29.03.1949
Sameinað þing: 58. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 154 í D-deild Alþingistíðinda. (4422)

177. mál, þátttaka Íslands í Norður-Atlantshafssamningi

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Ég hef nú ekki blandað mér í þessar umræður síðan í morgun og ætla mér ekki að fjölyrða mikið um þetta mál. Ég gerði grein fyrir afstöðu minni í gær og svaraði fyrir fram því, sem komið hefur fram hér í dag. Það dylst engum, að ræða hv. 2. þm. Reykv. var eingöngu málþóf, og þar sem hann er snjallasti ræðumaðurinn af þeim flokksbræðrum, þá geta menn hugsað sér, hvað þeir hafa að segja, úr því að þetta var útkoman hjá þessum hv. þm. En þetta er ósköp eðlilegt. Þetta er utanaðlært. Það hefur verið gefin fyrirskipun til kommúnista allra landa um að flytja svona ræður, og það er gert, að vísu með svolítið breyttu orðalagi, en allt sama efnis og allt til geðs hinum erlendu húsbændum. Því fer svo fjarri, að kommúnistum hafi verið sýnt nokkurt ofbeldi hér, og eftir því sem frétzt hefur frá þingum annarra þjóða, þá hafa þeir hvergi fengið að tala eins lengi og einmitt hér. Þeir hafa því ekki undan neinu að kvarta. — Hitt er augljóst, að þegar íhuguð eru ummæli hv. þm. Siglf., þegar hann sagði, að nú væru hin vestrænu ríki að reyna að mynda um sig hernaðarblokk, — þá er augljóst, af hve miklum heilindum þetta er sagt. Veit þessi hv. þm. ekki, að það eru einmitt austurveldin, sem hafa byrjað þann leik, ekki aðeins með því, að þau hafa myndað með sér bandalög, heldur innlimað heil ríki og traðkað á sjálfstæði þeirra? Sú lýsing, sem þessi hv. þm. gaf á því, þegar lýðræðið er fótum troðið, nær aðeins til eins flokks í austrinu, en á ekkert skylt við frjáls samtök. Það átti ekkert skylt við frjáls samtök, þegar Rússar innlimuðu Pólland og baltísku ríkin og mörg önnur, sem of langt yrði upp að telja. Það stendur á sama, hvað þessir menn reyna að þæfa mikið. Allir fulltíða Íslendingar vita, hvað vakir fyrir þessum mönnum, sem vilja að Ísland sé opið og óvarið og hafi enga tryggingu, ef árásarríki vildi gleypa landið og nota það sem rýting í bak lýðræðisþjóðanna. Þeir menn, sem svona hugsa og svona tala, eru ekki annað en verkfæri í höndum þess valds, sem allir góðir Íslendingar vilja forða Íslandi frá. Fyrir þennan áróður er þeim haldið uppi erlendis frá, og er ekki nema von, að þeir vilji nú nota tækifærið og vinna fyrir launum sínum, þegar mál sem þetta er hér til umr. Það er þess vegna, sem þeir vilja, að landið sé öryggislaust gagnvart árás herveldis. Hvaða öryggi var það, sem þessir menn höfðu í huga, þegar hv. þm. Siglf. vildi láta stækka Reykjavíkurflugvöll og halda þeim eina flugvelli í starfrækslu hér sunnanlands? Hvað hafði hv. þm. þá í huga gagnvart Reykvíkingum, ef til nýrrar styrjaldar kæmi? Það er þessi sama stefna, sem þessir aftaníossar hafa nú í þessu máli. Þá hafði þessi þm. og flokksmenn hans ekki meiri áhyggjur út af Reykvíkingum en það, að þeir vildu eiga á hættu, að helmingur þjóðarinnar biði bana, ef til loftárásar hefði komið á flugvöllinn. Slík eru Lokaráð þessara manna. Að öðru leyti skal ég ekki elta ólar við þessa menn. Þeir eru hér aðeins sem fjósamenn, sem hlýða fyrirskipunum herra síns í austri.

