29.03.1949
Sameinað þing: 58. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 161 í D-deild Alþingistíðinda. (4426)

177. mál, þátttaka Íslands í Norður-Atlantshafssamningi

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Það gladdi mig mikið að verða þess var, að þegar ég hafði nokkrum sinnum auglýst eftir hæstv. utanrrh., þá kom hann þó í leitirnar. Mér finnst fara miklu betur á því, að hæstv. utanrrh. leggi það á sig að vera viðstaddur slíkar umr. sem þessar. Þó að hann hafi ýmsum hnöppum að hneppa, finnst mér, að þetta þurfi að sitja fyrir. Síðan auglýsingin kom út hafa hér oftast verið fjórir ráðh. inni, og þannig ætti það að vera. Reyndar er ekki hægt að segja, að þetta sé vel við unandi, nema þeir séu allir hér inni, og helzt að þeir snúi að okkur framhliðinni.

Hæstv. utanrrh. var líka svo lítillátur, þegar hann kom, að svara þeirri fyrirspurn, sem ég hafði borið fram við auðan ráðherrastólinn. Svar hans var á þá lund, að ef krafa kæmi um fjárhagslegt framlag af okkar hendi og allar aðrar bandalagsþjóðirnar hefðu farið í stríð, þá gætum við treyst því, að við yrðum ekki skyldaðir til að leggja fram meira en okkur þóknaðist. Sjálfdæmi líka þar!! Skyldur okkar verða ekki ríkari, en sanngjarnt er í hvert sinn, segir hæstv. ráðh. Ég þykist vita það, að hæstv. utanrrh. gangi út frá því, að þetta verði svona, en ekkert hef ég heyrt um það í þeim lauslegu frásögnum, sem ráðh. míns flokks gaf þm. Alþfl., að hæstv. Dean Acheson utanrrh. hafi gefið svör við þessu, að efnislega og fjárhagslega yrði ekkert af Íslendingum heimtað nema það, sem sanngjarnt væri hverju sinni. Mér finnst því þetta svar nokkuð laust og loðið hjá hæstv. ráðh., og ég get ekki séð, að af því komi í ljós, undir þeim kringumstæðum, sem ég lýsti áðan, að það yrði tryggt, að af Íslandi yrði ekki heimtað sem hernaðaraðila, að það legði fram „öll efni sín, hernaðarlega og fjárhagslega“. Og mér þykir það undarlegt, ef það þætti ekki vel sloppið hjá þeirri þjóð, þegar sagt væri: Það er staðið við allar skuldbindingar, sem ráðh. hefur gefið; þið þurfið ekki að stofna her, ekki að senda her úr landinu, ekki að lögleiða herskyldu og ekki að segja neinni þjóð stríð á hendur, nema með því að leggja fram öll efni ykkar, hernaðarleg og fjárhagsleg. Mér þykir það furðulegt, að hæstv. utanrrh. skyldi ekki spyrja utanrrh. Bandaríkjanna beint um það, hvort hernaðaraðstoðar okkar yrði ekki krafizt í sama formi og gert var 1945. En það var, eins og ég las upp, að Íslandi skyldi skylt að skuldbinda sig til að leggja fram öll efni sín, hernaðarleg og fjárhagsleg. Það, sem ég spurði um, var það, hvort Íslendingar þyrftu að leggja fram öll efni sín, hernaðarlega og fjárhagslega, en því var ekki svarað. Mér virtist túlkun hæstv. ráðh. á samningnum og svör þeirra benda til þess, að þeir segi: Það er bókstaflega einskis krafizt. Þið getið bæði fyrst og síðast ákveðið sjálfir, hvað þið viljið gera. En þá er þessi samningur lítilsvert plagg. Ég verð að segja það, að ég trúi því ekki, að samningurinn sé svona auðvirðulegt plagg eins og af er látið. Mér er kunnugt um það, að þegar Dean Acheson lagði samninginn fram í Bandaríkjunum, þótti hann í því formi, sem hann þá var í, leggja allt of ákveðnar skuldbindingar á Bandaríkin, og senatorarnir, hver á fætur öðrum, mótmæltu því, að samningurinn mætti vera í svo ákveðnu og föstu formi. Ég hef hér úrklippur úr New York Times. Þar segir, að ekki megi hafa svo ákveðnar skuldbindingar í samningnum, að hægt sé að hanka Bandaríkin með automatískri skyldu til að fara í stríð, ef einhverjar af bandalagsþjóðunum yrðu fyrir árás. Þeir sögðu: Það verður að vera óljóst og á valdi Bandaríkjanna, hvernig þau veita aðstoðina. –Nú er búið að umbreyta formi samningsins, svo að ekki sé hægt að skylda Bandaríkin til neins. Nú geta þau sagt til um það sjálf í hvert skipti, hvernig þau taka þátt í slíkum aðgerðum, og þess vegna er nú hægt að segja við okkur: Það er engin skuldbinding á hendur Íslandi í samningnum. Hann er orðinn eins mjúkur og fjöturinn „læðingur“, sem getið er um í forn íslenzkum bókmenntum. En sá fjötur var þess eðlis, að hann var óslítandi. Þessi sáttmáli getur verið sama eðlis, og það óttast ég. Ef það væri rétt, að á Ísland falli engar skuldbindingar nema það, sem Ísland óskar og kýs, þá vildi ég spyrja: Er samningurinn svo mjúkur og svo laus við skuldbindingar, að landið geti haldið hlutleysi sínu þrátt fyrir aðild að samningnum? Ísland hefur lagt mikið upp úr hlutleysisyfirlýsingu sinni frá 1. des. 1918. Alltaf þegar slík mál hafa komið til umr. á Alþ., hafa þm. lagt mikið upp úr því, að ekki væri vikið frá hlutleysisyfirlýsingu Íslands. Þegar herverndarsamningurinn var gerður 1941, var rætt um það hér á Alþ., hvort ekki væri horfið frá hlutleysisstefnunni með aðild að samningnum. Hver þm. af öðrum vildi láta það varða úrslitum um fylgi sitt við samninginn, ef hann kostaði afnám hlutleysisins. Þáverandi þm. V-Sk., núverandi sendiherra Íslendinga í Ósló, talaði mjög rækilega um þetta. Hann sagði m. a., með leyfi hæstv. forseta: „Okkar staða, Íslendinga, er hlutleysisafstaðan, og æskilegasta vörnin fyrir Íslendinga er sú að hafa engar varnir, og það er trú sumra, að varnarleysið hafi hjálpað okkur lengst og bezt.“ „Þingmenn allir, ríkisstjórnin og íslenzka þjóðin vilja halda í efni hlutleysisins,“ segir hann einnig, og enn fremur: „Ég gat þess, að afstaðan er mörkuð hjá Íslandi, og hún er hlutleysisafstaða. Þeim skilningi verðum við að halda til streitu, að við séum ekki horfnir af grundvelli hlutleysisins.“ Og enn segir hann: „Ég býst við því, að hæstv. ríkisstj. geti fallizt á þessa röksemdaleiðslu, sem ég hef gefið hér til kynna, og að það sé hennar ætlun, að við séum hlutlausir framvegis, tökum ekki afstöðu með eða móti neinum.“

