29.03.1949
Sameinað þing: 58. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 150 í D-deild Alþingistíðinda. (4419)

177. mál, þátttaka Íslands í Norður-Atlantshafssamningi

Ásmundur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég fullyrði, að ef hér væri nú til umræðu frumvarp um að murka lífið úr nokkrum minkum, þá væru ekki skornar niður umræður.

Það hefur þrisvar komið fyrir í sögu Íslands, að miklar samþykktir hafa verið gerðar undir hervernd og lögregluvernd. Það var fyrst í Kópavogi, þegar Íslendingar voru kúgaðir til að afhenda síðustu réttindi sín einvaldskonungum í hendur, og þá voru það útlendingar, sem beittu ofbeldinu. Í annan stað var það 1851, þegar berja átti réttindakröfur Íslendinga niður með erlendu hervaldi, en þá mótmæltu Íslendingar. Í þriðja lagi var Keflavíkursamningurinn gerður undir lögregluvernd 1946, en það, sem verst var: Það voru íslenzkir menn, sem stóðu fyrir afnámi landsréttindanna þá. — Og hér er enn komið að þáttaskilum undir svipuðum kringumstæðum. Og hvers vegna á að samþykkja hér, að Ísland gangi í Atlantshafsbandalagið? Það er af því, að með völdin í landinu fer nú sérréttindastétt undir verndarvæng ameríska auðvaldsins. Og hverjar eru nú skrautflíkurnar, sem hún veifar? Jú, það er Íslandsvinátta Bandaríkjamanna, það er Marshalllán og Marshallgjafir, allt af umhyggju fyrir Íslandi. Það er líka talað um helgustu mannréttindi og ævarandi frið á jörðu í sambandi við þetta bandalag. Við þekkjum þessa Íslandsvináttu að fornu og nýju. Fyrsta erlenda tilboðið um hana kom frá Ólafi helga Haraldssyni Noregskonungi, en því var raunar hafnað. Ekki tókst eins gæfusamlega til 1946, þegar Bandaríkin buðu vináttu sína og fengu í staðinn hernaðaraðstöðu á okkar landi. En hvernig fór 1262, eftir að sérréttindastéttirnar höfðu flúið á náðir hins erlenda valds til að lafa örlítið lengur við völd, og hvert stefnir nú?

Það er gott að athuga dálítið nánar þessar skrautflíkur. Persónufrelsi var t. d. nefnt hér í gær og flaggað með frelsis- og lýðræðisupphrópunum. Við könnumst t. d. við, hvers Bandaríkin og fleiri þjóðir, sem að Atlantshafsbandalaginu standa, hafa virt persónufrelsið, þegar hagsmunir auðvaldsins eru annars vegar, bæði í nýlendum þessara þjóða og jafnvel heima fyrir. Þegar auðvaldið þarf að græða á fólkinu, þá er persónufrelsi hvers og eins ekki hátt skrifað. Þá er gasprað um, að hernaðarbandalagið færi heiminum ævarandi frið. Það á að byrja með því að ógna heiminum með þeim vopnum, sem myrt geta fólk svo hundruðum þúsunda skiptir, og 320 milljónum, gráum fyrir járnum, og þannig á að skapa ævarandi frið á jörðu. Og það á að stofna hernaðarbandalag til að standa að þeim friði, þó að hernaðarbandalög hafi alltaf og ætíð orðið til þess að koma af stað styrjöldum. Slíks er dýrkeyptasta reynsla mannkynsins metin.

En þótt ég hafi ekki nema 15 mínútur til umráða, vil ég koma betur að því, hvernig þetta heimsauðvald hefur farið að því að tryggja völd sín undanfarna áratugi. Það er kunnugra en frá þurfi að segja, að eftir fyrri heimsstyrjöldina fengu Sovétríkin ekki frið til að byggja upp hjá sér. Þegar í stað réðust þýzkir og enskir herir inn í landið til að reyna að leggja Sovétríkin aftur undir auðvaldið. En þegar það tókst ekki, var farið að dæla ensku og amerísku fjármagni inn í Þýzkaland og þýzka heimsvaldastefnan var endurreist, en lokatakmark hennar var nazisminn, verkfæri heimsauðvaldsins. Meðan verið var að byggja upp nazismann, var íslenzka auðvaldið með á nótunum, og rætt var opinskátt um það í blöðum Sjálfstfl., að hér væru nokkrir menn með hreinar hugsanir, og fjölda þessara manna dreymdi um stjórnarform nazismans eins og blöðin frá þeim tíma eru til vitnis um. Jafnframt var sósíalisminn níddur á alla lund og logið um hann þindarlaust, og er það alkunnugt orðið t. d., að Morgunblaðið var búið að drepa alla Rússa tvisvar úr hungri. Reynt var að nota kreppuna og atvinnuleysið sem blygðunarlausast til að þjarma að alþýðu manna hér á landi, og þegar Ítalir réðust á Abessiníu og Spánn féll í fang nazismans, var fögnuður auðvaldsins hér mikill, og þá ekki siður þegar Þjóðverjar réðust á Austurríki og hluti af Tékkóslóvakíu var seldur í hendur þýzku nazistunum 1938 og nazisminn náði hámarki sínu í Evrópu. Þegar á þetta allt er litið, er alveg furðulegt, hvernig nokkur maður getur komið fram með endurteknar fullyrðingar um nauðsyn á stefnu gegn útþenslu Sovétríkjanna. Ég vil benda á, er þýzku og ensku herirnir réðust inn í Sovétríkin í lok heimsstyrjaldarinnar miklu, þá var það til þess að kúga alþýðuþjóðir þær, er byggja Eystrasaltslöndin, en þær þjóðir hafa nú brotizt undan okinu, og ég vil benda hæstv. menntmrh. og prófessornum á það, sem Halfdan Koht segir um þessi mál. Afleiðingin af öllu þessu var svo heimsstyrjöldin síðari. Það hafa verið margtuggðar blekkingarnar um griðasáttmála milli Þýzkalands og Rússlands. Sannleikurinn var sá, að auðvald Vestur-Evrópu hafði magnað upp draug, — íslenzk alþýða hefur löngum verið heppin með að eiga dæmi upp á viðburði lífsins, — sem það ætlaði að senda á hendur alþýðu Sovétríkjanna til þess að kúga hana til fulls, en hún sendi drauginn til baka og hann réðst á þann, sem hafði magnað hann í upphafi, og þannig snerist heimsstyrjöldin gegn þeim, sem hrundu henni af stað, og fór svo, að þeir þurftu að leggja mikið í sölurnar, bæði fé og annað, til þess að kveða niður þann draug, er þeir sjálfir höfðu vakið upp.

Ég vil þá með örfáum orðum minnast á, hvaða afleiðingar það hefur fyrir okkur, ef við göngum í þetta bandalag, — ef forseti leyfir. (Forseti: Tíminn er búinn.) Ég bið þá um orðið aftur í næstu umferð.