Ég er ekki sammála hv. 3. landsk.hv. 4. þm. Reykv. Þeir hafa lýst því yfir, að þeir hafi litla ást á mínum flokki, og það vakir að vissuleyti annað fyrir þeim í þessu máli, en kommúnistunum, og er því hægt að tala við þá sem Íslendinga. Varðandi þær spurningar, sem þessir tveir þm. hafa beint til mín út af samningi þessum, þá tel ég hann vera fullnægjandi tryggingu fyrir Íslendinga, eins og hann nú liggur fyrir. Þeir héldu því einnig fram, að ef þessi samningur næði samþykki þingsins, þá yrði Keflavíkursamningurinn að gilda áfram. Þó að ég líti nú nokkuð öðrum augum á það en þeir, þá tel ég, að samningsgerð sem þessi muni greiða fyrir skipun þeirra mála í þá átt, sem fyrir þeim vakir, hv. 3. landsk. og 4. þm. Reykv. Ef það er þeim keppikefli, þá ætti það að geta leitt af sér, að hægt yrði að mynda þau samtök hér innanlands, að skipun flugvallarins í Keflavík verði svipuð því, sem þeir óska, og þeir ættu þá að keppa að því, að slíkt gæti orðið svo fljótt sem auðið er. Að öðru leyti er það út af fyrirspurn frá hv. 3. landsk. þm. Hann spurði, hvort Íslendingar þyrftu ekki að lýsa ófriði á hendur öðrum ríkjum, ef önnur ríki, sem stæðu að þessum samningi, gerðu það. Tvímælalaust þyrftu Íslendingar ekki að gera það. Slíkt felst hvergi í þessu samningsuppkasti, og tók ég það fram, eins og ég hef margoft áður tekið fram, er ég ræddi samninginn í Washington ásamt tveim öðrum ráðh., er fóru sömu erinda vestur um haf. Slíkt mun enn verða tekið fram, þegar samningurinn verður undirritaður. Ísland sem herlaus þjóð getur ekki breytt afstöðu sinni hvað það snertir. Íslendingar hljóta ávallt að halda fast í þennan móralska rétt sinn, og Íslendingar munu einskis óska fremur en halda friði við allar þjóðir. Það breytir engu, þó að Ísland geti ákveðið sjálft, hvort það vilji lýsa yfir styrjöld við annað ríki. Íslendingar vildu heldur ekki slíkt, þegar hv. þm. Siglf. vildi knýja það í gegnum þingið á sínum tíma að segja tveim stórveldum stríð á hendur, eftir að þau voru knésett í síðustu heimsstyrjöld. Þetta vita allir þm., að kommúnistar hér á Alþingi fóru fram á þetta. Íslendingar hafa sama rétt og önnur ríki að segja öðrum þjóðum stríð á hendur. Íslenzka ríkið gæti strax í dag sagt Bandaríkjunum stríð á hendur, eins og þm. Siglf. vildi, að við gerðum við möndulveldin fyrir 3½ ári síðan. En Íslendingar eru ekki og munu vonandi aldrei verða hernaðarþjóð.

Þá spurði hv. þm., hvort Íslendingar mundu verða skyldaðir til að leggja fé af mörkum í hernaðarrekstur, ef styrjöld skylli á. Þessu get ég svarað þannig, að Íslendingar munu ekki þurfa að leggja meira af mörkum en þeim sjálfum þóknast. Þegar til ófriðar kemur, eru sumir menn á stríðsvöllunum, en aðrir eru heima fyrir og vinna að framleiðslunni. Í síðustu styrjöld, þegar fiskiskip okkar sigldu með afla sinn til Englands, kom framleiðsla sú, sem við lögðum af mörkum til þeirra, í góðar þarfir. Hitt er svo matsatriði, hvað Íslendingar sjálfir mundu telja eðlilegt. Það fer að sjálfsögðu eftir því, að hve miklu leyti deilan mundi snerta okkur efnahagslega eða stjórnmálalega, ef upp kæmi. Ég skildi nú ekki alveg rök hv. þm., en sanngirni með hliðsjón af sérstöðu landsins mun ávallt segja til sín.