29.03.1949
Sameinað þing: 58. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 181 í D-deild Alþingistíðinda. (4443)

177. mál, þátttaka Íslands í Norður-Atlantshafssamningi

Einar Olgeirsson:

Ég vil leyfa mér að biðja hæstv. forseta að segja til um það nú, hvenær næsti fundur verður í Sþ., þar sem málið verður rætt og afgr. samkvæmt venjulegum þingsköpum. Þó að þingsköp hafi verið rofin í dag, hef ég ekki gengið út frá því, að menn fengju ekki tíma til að semja nál., láta prenta þau og leggja þau fyrir með venjulegum hætti. Ef á að klára málið á morgun, vildi ég mælast til þess, að hæstv. forseti ákveði fund á morgun klukkan hálf tvö. Ég geng út frá því, að utanrmn. verði ekki sammála, heldur klofni í tvo eða fleiri parta, og er þá rétt að leyfa mönnum að semja nál. og láta prenta þau. Ég mundi reyna að flýta mínu nál. eins og ég gæti, svo að það verði til á morgun, en ég vil vita nú, hvenær fundur verður. Ég vil því bera fram þá ósk, að hæstv. forseti ákveði fund á morgun klukkan hálf tvö og mun ég þá reyna að hafa til nál., þó að ég samkvæmt þingsköpum hafi rétt til eins og hálfs sólarhrings. Ég óska því svars um það, hvort fundur verði ekki klukkan hálf tvö á morgun.