29.03.1949
Sameinað þing: 58. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 124 í D-deild Alþingistíðinda. (4408)

177. mál, þátttaka Íslands í Norður-Atlantshafssamningi

Gylfi Þ. Gíslason:

Hinn 4. apríl n. k. verður undirritaður í Washington milliríkjasamningur um varnir Norður-Atlantshafssvæðisins, Norður-Atlantshafssáttmáli, og hefur Íslendingum verið boðið að gerast aðilar að sáttmála þessum. Undirbúningur þessarar samningsgerðar hefur tekið langan tíma, eða allt að því ár. Ástæðan til samningsgerðarinnar er sú, að forustumönnum vestrænna lýðræðisríkja mun nú þykja enginn vafi á því lengur, að vonlaust sé að tryggja frið í heiminum með fölskvalausri alþjóðasamvinnu innan sameinuðu þjóðanna, gera verði ráð fyrir því, að aftur kunni að draga til ófriðar, sem þá yrði fyrst og fremst milli Sovétríkjanna annars vegar og Bandaríkjanna og Bretlands hins vegar, það sé líklegt til þess að draga úr ófriðarhættunni, að Bandaríkin, Bretland og þau lönd, sem fylgja mundu þeim að málum, myndi varnarbandalag, svo að gagnaðilinn viti, hverjum hann ætti að mæta, ef hann stofnaði til árásar, og þessi lönd yrðu þá heldur ekki óviðbúin, ef ófriður brytist út.

Það hefði auðvitað verið vandalítið fyrir forustumenn hinna vestrænu lýðræðisþjóða að semja yfirlýsingu um sameiginlega lýðræðissinnaða stefnu í utanríkismálum og fá allar lýðræðisþjóðir Evrópu og Ameríku til þess að skrifa undir hana. En þeim þótti það ekki nægileg aðvörun til þeirra þjóða, sem þeir töldu sig geta búizt við árás af. Þeir töldu varnarbandalag eitt nægilega aðvörun. En þá kom jafnframt upp það vandamál, hvernig skipuleggja skyldi slíkt bandalag, þ. e. hversu ríkar hinar gagnkvæmu varnarskuldbindingar skyldu vera. Bandaríkin yrðu langsterkasti aðilinn í slíku bandalagi, en jafnframt sá, sem væri í minnstri beinni árásarhættu. Það var því mjög eðlilegt, að löndin í Vestur-Evrópu, sem eru í mestri árásarhættu í ófriði milli austurs og vesturs, vildu fá sem mestar skuldbindingar af hálfu Bandaríkjanna um aðstoð, ef ófriður brytist út. Það er hins vegar andstætt hefðbundinni utanríkisstefnu Bandaríkjanna að skuldbinda sig fyrir fram til slíkrar aðstoðar, auk þess sem það er erfitt vegna stjórnarskrárákvæða. Þennan mikilvæga vanda varð því að leysa, áður en hægt yrði að mynda varnarbandalagið, og það tók tíma. Samningaumleitanir um myndun bandalagsins munu hafa byrjað í júní síðastliðnum, og þeim lauk ekki fyrr en nú fyrir skemmstu. Það var vandalítið um gagnkvæmar skuldbindingar, sem þurfti að leysa, og jafnframt urðu bandalagsríkin auðvitað að gera sér grein fyrir því, hvernig haga ætti vörnum, ef til styrjaldar kæmi, þ. e. hvaða víglínu ætti að verja, og hvernig haga skyldi gagnsókn, og það hlaut líka að taka tíma að koma sér saman um slíkar hernaðaráætlanir, því að hagsmunir væntanlegra bandalagsþjóða voru þar andstæðir í ýmsum atriðum.