Ólafur Thors var þá utanrrh. Íslands. Hann sagði í ræðu sinni, og svaraði þá þeim, sem töldu, að við yrðum að fórna hlutleysinu: „Ég neita því, að með þessu hafi Ísland brotið í bága við yfirlýsta stefnu um ævarandi hlutleysi.“ Þetta sagði hv. þm. G-K. þá, en nú hefur þessi hv. þm. hvað eftir annað talað um, að við værum fyrir löngu gengnir frá hlutleysisstefnunni. Þegar verið var að taka ákvörðun um það sumarið 1946, að við skyldum ganga í Sameinuðu þjóðirnar, var sagt: Við tökum ekki á okkur neinar hernaðarlegar skuldbindingar með því að ganga í Sameinuðu þjóðirnar. — Nú er sagt, að það sé rangnefni að kalla Atlantshafsbandalagið hernaðarbandalag, og það er ekki nóg að kalla það varnarbandalag, því að eiginlega sé það friðarbandalag. Og eins og þá var vitnað um frið og friðarvilja, er nú vitnað í ákaflega mjúkt orðalag um frið og friðarviðleitni. Það var vitnað í sáttmála hinna Sameinuðu þjóða, en þar stendur, með leyfi hæstv. forseta:

„Vér, hinar sameinuðu þjóðir, staðráðnir í að bjarga komandi kynslóðum undan hörmungum ófriðar, sem tvisvar á ævi vorri hefur leitt ósegjanlegar þjáningar yfir mannkynið .... Og ætlum í þessu skyni að sýna umburðarlyndi og lifa saman, svo sem góðum nágrönnum sæmir .... Að tryggja það, að vopnavaldi skuli eigi beita, nema í þágu sameiginlegra hagsmuna.“ Og enn fremur segir þar: „Að allir meðlimir skuli leysa milliríkjadeilur sínar á friðsamlegan hátt, þannig að heimsfriði, öryggi og réttvísi sé ekki í hættu stofnað.“ Ef þess vegna engar þjóðir nema þær, sem friðsamar eru, verða í Bandalagi hinna sameinuðu þjóða, þá ættum við að vera í góðum félagsskap. Þá ætti ekki að vera mikil hernaðarhætta og okkur ætti ekki að vera betur borgið, þó að við göngum í annað bandalag.

