29.03.1949
Sameinað þing: 58. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 95 í D-deild Alþingistíðinda. (4398)

177. mál, þátttaka Íslands í Norður-Atlantshafssamningi

Ólafur Thors:

Herra forseti. Ég veit ekki, hvað þessi skrípaleikur á að þýða eða hvers vegna forseti er að biðja þessa menn afsökunar. Ég talaði við þennan hv. þm., 2. þm. Reykv., formann kommúnistaflokksins, í gær, og ég vissi ekki betur, en að það hefði orðið samkomulag um það milli okkar, hans fyrir hönd flokks síns og forseta og mín fyrir hönd þeirra flokka, sem að ríkisstj. standa, að útbýtt yrði miðum til þingmanna, sem þeir gætu úthlutað sem aðgöngumiðum að áhorfendapöllunum, til þess að halda þar uppi reglu og forðast troðning. Og honum, þessum venjulega góða og greinda manni, fannst þetta sjálfsagt. En hvers vegna á forseti að fara að biðja afsökunar á því, þótt lögreglumenn geti ekki séð það á útliti hv. 2. þm. S-M., að hann sé alþingismaður? (LJós: Þm. GK. má ekki halda, að allir beri það utan á sér, að þeir séu þm., þó að hann haldi, að hann geri það.) Eða var þessi þm. nokkuð of góður til þess að segja til sín, gat hann ekki sagt: „Afsakið, lögregluþjónn, en ég er fulltrúi á Alþingi Íslendinga“, og ég sé ekki neitt sérstakt í fari þessa þm., sem hefði getað gefið lögregluþjóninum ástæðu til að rengja það? Og þess vegna sé ég ekki neina ástæðu til þess að vera með neinn skrípaleik hér.