29.03.1949
Sameinað þing: 58. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 174 í D-deild Alþingistíðinda. (4430)

177. mál, þátttaka Íslands í Norður-Atlantshafssamningi

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég hefði eiginlega búizt við því, að hér yrði a. m. k. matarhlé í kvöld og mönnum gæfist tóm til að ræða þetta mikla mál. Ég hafði ekki búizt við að taka hér til máls strax, en þykir sýnt, að halda eigi áfram eins og til er efnt í upphafi. Það á sem sé að svelta menn inni við þessa umr. Svo er hverjum þm. boðið upp á 15 mínútur til þess að ræða þetta mikla mál, og er sýnilegt, að ekki er hægt að ræða efni þess mikið á svo skömmum tíma, og það sízt þegar allur aðdragandi þessa máls er eins og hann er hér. Það hefur komið fram í þessum umr., að undanfarið hafa hæstv. ráðh. forðazt eins og þeir hafa getað að gefa þm. kost á því að fá upplýsingar um gang þessa máls. Þeir hafa hér á Alþ. gefið um það algerlega rangar og villandi upplýsingar, hvernig málinu væri komið, og þannig hefur þessu verið haldið leyndu fyrir þm. í langan tíma. Svo loks þegar ríkisstj. er búin að kokka málið í leynd langan tíma, bregður hún skyndilega við og gerir það, sem er algert einsdæmi. Hún gefur sem sé tilkynningu um það með 6 eða 7 klukkutíma fyrirvara, að hún vilji hafa útvarpsumræður um þetta mál, — mál, sem þm. hafa ekki getað fengið neinar upplýsingar um hjá ríkisstj. og hún á undanförnum dögum hefur ekkert viljað segja um né gefa upplýsingar um á Alþ. En á sama tíma hefur ríkisstj. skotið sér undan því að láta fara fram eðlilegar umr. um vantrauststill„ sem legið hefur lengi fyrir þinginu. Nú, það tókst svo að forminu til að láta þær útvarpsumr. verða að nafninu til um vantrauststill. En ríkisstj. öll brást þannig í málinu, að hún tók þann kost að ræða ekki vantrauststill., þó að hún væri til umr., heldur ræddi hún þetta mál, sem þannig hafði verið undirbúið og kastað svona fyrir þingið.

Nú er því haldið að Alþ. og allri þjóðinni, að hér sé um að ræða hið ágætasta mál, hér sé um það að ræða að bjóða íslenzku þjóðinni að gerast aðili að víðtækum friðarsamningi, friðarbandalagi, og það túlkað á þá lund, að þetta sé í framtíðinni íslenzku þjóðinni alveg ómissandi. Ef nú svo væri sem látið er, hvernig stendur þá á því, að pukrast þarf með málið og leyna þjóðina því, sem á að gera í málinu, og hvers vegna má þá ekki hafa eðlilegan fyrirvara um umr. um málið, sem venja hefur verið til um önnur mál? Og þegar svo málið er tekið fyrir á Alþingi, eru umr. mjög fljótlega skornar niður í 15 mínútur á hvern þm., og má ekki gefa matar- né kaffihlé, heldur eru hér á allan hátt gerðar tilraunir til þess að komast hjá umr. Og hvernig stendur þá á því, að ríkisstj., ef hún tryði því, að hér væri um svona gott mál að ræða, hefur ekki kjark til þess að mæta á mannamótum víðs vegar um landið, þar sem menn hafa verið að ræða þessi mál og séð hættuna, sem Íslandi mundi stafa af því að ganga í slíkt bandalag? Hvernig stendur á því, að ríkisstj. hefur ekki komið þar neitt nærri? Nei, það vita vitanlega allir menn, að þegar svona vinnubrögð eru höfð í frammi, er óhreint mjöl í pokahorninu. Það vita allir Íslendingar, að svipað var farið að með Keflavíkursamninginn forðum. Þá var því haldið að íslenzku þjóðinni, að þetta væri dáindis plagg, bráðnauðsynlegur samningur, ekki fyrir Bandaríkin, heldur eingöngu fyrir Ísland. Þá var sagt, að þarna ættu Íslendingar öllu að ráða, þarna ættu að vera aðeins örfáir Bandaríkjamenn, en þeir yrðu að hlíta íslenzkri lögsögu og íslenzkum lögum í hvívetna. Vitanlega vissi íslenzka þjóðin, að það var ekki hún, sem hafði óskað eftir þessum Keflavíkursamningi. Það voru Bandaríkjamenn, sem óskuðu eftir herstöðvum í landi okkar, og var þá farin sú leið að reyna að lokka þjóðina með fögrum yfirlýsingum og loforðum, sem allir vita, hvernig hafa orðið í framkvæmd. Og nú á enn að fara svipað að og áður. Hér eru gefnar yfirlýsingar um það, að þetta sé hið ágætasta mál fyrir Íslendinga og að eina leiðin til þess að tryggja frið á næstu árum sé, að Íslendingar gangi í þetta bandalag, þetta friðarbandalag, þetta fóstbræðralag, eins og menn hafa verið að nefna það hér.

