23.11.1948
Sameinað þing: 20. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 92 í D-deild Alþingistíðinda. (4387)

41. mál, náttúrufriðun og verndun sögustaða

Flm. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Till. samhljóða þeirri, sem hér liggur fyrir á þskj. 53, var flutt á síðasta Alþ., en náði ekki afgreiðslu. Við flm. höfum því leyft okkur að bera hana fram að nýju. Með till. er farið fram á, að ríkisstj. hlutist til um, að endurskoðuð verði lagafyrirmæli um veiði, sem eru frá 1849 og því nærri aldargömul, og lætur að líkum, enda ljóst þegar á þessi lagafyrirmæli er litið, að þau eru á ýmsan hátt úrelt orðin. Jafnframt förum við fram á, að þessi endurskoðun nái til l. um friðun fugla og eggja, sem eru frá 1913. En það er ýmislegt í þessu efni þannig háttað, að það getur gripið inn í hvor tveggja þessi lagafyrirmæli.

Þá leggjum við einnig til, að undirbúin verði löggjöf um vernd staða, sem eru sérstaklega merkir af sögu sinni eða náttúru. Lög um verndun fornminja fjalla um fornleifar, fornminjar og forngripi, þar sem menn hafa einhvern tíma lagt hönd að verki, en ná ekki til þess, sem til er orðið af náttúrunnar völdum, þótt merkilegt sé á einn eða annan hátt. Engin lagafyrirmæli eru heldur um náttúrufriðun. — Ég tel þetta vera svo augljóst atriði, að ekki sé ástæða til þess að halda um það langa ræðu. En ég vil leyfa mér að leggja til að, að þessari umr. lokinni verði málinu vísað til hv. allshn. til athugunar.