Samkvæmt ummælum erlendra blaða virtist svo á síðustu mánuðum síðastliðins árs, að Bretar og Frakkar mundu fá þeim kröfum sínum framgengt, að bandalag þetta yrði náið, hervarnir landanna efldar mjög og amræmdar og um allmiklar gagnkvæmar skuldbindingar að ræða. Í ljósi þessara staðreynda verður að skoða umræður þær, sem fram fóru hér á landi um áramótin síðustu. Íslenzkir valdamenn hljóta að hafa vitað, hvernig þessi mál stóðu, þótt ekki væri af öðru, en lestri erlendra blaða og tímarita. Samt sem áður virtist tal þeirra hníga að því, að sjálfsagt væri, að Ísland yrði aðill að þessu bandalagi. Niðurstaða samningaumleitananna varð þó önnur. Bandaríkin tóku þá endanlegu ákvörðun að gangast ekki undir neinar formlegar skuldbindingar gagnvart hinum bandalagsríkjunum og munu ekki hafa talið sér fært að gefa ákveðin fyrirheit um varnir ýmissa landssvæða, sem vitað var, að aðrir óskuðu, að varin yrðu skilyrðislaust. Þetta olli t. d. Bretum og Frökkum miklum vonbrigðum, svo sem greinilega hefur komið fram í heimsblöðunum, þótt þeir á hinn bóginn teldu sér mikils virði að fá þau fyrirheit, sem Bandaríkin þá voru reiðubúin að veita. Þau voru ekki í bindandi formi, heldur nánast þannig, að árás á bandalagsríki skyldi einnig skoðast sem árás á Bandaríkin, þótt þau, þ. e. Bandaríkin, áskildu sér að vísu rétt til þess að ákveða sjálf, til hvaða ráðstafana þau gripu. Norrænu konungsríkin þrjú höfðu gert miklar tilraunir til að leysa öryggismál sín sameiginlega á þann hátt, að þau mynduðu norrænt varnarbandalag, er stæði utan Atlantshafsbandalagsins, en slíkt bandalag reyndist ekki eiga sama kost á bandarískum vopnum og ríki innan Atlantshafsbandalagsins, og þótti því Noregi fyrst og fremst öryggi sitt ekki nægilega tryggt í slíku bandalagi, svo að af því varð ekki. Noregur og Danmörk verða því í Atlantshafsbandalaginu, en Svíþjóð ekki.

Umræður um þetta mál hófust miklu seinna hér á landi, en í nokkru öðru landi, sem rætt var um, að yrði þátttakandi væntanlegs Atlantshafsbandalags. Málið hafði verið rætt rækilega í blöðum annarra landa í 5–6 mánuði áður en minnzt var á það hér. Og þegar svo loks var á það minnzt hér, þótti sumum það hin mesta hvatvísi og fljótfærni. Allar umræður væru algerlega ótímabærar. En strax og umræðurnar hófust, kom samt í ljós, að mikið hafði verið um málið hugsað, og virtust sumir valdamenn hafa ráðið við sig, hvaða tillögur þeir mundu gera.

Upphaf hinna opinberu umræðna hér á landi var það, að séra Sigurbjörn Einarsson dósent flutti fullveldisræðu á vegum háskólastúdenta 1. des. s. l. Varaði hann þar Íslendinga við inngöngu í hernaðarbandalag og taldi þeim henta bezt hin hefðbundna stefna hlutleysis í hernaðarátökum, sökum smæðar, vopnleysis og andúðar á styrjöldum. Þegar þessi rödd hljómaði, var sem komið hefði verið við kviku fjölmargra stjórnmálamanna og stjórnmálaritstjóra. Það stóð ekki á svörum, og þau voru ekki ávallt mælt af stillingu, þau voru hrópuð, og þau voru æpt í ofsa og vandlætingu innan um ókvæðisorð og fúkyrði. „Það er ekkert öryggi lengur í hinu úrelta hlutleysi,“ var hrópað. Það skipti engu máli, þótt enginn hafi nokkru sinni haldið fram hér, að í hlutleysi fælist eitthvert öryggi. Og það var hrópað: Hlutleysi er ekki aðeins flónska. Það er að þora ekki að velja milli góðs og ills. Það er siðleysi. Það er stuðningur við ofbeldið. Það er kommúnismi. — Það skipti engu máli, þótt hlutleysi sé þjóðréttarhugtak um afstöðu í styrjöld, — það skyldi tákna skoðanaleysi, kjarkleysi, kommúnisma. Og á eftir ópunum um hlutleysið kom svo aðalatriðið: Öryggi landsins er í hættu. Landið má ekki vera varnarlaust. Það má ekki vera einangrað. Það verður að treysta varnir þess og öryggi. Þótt því væri andmælt, að utanríkisstefna landsins ætti framvegis að grundvallast á hlutleysi, og jafnvel þótt það væri gert með óhefluðu orðalagi, þá var það út af fyrir sig ekki sérstaklega athyglisvert. Hugtakið hlutleysi er engan veginn óumdeilanlegt sem þjóðréttarhugtak. Um það er deilt, hvort við Íslendingar höfum verið hlutlausir í síðustu styrjöld, og andmæli gegn hlutleysi þurftu því ekki að tákna mikilvæga stefnubreytingu. En þúsundir manna í öllum stjórnmálaflokkum hrukku við, er þeir heyrðu, að öryggi landsins væri í hættu og landið mætti ekki vera varnarlaust. Þeir spurðu og hlutu að spyrja: Er árás yfirvofandi? Og hvernig á að verja landið? Eigum við að koma hér upp víggirðingum? Eða á önnur þjóð að gera það? Eigum við að stofna hér her til þess að verja landið? Eða á að fá hingað erlendan her til þess að verja það? Þessar spurningar brunnu á vörum manna um land allt. Og þær höfðu verið lagðar á varir þeirra af þeim stjórnmálamönnum og stjórnmálaritstjórum, sem allt í einu og í tilefni af því einu, að varað hafði verið við þátttöku í hernaðarbandalagi og mælt með hlutleysi í hernaðarátökum, höfðu tekið að tala um það, að öryggi landsins væri ekki nógu tryggt og landið mætti ekki vera varnarlaust.