Hvað heyrðum við í gær? Hæstv. ráðh. sagði, að Bandalag sameinuðu þjóðanna væri ekki friðarbandalag, en að það væri Atlantshafsbandalagið, sem væri friðarbandalag, og að við hefðum verið í hernaðarbandalagi frá 1946. Sumarið 1946 hömruðu hv. þm. á því, að Bandalag sameinuðu þjóðanna væri friðarbandalag, en nú segja þeir, að það sé hernaðarbandalag, en nú eigum við aftur að ganga í friðarbandalag. Í þessu er ákaflega mikið ósamræmi. Hvort var skrökvað að þjóðinni 1946 eða nú? Ég furða mig á þessu ósamræmi og harma, að það skuli koma fram hjá okkar ábyrgu forustumönnum í stjórnmálum.

Hv. þm. G-K. taldi, að við hefðum allt að vinna með því að gerast aðilar að herverndarsamningnum 1941. Hann taldi, að Íslendingar tryggðu með því sjálfstæði sitt, atvinnulíf og fjárhagsafkomu sína og að þeir tryggðu sér öryggi. Þegar hv. þáverandi þm. V-Sk. heyrði þetta, vítti hann það, að nokkur þm. skyldi láta eins og við hefðum himin höndum tekið með því að gerast aðilar að hernaðarbandalagi. Hvað heyrðum við í útvarpinu í gærkvöld? Sama lofsöng hv. þm. G-K. um, að við hefðum nú himin höndum tekið, ef við gerðumst aðilar þessa bandalags. Hv. þm. taldi upp sjö atriði, sem hann taldi því til gildis, og mér skildist, að við mundum komast upp í sjöunda himininn, ef við gengjum í þetta bandalag. Vafalaust heitir þetta bandalag hernaðarbandalag eftir 4–5 ár, eins og bandalag sameinuðu þjóðanna heitir það nú.

Ég spyr nú hæstv. ráðh. um það, hvort þeir telji, að Ísland þurfi að vilja algerlega út af hlutleysisafstöðu sinni, ef það gerist aðili að þessum sáttmála. Ég get ekki að því gert, að ég óttast, að þetta bandalag leiði ekki til friðar. Það er að vísu til gömul rómversk kenning, sem er á þá lund, að þeir, sem vilji frið, skuli framleiða vopn. Reynslan hefur þó orðið sú, að sá, sem framleiðir vopn, hyggur á stríð og fer í stríð. Vígbúnaðarkapphlaup leiðir til styrjalda, en ekki til friðar. Það er hervæðzt, eins og aldrei fyrr í veröldinni, af tveimur stórveldum, sem bókstaflega búa sig undir að eigast við. Við höfum heyrt það, að flestar þær þjóðir, sem hafa átt þess kost að gerast aðilar Atlantshafsbandalagsins og eru hernaðarþjóðir, þær hafa spurt: Hve mikið fáum við af vopnum frá Bandaríkjunum? Danir og Norðmenn hafa spurt um þetta, og aðalskilyrðið af þeirra hendi viðvíkjandi þátttöku í bandalaginu er um það, hvort þeir fái nógu mikið af vopnum eða ekki. Ég hef það fyrir satt, að fyrsta vopnasending Bandaríkjanna til Evrópu muni vera upp á 2 þús. millj. dollara. Mér finnst þetta því miður ekki benda til friðar. Ef til vill verður því svarað til, að þegar annar aðilinn vopnast, verði hinn að gera það líka. En þegar báðir eru búnir að vopnast nægilega, og þegar eitthvert tilefni gefst, sem hvorugur kannske getur að gert, verður vopnunum beitt. Það er því afskaplega örlagaríkt skref hjá öllum þjóðum, sem gerast aðilar að þessu bandalagi, en það er sérstaklega örlagaríkt skref fyrir þjóð, sem engin vopn á og engin vopnin vill og æskir ekki eftir að hafa her né að fara í stríð eða taka á sig nokkrar hernaðarlegar skuldbindingar og óskar hvorki að leggja fram fjárhagsleg né hernaðarleg efni sín. Það er engin þjóð í veröldinni, sem á eins mikið í húfi og hin vopnlausa, fámenna íslenzka þjóð með því að gerast aðili að hernaðarsamtökum stórveldanna. Ég segi því, eins og þm. V-Sk. sagði 1941. Ég held, að ef þess er nokkur kostur, þá sé bezt fyrir Ísland að halda hlutleysi sínu og að fá að vera í friði fyrir stórveldunum, þegar þau eru að búa sig undir stríð, og þó allra helzt, þegar þau eru farin út í stríð.