkur, kemur til álita, hvort ekki sé nauðsynlegt að gera allmörg kauptún að kaupstöðum. Ekkert er við því að segja eins og nú háttar, að slíks sé krafizt, en dýr er stjórn kaupstaðar — mun dýrari en stjórn hrepps. Ég hygg, að ekki verði hjá því komizt, að reynt verði að koma á þessi mál að minnsta kosti bráðabirgðafyrirkomulagi, sem heppilegra væri en sú skipan, sem nú á sér stað. Það yrði að vera með þeim hætti, að það yrði ódýrara fyrir kauptún að taka upp hið nýja fyrirkomulag en að verða gert að kaupstað, en fullnægði þó kröfum kauptúnsins. Það yrði nýtt fyrirkomulag um stjórn sveitarfélaganna, en ekki hefur verið reynt að taka þetta upp á öðrum grundvelli en með skipun lögreglustjóranna. Ég held, að það mætti koma hér á fyrirkomulagi, sem hefði lítinn kostnaðarauka í för með sér, t. d. sameiningu hreppsstjóra- og oddvitastarfa, og ráða mann, líkt og bæjarstjórar eru ráðnir, til þess að gegna þessum störfum til jafnmargra ára og hreppsnefndir eru kosnar. Ég vil aðeins benda þeirri hv. n., sem kemur til með að fjalla um þessa þáltill., á þessa leið, en vitanlega var ég ekki að slá þessu fram til þess að gefa í skyn, að ég telji ekki fleira geta komið til greina, því að þá hefði ég ekki farið að bera fram þáltill., heldur frv. til l., en sló þessu aðeins fram til athugunar. Ef farið yrði eftir þessum vegi, þá held ég, að það verði ekki tilfinnanlegt fyrir hin stærri kauptún að ráða til sín fastlaunaðan mann til þess að hafa framkvæmdarstjórn fyrir málum sínum. Þessi lausn mundi duga, þar til vöxtur eins kauptúns er orðinn svo mikill, að einsýnt er, að það getur orðið kaupstaður. Ég sé nú ekki hæstv. félmrh. hér inni, sem mál þetta heyrir undir. Ég verð að sætta mig við það og draga af fjarvist hans þá ályktun, að hann hafi enga löngun til þess að mótmæla þessu máli, fyrst hann ekki sýnir sig. Þetta er annars mjög einfalt mál. Ég held, að það hafi engin útgjöld í för með sér, þó að hæstv. ríkisstj. sé falið að athuga þetta. Ég tel þetta mál ekki svo flókið, að nauðsyn sé að vísa því til n., en læt þó hæstv. forseta og þingið um það, — en geri sjálfur enga tillögu í því efni.