29.03.1949
Sameinað þing: 58. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 169 í D-deild Alþingistíðinda. (4428)

177. mál, þátttaka Íslands í Norður-Atlantshafssamningi

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Hv. þm. Siglf. hefur talað mikið um það, hvað vaki fyrir Bandaríkjamönnum með þessum samningi, en hann hefur ekki, talað um, hvað vaki fyrir honum sjálfum. Það, sem fyrir honum vakir, er að haga þannig málum, að einræðis- og árásarríki geti hellt sér yfir Ísland, geti gert það við landsfólkið, sem einræðisherrum er títt að gera við lýðræðisþjóðir, og nota landið síðan sem rýting í bak öðrum lýðræðisþjóðum. Þetta vakir fyrir honum. Það er þessi þokkalegi tilgangur, sem hann og hans flokkur hefur átt að vinna að og haldið uppi til þess árum saman af erlendu ríki með ærnum tilkostnaði. Um þennan tilgang má segja það sama og þessi hv. þm. sagði, að hann verður dæmdur eftir verkunum. Honum tjáir ekki fjas og orðaflaumur, það eru verkin, sem sýna, hvað fyrir honum vakir. Þá stoðar mælgi hans ekki neitt. Verkin sýna, hvers verkfæri hann er.

Hv. þm. Siglf. sagði, að hæstv. forsrh. hefði sagt ósatt um aðdraganda þess, að við fórum vestur. Sannleikurinn er sá, að af Íslands hálfu var stungið upp á því 12. jan., og það var 9. marz, sem Bandaríkjastjórn sagði, að nú væru þeir reiðubúnir til þessara umr., og þá yfirlýsingu tókum við til greina og ákváðum að fara vestur, vegna þess að þó að það væri rétt, að ólíklegt væri, að Acheson kæmi til Íslands, þá var auðvitað hægt að fá einhvern annan fulltrúa Bandaríkjastjórnar hingað. Við töldum því rétt að fara vestur og tala við þá sömu aðila og fulltrúar frá frændþjóðum okkar höfðu talað við um þetta mál. Allt, sem hæstv. forsrh. sagði um þetta atriði, er rétt, eins og það er einnig rétt, sem hann sagði, að 14. marz s. l. hafði íslenzka ríkisstj. ekki í höndum og vissi ekki nákvæmlega um orðalag og efni þessa samnings. Það vissum við ekki, og þess vegna gat hæstv. forsrh. ekki á þeim tíma skýrt þingheimi frá því, sem hann hafði ekki vitneskju um. Ég veit, að hv. þm. Siglf. hefði tekið sig til og sagt reiðinnar ósköp, eins og þegar hann sagði, að hefði verið búið að selja uppskipunarmanninum allar afurðir Íslendinga. Hann er ekki af sama sauðahúsi og venjulegir menn, að binda sig við staðreyndir og sannleika, heldur eigið hugarflug og hvað bezt hentar í þann og þann svipinn þeim erlendu hagsmunum, sem hann fær kaup sitt fyrir að vinna að. Að öðru leyti nenni ég ekki að eltast við skvaldur þessa hv. þm. Það var augljóst, af hverju hann talaði eins og hann talaði.

Út af orðum hv. 3. landsk. vil ég taka fram, að hann ásakaði okkur fyrir, að við hefðum ekki spurt um það berum orðum, hvert fjárhagslegt framlag Ísland yrði að inna af höndum samkvæmt þessum samningi og hvaða skyldur það þyrfti að inna af hendi. Það er óþarfi að spyrja frekar um það, því að við höfum fengið við því ótvíræð svör, að við yrðum ekki skyldaðir til að gera meira, en við sjálfir teldum sanngjarnt, í góðri trú að gera á þeim tíma, þegar á reyndi, þannig að við erum ekki með nokkru móti skyldaðir til að inna fjárgreiðslur af hendi eða annað slíkt frekar en við sjálfir samþ. á þeim tíma, þannig að engin skuldbinding er lögð á okkur í þessu efni.