Ég var einn þeirra, sem fylltist skelfingu, þegar ég heyrði talið og las skrifin um öryggisleysið og nauðsynina á sterkum landvörnum. Og ég spurði sjálfan mig: Getur það verið, að menn telji landið í yfirvofandi hættu af árás og hernámi af hálfu Rússa, ef styrjöld brytist út? Getur það verið, að menn séu reiðubúnir að leggja í kostnað við að koma hér upp víggirðingum og innlendum her til þess að koma í veg fyrir slíkt? Eða getur það verið, að menn vilji láta aðrar þjóðir koma hér upp víggirðingum og senda hingað erlendan her, er verði til taks, ef til slíks kynni að koma? Ég spurði marga menn þessum spurningum, ræddi þær við menn úr öllum stjórnmálaflokkum. Tilefni hafði gefizt, því að Atlantshafssáttmálinn var í undirbúningi og vitað, að Íslandi yrði boðin aðild. Og ég varð undrandi yfir þeim svörum, sem ég fékk hjá ýmsum mönnum, mörgum mönnum. Þeir virtust telja Rússa geta hernumið landið, þegar þeim sýndist, og haldið því, það væri auðvitað óbærileg tilhugsun, þess vegna yrði hér að vera hervirki og lið til varnar. Sárafáir vildu að vísu, að við byggðum víggirðingar og stofnuðum her, en sumir töldu nauðsynlegt, að hingað kæmi þegar í stað erlendur her og upp yrði komið víggirðingum fyrir erlent fé, og margir töldu slíkt enga frágangssök, ef það þyrfti að vera liður í samningum við aðrar þjóðir um öryggismál landsins.

Ég var og er þeirrar skoðunar, að Ísland sé ekki í beinni hættu af hernámi Rússa, þótt styrjöld brytist út milli þeirra og Bandaríkjanna. Ég taldi því og tel enga ástæðu til hervarna hér á landi, sem betur fer, því að sjálfir höfum við engin tök á að koma þeim upp og enga getu til að stofna þann her, er gæti varið landið árás, en af setu erlends hers í landinu á friðartímum mundi stafa stórkostlegur þjóðernisháski. Íslenzkri tungu og íslenzkri menningu hlyti að verða stefnt í voða, ef hér yrði erlendur her að staðaldri, og sjálfstæði landsins yrði nafnið eitt, ef aðrar þjóðir kæmu hér upp víggirðingum og gættu þeirra.

Var nú nokkur furða, þótt mönnum, sem aðhyllast slíkar skoðanir, brygði í brún, þegar þeir heyrðu skyndilega talað um hættur, öryggisleysi og nauðsyn hervarna. Valdamenn og blöð sögðu að vísu ekki, að þau vildu láta víggirða landið og fá hingað erlendan her. En þau fengust lengi vel heldur ekki til að staðhæfa, að þau vildu ekki láta víggirða landið og ekki fá hingað erlendan her. Þess vegna urðu menn óttaslegnir. Þess vegna vissu menn ekki, hvað menn áttu að halda. Þess vegna voru menn kvíðafullir og væntu hins versta.

Nú er að vísu komið í ljós, sem betur fer, að ótti, sem margir ólu í brjósti — og hafði verið veitt tilefni til að ala í brjósti — um, að aðild að Atlantshafsbandalagi mundi leggja Íslendingum algerlega óbærilegar skyldur á herðar, var ástæðulaus. Það hefur komið í ljós, að í kjölfar aðildar að bandalaginu þarf ekki að sigla herseta í landinu á friðartímum og ekki víggirðing landsins. Þjóðréttarlegar skuldbindingar samningsins eru mjög litlar. Enginn samningsaðili afsalar sér formlega sjálfsákvörðunarrétti í neinu verulegu atriði. Eðli samningsins og þýðing hans er ekki fólgið í þeim þjóðréttarskuldbindingum, sem í honum felast. Þær eru litlar, og þá væri þýðing hans lítil. En hún er hvarvetna talin mjög mikil. Hvað veldur? Í hverju er mikilvægi samningsins fólgið?

