29.03.1949
Sameinað þing: 58. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 97 í D-deild Alþingistíðinda. (4405)

177. mál, þátttaka Íslands í Norður-Atlantshafssamningi

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Hv. 5. þm. Reykv. sagði, að við sósíalistar hefðum gengið eins og grenjandi ljón um allan bæ til þess að safna saman liði til þess að beita Alþingi ofbeldi. Þetta eru tilhæfulaus ósannindi. Það hefur hins vegar komið í ljós, hverjir það eru, sem hafa hugsað sér að beita Alþingi ofbeldi. Það þarf ekki annað en að athuga það, sem er að gerast hér í kringum okkur. Það er ríkisstj., sem er að beita ofbeldi. Það er ríkisstj., sem er að svíkjast aftan að alþingismönnum og Alþingi með því að hindra einstaka þm. í að komast inn í alþingishúsið. — Það er rangt hjá hv. þm. G-K., að það hafi verið samkomulag á milli okkar um að gera ráðstafanir til þess, að þingmenn fengju ekki að fara um húsið. Og það er óhæft með öllu, að þm. G-K. hafi hér lengri tíma til umráða, en þm. fái aftur á móti ekki tíma til þess að mótmæla ofbeldi, sem þeir eru beittir. (Forseti: Þessi tími er nú búinn.) Ég heyri það, að hæstv. forseti var að segja, að tíminn væri búinn.

Hv. þm. G-K. sagði, að ef hv. 2. þm. S-M. hefði sagt það, að hann væri alþingismaður Íslendinga, þá hefði honum óðar verið hleypt inn. En það var einmitt það, sem hann sagði, en honum var samt ekki hleypt inn. Og ég mótmæli þessu. Ég mótmæli þessu ofbeldi, sem verið er að sýna fulltrúum þjóðarinnar.

Á sama fundi var till. tekin til fyrri umr.