Hv. þm. sagði, að ef ekki einu sinni þetta fælist í samningnum, fyndist sér hann lítils virði. Það hefur verið skýrt tekið fram, um hvað samningurinn fjallar, hvað varðar Ísland fyrst og fremst. Við höfum ekki dregið dul á það. Við höfum sagt, að þau ríki, sem standa að þessu bandalagi, muni fara fram á svipaða aðstöðu á Íslandi, ef svo hörmulega tækist til, að ný styrjöld brytist út, eins og vesturveldin höfðu í síðasta stríði. Það er þetta, sem er líklegt, að verði okkar framlag, að veita svipaða aðstöðu eins og síðast var gert. Frá þessu hefur verið skýrt ótvírætt. Og þegar það er viðurkennt af öllum, jafnvel kommúnistum, að það sé áreiðanlegt og óvefengjanlegt, að Ísland muni dragast inn í styrjöldina, ef hún brýzt út, þá teljum við frá Íslands sjónarmiði, að það sé augljóst, að hagkvæmara sé að gera þennan samning við lýðræðisríkin fyrir fram heldur en að hafa allt í óvissu og vita, að það verður kapphlaup um landið og halda þannig á málinu, eins og hv. þm. Siglf. og félagsbræður hans vilja, að möguleikar eða líkur skapist til þess, að árásar- og einræðisríki geti hremmt landið. Við teljum, að samningsgerðin skapi beinar og óbeinar mjög miklar líkur til þess að koma í veg fyrir þetta. Fulla vissu er ekki hægt að skapa í þessu frekar en öðrum mannlegum efnum, en það er enginn vafi, að miklar líkur skapast í þessu efni.

Þessi hv. þm. spurði mig síðan, hvort þetta væri þá svo, að hlutleysi okkar gæti haldizt þrátt fyrir það að þessi samningur verður gerður. Ég tel, að ef til ófriðar kemur, þá mundum við ekki geta haldið okkar hlutleysi, ef við stöndum við okkar framlag samkvæmt samningnum. Þetta er ótvírætt mín skoðun, eins og það er ótvírætt mín skoðun, að eftir að Bandaríkin lentu í stríðinu 1944, þá höfum við, af því að við sögðum ekki upp herverndarsamningnum, afsalað okkur hlutleysi í þeirri styrjöld. Það er eitt meginatriðið í þessu efni, að hlutleysið hefur reynzt okkur alveg gagnslaust, og því tjáir ekki á nokkurn hátt að byggja okkar pólitík á því.

Hv. þm. vitnaði í fögur ummæli þáverandi þm., Gísla Sveinssonar, um þetta efni. Ég hélt, að sá góði heiðursmaður og ýmsir aðrir hafi lært af þeim atburðum, sem síðan hafa gerzt, að hlutleysið er gagnslaust. Það er áreiðanlegt, ef orð þessa heiðursmanns eru sú biblía, sem hv. 3. landsk. vill fara eftir, þá mundi hann verða mér sammála nú, ef hann mætti þekkja núverandi skoðun þessa heiðursmanns, sem hann vitnar svo mikið í. Það er kannske vegna þess, að reynsla þessa manns er meiri en hv. 3. landsk. í þessu efni, að það skuli þurfa nýjar skelfingar til þess að hv. 3. landsk. læri það, sem þáverandi þm., Gísli Sveinsson og ég og ýmsir aðrir, erum þegar búnir að læra. En ég efast ekki um, að hv. 3. landsk. út af fyrir sig geti lært af því, sem við vitum. Hann lítur á málið frá íslenzku sjónarmiði, þó að ég telji hann ekki hafa rétt fyrir sér. Hv. þm. Siglf. og hv. 2. þm. Reykv. líta aftur á móti á málið eingöngu frá erlendu sjónarmiði. Mig flökrar við því, þegar hv. þm. Siglf. og hans félagar eru að tala um ágæti hlutleysisins, þegar þessi hv. þm. lagði beina fæð á mig fyrir það, að ég hefði komið í veg fyrir, að Ísland segði Þýzkalandi og Japan stríð á hendur árið 1945. Þetta man hann, ef hann vill. En ég efast ekki um, að hann neitar því, hann getur ekki satt orð talað, því að hann hefur andstyggð á sannleikanum í opinberu lífi. Og svo er þessi þm., sem hefur barizt ólmur og gengið fram af sér og heimtað, að við færum í stríð við þjóðir, sem að vísu voru komnar að fótum fram, að ásaka okkur, að við séum að bregðast hlutleysinu. Ef nokkur stríðsæsingamaður er til í landinu, þá er það hv. þm. Siglf. og hv. 2. þm. Reykv. og hv. landsk. þm., Brynjólfur Bjarnason. Þeir gerðu allt, sem þeir gátu, til að knýja Ísland út í stríð, og það munaði litlu, að sú stjórnarsamvinna, sem þá var, slitnaði, af því að menn létu ekki undan ofsa þeirra í þessu máli. Og eitt er víst, að þeir hafa aldrei fyrirgefið mér, að ég stóð á móti þeirra áformum, enda undrar mig það ekki, því að það, sem vakti fyrir þeim með þeirri stríðsyfirlýsingu, var að geta komið því áformi sínu í framkvæmd að láta einræðisríki fá herstöðvar á Íslandi.