Eðli þessa samnings er í því fólgið, að honum er ætlað að vera siðferðilega bindandi, þótt hann sé ekki lagalega bindandi. Honum er ætlað að vera stefnuyfirlýsing, og meira, honum er ætlað að vera fóstbræðralag. Í þessu er fólgið mikilvægi hans. Bandaríkin hafa hingað til ekki viljað taka á sig neinar siðferðilegar skuldbindingar í hermálum gagnvart Vestur-Evrópuþjóðunum á friðartímum, þau hafa ekkert fóstbræðralag við þær viljað í friði, ekki af því að ekki sé um gagnkvæma vináttu, sömu utanríkisstefnu og sameiginlega hagsmuni að ræða, heldur af hinu, að þau gera sér ljóst, að í slíku bræðralagi felst skuldbinding, þótt ekki sé hún lagaleg. En nú hafa þau viljað ganga undir slíka siðferðilega skuldbindingu. Þess vegna er samningurinn mikilvægur. En ef hann er mikilvægur vegna þess, að í honum felst siðferðileg skuldbinding af hálfu Bandaríkjanna, felst líka í honum siðferðileg skuldbinding af hálfu hinna samningsaðilanna. Það er ekki hægt að gera hvort tveggja, að telja samninginn mikilvægan vegna þess, að með honum hafi Bandaríkin tekið á sig siðferðilegar skudbindingar, og segja svo, að aðrar þjóðir geti ekkert haft við hann að athuga, vegna þess að í honum felist alls engar skuldbindingar. Ef í samningnum fælust engar skuldbindingar, væri hann markleysa, varla virði pappírsins, sem hann verður skráður á, og hlægilegur með tilliti til þeirrar miklu vinnu, sem lögð hefur verið í undirbúning hans. En auðvitað felast skuldbindingar í samningnum. Þess vegna er hann mikilvægur. Skuldbindingarnar hafa ekki á sér lagaform. Það er mikils virði fyrir þá, sem óttast afleiðingar slíkra skuldbindinga. En um siðferðisskyldu er þó að ræða, og hún á jafnt við um stærsta samningsaðilann sem hinn smæsta.

Þar með er auðvitað engan veginn sagt, að samningurinn sé óaðgengilegur fyrir Íslendinga. Íslendingar geta ekki haft það að meginreglu að gangast aldrei undir neinar skuldbindingar í alþjóðamálum, enda hafa þeir gert það. Þess vegna geta Íslendingar ekki hafnað slíkum samningi á þeim grundvelli einum, að í honum felist skuldbindingar. Spurningin er um, hvort þessar skuldbindingar séu samrýmanlegar þeirri utanríkisstefnu, sem Íslendingar vilja fylgja, og hvort innan bandalagsins yrði nægilegt tillit tekið til sérstöðu Íslands, ef af aðild þess yrði.

Það er hægt að taka afstöðu með eða móti slíku bandalagi út frá ýmsum sjónarmiðum. Það er í fyrsta lagi hægt að taka afstöðu til þess sem ráðstöfunar í alþjóðamálum, þ. e. út frá því sjónarmiði, hvort það dragi úr stríðshættu eða auki hana. Í öðru lagi er hægt að taka afstöðu til þess út frá því sjónarmiði, hvort það efli eða veiki þann deiluaðila í alþjóðamálum, sem maður hefur samúð með. Í þriðja lagi er hægt að taka afstöðu til þess út frá því sjónarmiði, hvort það sé í samræmi við utanríkisstefnu hlutaðeigandi þjóða að gerast aðili að slíku bandalagi og hvort innan bandalagsins yrði fullt tillit tekið til þeirrar sérstöðu, sem um kynni að vera að ræða.

Ég mun nú gera grein fyrir afstöðu minni til Atlantshafssáttmálans út frá þessum sjónarmiðum.

