03.02.1949
Neðri deild: 57. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 295 í B-deild Alþingistíðinda. (444)

17. mál, kjötmat o.fl.

Skúli Guðmundsson:

Mér þykir vænt um að heyra, að hv. þm. Ak., sem er dýralæknir, skuli, eins og hann sagði, ekki vilja bregða fæti fyrir þessa till. okkar hv. þm. V-Sk., þó að hann virðist í vafa um, að nauðsynlegt sé að setja slíkt ákvæði aftan við frv. — Út af því, sem hann sagði um læknaskoðun á kjöti, vil ég benda á það, sem ég raunar gerði í fyrri ræðu minni, að með okkar brtt. er ekki á nokkurn hátt dregið úr ákvæðum frv. um læknisskoðun, því að samkvæmt síðari málsgr. 7. gr., er einmitt gert ráð fyrir því, að náist ekki til dýralæknis, þá geti ráðh. skipað að fengnum till. yfirdýralæknis lækni til að framkvæma þessa skoðun, og einmitt með tilliti til þessa ákvæðis í 7. gr. þá höfum við skoðað þetta þannig í bráðabirgðaákvæðinu, að afurðir séu skoðaðar og merktar af dýralækni eða öðrum þeim, er kjötskoðun annast. Þetta rýrir því á engan hátt læknisskoðunina. Það er viðurkennt af hv. þm. Ak., að það sé ekki hægt að koma því við, þegar um stórgripi er að ræða, að flytja þá lifandi langar leiðir til löggiltra sláturhúsa, og hann gaf í skyn, að þetta mundi ekki verða gert, jafnvel þó að það kostaði að víkja frá ákvæðum l. En ég víl benda á það, að ég tel það betur við eiga að setja eitthvert slíkt ákvæði inn í l. eins og bráðabirgðaákvæðið heldur en að lögfesta ákvæði, sem menn sjá mikil vandkvæði á að framkvæma. En það er rétt, að það er æskilegt að koma þessu í sem fullkomnast horf, og má þá að sjálfsögðu, þegar hægt er, framkvæma þetta á annan veg og hverfa frá þessu bráðabirgðaákvæði síðar.