Það er líka fróðlegt að gera sér grein fyrir, hvers konar fát og pat hefur yfirleitt verið á ríkisstj. landsins í sambandi við þetta mál. Hún hefur vitanlega ekki mátt vera að því að sinna innanlandsmálunum. Þó að allt atvinnulíf landsmanna sé að fara í rúst og togararnir hafi verið bundnir við hafnargarðinn í 1½ mánuð, hefur ríkisstj. ekki mátt vera að því að sinna því neitt. Hún hefur haft öðrum verkum að sinna, hún hefur staðið í sínum stórræðum og verið að vinna að hinum stóru málum, sem hún þurfti að leyna þjóðina og neita að gefa upplýsingar um á Alþingi, og nú á að afgreiða þetta stórmál í skyndi á óvenjulegan hátt á Alþingi, umræðulaust og með fölskum yfirlýsingum eins og áður, þegar slík mál hafa legið hér fyrir.

Því er neitað af forsvarsmönnum þessa máls, að Bandaríkin séu að leita hér eftir aðstöðu til þess að geta rekið þá styrjöld, sem margir halda fram, að Bandaríkin hafi í huga gegn ákveðnu stórveldi. Þessu er neitað, en neitunin er nú ekki rökstudd mikið, heldur aðeins slegið fram, að Bandaríkin séu friðelskandi lýðræðisþjóð, sem bara vilji verja sig. Dettur nokkrum manni í hug, að Bandaríkjamenn séu með stórkostlega hernaðaraðstöðu í Tyrklandi, á landamærum Rússlands, til þess að verja Bandaríkin fyrir árás frá Sovét-Rússlandi? Heldur nokkur lifandi maður, að sú aðstaða, sem Bandaríkjamenn skapa sér á Balkanskaga og í Grikklandi, sé til þess gerð, að Bandaríkin fái betri aðstöðu til þess að verja land sitt fyrir árás frá Sovétríkjunum? Nei, svona dæmi eru aðeins dæmi um það, sem menn vita fyrir löngu, að Bandaríkin hafa verið að reyna að undirbúa víða um heim þannig aðstöðu fyrir sig, að þau gætu háð sína árásarstyrjöld á Austur-Evrópu með árangri fyrir sig, og einn liðurinn í þessari áætlun Bandaríkjanna er einmitt sá að krefjast herstöðva á Íslandi. Þess vegna fóru þau fram á að fá herstöðvar á Keflavíkurflugvelli og í Hvalfirði til 99 ára. Þegar það tókst ekki, knúðu þau í gegn Keflavíkursamninginn, og nú á að fullkomna það með þeim samningi, sem nú á að gera af ríkisstj. Það er eðlilegt, þegar málið liggur svona fyrir, að pukrazt sé með það og neitað að gefa íslenzku þjóðinni kost á að segja sitt álit um málið með almennri atkvæðagreiðslu. Nú er það ekki talið viðeigandi að láta fara fram atkvæðagreiðslu í landinu. Auðvitað eigum við Íslendingar að gera það upp við okkur, hvernig framtíðarhag okkar er bezt borgið, hvort við eigum að sogast inn í deilur stórveldanna, hvort við eigum að leigja land okkar sem herstöð fyrir eitt af herveldum heimsins og taka á okkur þá áhættu, sem slíku jafnan fylgir. Það er líka fyrirsjáanlegt, að íslenzka þjóðin er að miklum meiri hluta andvíg þátttöku í því bandalagi, sem hér um ræðir. Og ein ástæðan til þess, að svona vinnubrögð eru viðhöfð, er sú, að það á að koma þessu gegnum þingið á þennan hátt og neita þjóðinni um tækifæri til þess að segja sitt álit á málinu.

Ég vildi nú að lokum spyrja forseta um það, hvort það sé virkilega tilfellið, að nú í kvöld eigi þetta mál að fara til 2. umr., og hvort ekki á að gefa okkur þm. kost á að ræða það við 2. umr. á eðlilegan hátt, eða hvort hér á að beita sömu bolabrögðum áfram og neita að láta þetta mál fara til þeirrar n. til athugunar, sem á að fjalla um svona mál, og hvort hér á að setja á annan fund og síðari umr, í skyndi og reyna að koma þessu hér fram í nótt, framkvæma þetta næturverk, eða hvort forseti vill lýsa yfir því, að málið skuli fara til n., fá þar eðlilega afgreiðslu og fara síðan til 2. umr. á morgun. Ég vil gjarna fá skýr svör við þessu, því að eftir því hlýtur vitanlega ræðutími manna að fara við þessa umr.