Ég álít sáttmálann ekki varhugaverða ráðstöfun frá alþjóðasjónarmiði og álít hann ekki auka ófriðarhættu. Eins og komið er í alþjóðamálum, álít ég samninginn eðlilega og sjálfsagða ráðstöfun. Ég las í gær þau ummæli í vikuriti brezkra jafnaðarmanna, að þessi sáttmáli væri hvorki gerður í Wall Street né Vatíkaninu, Washington né London. Hann væri svar vestrænu ríkjanna gegn utanríkisstefnu Sovétríkjanna síðan stríði lauk. Hann væri svar við neitun Sovétstjórnarinnar á því, að tekið væri upp alþjóðaeftirlit með kjarnorkuframleiðslu. Hann væri svar við misnotkun Rússa á neitunarvaldinu í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Hann væri svar við þeirri stjórnarstefnu, sem fylgt væri í Austur-Evrópulöndunum að fyrirlagi eða með stuðningi Sovétstjórnarinnar og svipti alþýðu alla stjórnamálafrelsi og réttaröryggi. Hann væri svar við tilraunum Sovétstjórnarinnar til þess að hindra framkvæmd Marshalláætlunarinnar, sem stuðlar svo mjög að viðreisn Evrópu. Ég hygg, að þetta séu allt saman orð að sönnu. Ég efast ekki um það eitt augnablik, að fyllsta ástæða sé til þess fyrir hin vestrænu veldi að bindast samtökum til þess að sporna við frekari útþenslu af hálfu Rússa, þótt ekki sé annað hægt en að minna á, hversu mikið af því, sem Rússar sölsuðu ranglega undir sig í stríðinu og eftir stríðið, þeir sölsuðu undir sig með samþykki þessara sömu vestrænu stórvelda. Ég hef því ekkert við sáttmálann að athuga sem ráðstöfun í alþjóðamálum, og ég álít hann ekki auka stríðshættu. Kommúnistar, bæði hér og annars staðar, leggja hins vegar mikið upp úr þessu atriði, og raunar fleiri en kommúnistar, bæði hér og annars staðar. Hefur það komið greinilega fram í ræðu og riti hér, að andstaða ýmissa annarra en kommúnista við bandalagið byggist á þessu atriði. — Ég gat þess svo í öðru lagi, að afstaða manna til bandalagsins gæti mótazt af því, hvort menn teldu það efla eða veikja aðstöðu þess höfuðdeiluaðilans í heimsstjórnmálunum, sem menn hefðu samúð með. Ég held, að óhætt sé að fullyrða, að andstaða kommúnista um allan heim gegn þessu bandalagi byggist fyrst og fremst á því, að þeir telja það veikja aðstöðu Sovétríkjanna og bandamanna þeirra á vettvangi alþjóðamála, og ég held, að afstaða íslenzkra kommúnista byggist nákvæmlega á þessu sama. Þeir miða afstöðu sína til þessa bandalags við aðstöðu og hagsmuni Sovétríkjanna, rétt eins og afstöðu sína til Marshalláætlunarinnar og fleiri mála á alþjóðavettvangi. Ég er þess fullviss, að þessi samningur styrkir aðstöðu Vesturveldanna í átökum heimsstjórnmálanna. Í því hafa kommúnistar um heim allan rétt fyrir sér. Þess vegna bannsyngja þeir samninginn. Ég fyrir mitt leyti tek hins vegar málstað Vesturveldanna langt fram yfir málstað Sovétríkjanna og sé því ekki ástæðu til annars en fagna öllu því í sjálfu sér, sem styrkir þennan málstað. Hér ber því að sama brunni og áður um afstöðu mína. Ég hef ekkert að athuga við sáttmálann út frá því sjónarmiði, að hann efli málstað Vesturveldanna í heimsstjórnmálum. Ég tel gott og réttmætt, að sá málstaður sé efldur, og því í sjálfu sér gott og réttmætt, að þessi sáttmáli sé gerður.

Þá gat ég þess í þriðja lagi, að hægt væri að taka afstöðu til sáttmálans út frá því sjónarmiði, hvort aðild að honum væri talin samrýmast utanríkisstefnu og sérstöðu hvers lands. Til þess að geta tekið hér afstöðu út frá íslenzku sjónarmiði, verður að gera sér grein fyrir; hver utanríkisstefna Íslands á að vera og í hverju sérstaða Íslands yrði fólgin, ef til aðildar kæmi. Ég tel, að íslenzk utanríkisstefna eigi að grundvallast á eftirfarandi meginatriðum:

1) Íslendingar eigi að kappkosta að hafa sem nánasta samvinnu við hin Norðurlöndin og hin vestrænu lýðræðisríki sökum sameiginlegra viðskiptahagsmuna, ætternis og menningartengsla, skyldra stjórnarhátta og samúðar með málstað lýðræðis og pólitísks frelsis.

2) Íslendingar eigi að halda fast við algert vopnleysi sitt, bæði í friði og ófriði. Þeir eigi aldrei að segja nokkurri þjóð stríð á hendur, aldrei heyja styrjöld gegn nokkurri þjóð.

3) Íslendingar eigi og aldrei að leyfa erlendum her dvöl í landinu á friðartímum og aldrei þola þar neinar erlendar herstöðvar, enda er landfræðileg lega landsins þannig, að á slíku er sem betur fer ekki þörf til varnar landinu gegn árás úr þeirri átt, sem Ísland mundi fyrst og fremst óttast. Hið aukna öryggi, sem af því leiddi, mundi og hvergi nærri vega gegn þeirri gífurlegu hættu, sem slíkt hefði í för með sér fyrir sjálfstæði og þjóðerni Íslendinga, tungu þeirra og menningu.

