29.03.1949
Sameinað þing: 58. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 144 í D-deild Alþingistíðinda. (4412)

177. mál, þátttaka Íslands í Norður-Atlantshafssamningi

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég vil segja það í tilefni af þessum úrskurði hæstv. forseta, sem hann hefur boðað, að mér finnst það ótilhlýðilegt að taka til þessara ráðstafana nú. Alþm. eru ekki búnir að þreyta sig svo á löngum umr. um þetta stórmál, að þeir megi ekki vel við því að ræða það fram á kvöld, og kannske fram á nótt, ef því er að skipta. Mér þykir ákaflega ógeðfellt, að tilraun er gerð strax í dag á miðdegi til þess að beita þvingun á óviðkunnanlegan hátt til þess að taka málfrelsi af hv. þm. Mér er alveg sama, hvort kommúnistar eiga í hlut eða ekki. Kommúnistar hafa fullan þingrétt, og þann rétt má ekki brjóta á þeim. Þeir voru meira að segja samvinnuhæfir í ríkisstjórn fyrir skömmu síðan. Það var hér um miðjan dag gerð tilraun til þess, að ræðumaður stytti ræðutíma sinn, með því að hafa ekki matartíma. — Ég lýsi andúð minni á því, að ræðutími sé nú skorinn niður um þetta mál.