4) Í ófriði eigi Íslendingar að hafa samvinnu við þær þjóðir, sem hafa sömu hagsmuni og þeir sjálfir af því, að siglingaleiðunum í höfunum kringum Ísland sé haldið opnum, og einkum og sér í lagi, ef þeir berjast jafnframt fyrir þeim málstað, sem getur jafnframt talizt málstaður Íslendinga. Í ófriði eigi Íslendingar að láta slíkum þjóðum í té þá aðstöðu í landinu, sem nauðsynleg er til þess, að siglingaleiðunum verði haldið opnum á höfunum umhverfis landið, þar eð þar er um brýna hagsmuni Íslands að ræða; en þeir eigi ekki að leyfa, að land sitt verði notað til árásar á önnur lönd, þar eð það mundi bjóða heim gagnárásum, sem væru Íslendingum hættulegri en nokkurri annarri þjóð sökum fámennis og þess, að nær helmingur þjóðarinnar býr í einum smábæ, milli hafnar og flugvallar og skammt frá einum stærsta flugvelli veraldar.

Þetta eru þau meginatriði, sem ég tel, að íslenzk utanríkismálastefna eigi að byggjast á. Er nú sáttmálinn um Norður-Atlantshafsbandalagið, eins og hann liggur fyrir, samrýmanlegur þessari stefnu eða ekki?

Ef miðað er við hina lögformlegu hlið sáttmálans, álít ég hann ekki ósamrýmanlegan þessum grundvallaratriðum, en hitt er augljóst, að sé miðað við þær siðferðisskuldbindingar, sem í sáttmálanum felast, hlýtur hann að teljast andstæður nokkrum atriðum þeirra. Ég álít hann ekki ósamrýmanlegan því grundvallaratriði, að Íslendingar eigi að hafa samvinnu við hin Norðurlöndin og hin vestrænu lýðræðisríki. Ég álít, að í honum felist hvorki lagaleg né siðferðileg skuldbinding til þess að leyfa hér erlendan her á friðartímum, þar eð slíkt verða ekki taldir brýnir hagsmunir hinna samningsaðilanna. Hins vegar felst í honum siðferðileg skuldbinding til þess að veita bandalagsríkjunum aðstöðu hér í ófriði. Sú aðstaða er ekki ósamrýmanleg þeirri utanríkisstefnu, sem ég lýsti, nema landið verði þá notað til árásar, en Íslendingar munu ekki geta vænzt þess að hafa á það nokkur áhrif, hvernig landið yrði notað, ef til ófriðar drægi, þótt þeir geti ráðið því, hvað þeir samþykkja og hvað ekki. Ég álít og, að í samningnum felist ekki formleg skylda til beinnar stríðsyfirlýsingar, ef ófriður brýzt út, en ég álít, að gerist Íslendingar aðilar að samningnum, þá mundi þeim þó ekki verða fært að skorast undan að lýsa yfir stríði, ef fram á það yrði farið, a. m. k. ef ekki yrði gerður um það skýr og ótvíræður fyrirvari við undirskriftina. Ástæðan er sú, að allar hinar bandalagsþjóðirnar mundu vafalaust lýsa yfir stríði strax og ófriður brýzt út. Við yrðum eina þjóðin, sem ekki vildi gera það, og er hætt við, að sá vilji okkar yrði lítilsvirtur, þar eð hinar þjóðirnar mundu halda því fram, að það gætu Íslendingar gert sér að kostnaðarlausu. Það hefur verið farið fram á það við okkur, að við lýstum yfir stríði gegn möndulveldunum, og einmitt af hálfu Sovétríkjanna, Bandaríkjanna og Bretlands. Það sýndi, að stórveldin hafa ekki skilning á algerri sérstöðu okkar í þessum efnum. Alþingi vildi ekki fallast á stríðsyfirlýsingu. Það vildi ekki einu sinni vinna það til í því skyni að fá inngöngu í sameinuðu þjóðirnar. Það, sem hefur gerzt, getur gerzt aftur. En það þarf að vera fullkomlega tryggt, að til stríðsaðildar verði aldrei ætlazt af Íslendingum, og ég tel ekki, að það geti talizt fullkomlega tryggt, nema gerður sé um það skýr og ótvíræður fyrirvari við undirskrift samningsins.

Nú þarf ekki einungis að athuga samninginn með tilliti til þeirrar utanríkisstefnu, sem fylgja á, heldur einnig með tilliti til þess, hvort um geti verið að ræða einhverja sérstöðu Íslands, sem þurfi að taka tillit til, áður en af aðild ætti að geta orðið. Ég álít, að Ísland hafi sem hugsanlegt bandalagsríki sérstöðu, sem taka yrði fullt tillit til, áður en rétt gæti verið að gerast aðili að þessu bandalagi. Ísland hefur algera sérstöðu að einu leyti, auk þeirrar sérstöku utanríkisstefnu, sem ég tel, að Ísland eigi að fylgja, og ég hef lýst. Ísland hefur nú sérsamning við voldugasta bandalagsríkið um sérstaka aðstöðu því til handa í landinu sjálfu. Allir vita, að aðildar okkar Íslendinga að þessu bandalagi er fyrst og fremst óskað vegna Keflavíkurflugvallarins, vegna þess að hann þarf að vera tiltækur, ef ófriður brýzt út. Samkvæmt samningnum eiga allir aðilar að vera jafnréttháir. Þær þjóðir, sem ráða landi sínu algerlega sjálfar, hafa öll formleg skilyrði til þess að hagnýta þetta formlega jafnrétti. Við Íslendingar ráðum landi okkar ekki sjálfir. Við höfum með samningi, Keflavíkursamningnum, veitt stjórn Bandaríkjanna sérstaka aðstöðu á Keflavíkurflugvelli, heimilað henni að annast starfrækslu þar og að hafa þar eigið starfslið. Við Íslendingar ráðum ekki sjálfir þeim bletti landsins, sem veldur því fyrst og fremst, að aðildar okkar að bandalaginu er óskað. Við höfum því ekki einu sinni formleg skilyrði til þess að hagnýta jafnréttisaðstöðu þá, sem samningurinn veitir samningsaðilum. Um efnislegu skilyrðin ræði ég ekki. Vegna smæðar okkar er auðséð, að aðstaða okkar hlýtur ávallt að vera veik. Þetta á ekki við um neina samningsþjóðina nema okkur. Það stoðar ekki að vitna til bandarísku herstöðvanna á Grænlandi, því að auðvitað skiptir meginmáli fyrir Dani, hvort herstöðvarnar væru í heimalandi þeirra eða í nýlendu fjarri heimalandinu, eins og þar á sér stað. Hér er því um algera sérstöðu Íslendinga meðal væntanlegra bandalagsríkja að ræða. Þeir hafa samið við eitt bandalagsríkið um afnot af íslenzku landi, þeir ráða landi sínu ekki sjálfir að öllu leyti. Meðan svo er, geta Íslendingar ekki orðið formlega jafnrétthár aðili öðrum í slíku bandalagi. Þessi sérsamningur þarf því að falla úr gildi samhliða því, að Íslendingar gerist aðili að slíku bandalagi, eða það þarf að minnsta kosti að vera víst, að samningnum verði sagt upp strax og ákvæði hans heimila. Þessu skilyrði þarf að minni skoðun ófrávíkjanlega að fullnægja, ef um aðild af Íslands hálfu á að vera að ræða, engu síður en því, að aðildin sé í samræmi við íslenzka utanríkisstefnu. Íslendingar þurfa að ráða landi sínu algerlega sjálfir, ef þeir eiga að geta talizt fullgildir aðilar í slíku bandalagi, og þá ekki sízt þeim bletti landsins, sem mikilvægastur er frá sjónarmiði bandalagsins. Þess vegna höfum við 5 þingmenn flutt þáltill. um uppsögn Keflavíkursamningsins. Við álítum samþykkt þeirrar till. eða annarrar jafngildrar henni algert skilyrði fyrir því, að rétt sé að gerast aðili að bandalaginu, og við sjáum ekkert því til fyrirstöðu, að slík till. sé samþykkt. Það er algerlega á valdi Alþingis að gera þær ráðstafanir, sem þar er farið fram á, og það er jafnvel ástæða til að halda, að gagnaðili samningsins telji slíka breytingu enga frágangssök. En hvað veldur, að því er jafnilla tekið og raun ber vitni, að slík till. sé samþykkt? Er það svo, að íslenzkir ráðamenn vilji í raun og veru ekki fá Keflavíkurflugvöll undir alger íslenzk yfirráð? Ef svo er, þá er nauðsynlegt, að það komi skýrt fram. Ef skoðanir íslenzkra ráðamanna og meiri hluta Alþingis eru raunverulega þannig, þá er vissulega varhugavert að ganga í bandalag, sem leggur Íslendingum siðferðilega skuldbindingu á herðar. Þá er ástandið líka varhugavert, þótt við stæðum utan slíks bandalags. Þá er ástandið alvarlegt í sjálfu sér, beinlínis hættulegt.

Af því, sem nú hefur verið sagt, má það vera ljóst, að afstaða mín til þessarar samningsgerðar er ekki hin sama og afstaða hv. 2. þm. Reykv., hún er í rauninni gerólík afstöðu hans. Hann er andvígur þessum sáttmála í sjálfum sér, hann er andvígur honum sem ráðstöfun í heimsmálum, af því að hann auki á ófriðarhættu, — og ég efast ekki um, að hann er líka andvígur honum vegna þess, að hann telur hann veikja afstöðu Sovétríkjanna á alþjóðavettvangi, þótt hann segi það ekki berum orðum. Ég hef ekkert við sáttmálann að athuga frá þessum sjónarmiðum. Mér skilst, að hv. 2. þm. Reykv. telji og ekki koma til mála, að Íslendingar taki þátt í neinni mikilvægri milliríkjasamvinnu utan Sameinuðu þjóðanna, þ. e. milliríkjasamvinnu, sem Sovétríkin standa utan við, sbr. afstöðu hans til Marshalláætlunarinnar. Ég er honum algerlega ósammála um þetta. Hv. 2. þm. Reykv. virðist vara andstæður aðild að slíkri samningsgerð, hvernig sem hún væri. Ég er slíkri samningsgerð ekki andvígur í sjálfri sér. Ég er henni ekki „prinsipielt“ andvígur, ef hún er í fullu samræmi við þá utanríkisstefnu, sem ég tel, að eigi að fylgja, og fullt tillit er tekið til sérstöðu Íslands. En ég tel, að Ísland þurfi að búa betur um hnútana og vera betur á verði en nokkur hinna þjóðanna sökum smæðar sinnar og algers vopnleysis í stóru, en hernaðarlega mikilvægu landi.

Ég vil taka það skýrt fram, að ég væri reiðubúinn að fylgja aðild Íslands að þessum sáttmála, ef ég yrði sannfærður um, að hann bryti að engu leyti í bága við þá utanríkisstefnu, sem ég hef lýst, og gerðar yrðu öruggar ráðstafanir í samræmi við þá sérstöðu landsins í sambandi við Keflavíkurvöllinn, sem ég hef rætt. Um þetta hef ég ekki verið sannfærður. Ásamt hv. 3. landsk. þm., Hannibal Valdimarssyni, einum elzta og reyndasta frambjóðanda Alþfl., Kjartani Ólafssyni, og form. Alþýðuflokksfélags Reykjavíkur, Arngrími Kristjánssyni, flutti ég innan Alþfl. þá till., að flokkurinn féllist á að mæla með inngöngu í Atlantshafsbandalagið með tveimur skilyrðum. Hið fyrra var, að sú sérstaða Íslands yrði viðurkennd sem samningsatriði, að Íslendingar þyrftu aldrei að segja öðrum þjóðum stríð á hendur og aldrei heyja styrjöld. Hið síðara var, að Alþfl. lýsti yfir þeim vilja sínum, að Keflavíkursamningnum yrði sagt upp, strax og ákvæði hans leyfa eða fyrr, ef þess er kostur. Um þetta fengust ekki samþ. nógu glögg fyrirheit, og greiddum við því ásamt einum miðstjórnarmanni að auki atkvæði gegn aðildinni. Afstaða okkar hv. 3, landsk. þm. (HV) hér á Alþingi mun verða hin sama. Við munum setja þessi sömu skilyrði fyrir fylgi okkar við aðildina, vera reiðubúnir að samþykkja hana að þeim samþykktum, en verðum andvígir henni að þeim felldum. Það þarf skýr rök og alveg ótvíræðar yfirlýsingar til þess að sannfæra mig um þessi atríði. Ég skal játa, að afstaða mín mótast verulega af því, að ég tel Ísland hafa ástæðu til að gæta fyllstu varúðar í samskiptum sínum við Bandaríkin. Ekki af því, að ég beri nokkurn óvildarhug til Bandaríkjanna eða málstaðar þeirra á alþjóðavettvangi. Nei, ástæðan er sú ein, að þau hafa farið fram á herstöðvar hér til 99 ára og telja sig hafa hér mikilvægra hernaðarhagsmuna að gæta og hafa hér sérstaka aðstöðu, sbr. samninginn um afnot af Keflavíkurflugvellinum. Ég skal líka játa, að þegar höfð er í huga afstaðan til Keflavíkurmálsins og framkvæmd Keflavíkursamningsins af hálfu íslenzkra stjórnarvalda, er vissulega ekki sérstök ástæða til að bera takmarkalaust traust til stjórnar íslenzkra utanríkismála. Af öllum þessum ástæðum þurfum við að gæta okkar betur, en ýmsar hinna þjóðanna, og við höfum fyllstu ástæðu til að vilja hafa meira svart á hvítu, en nokkur hinna.