29.03.1949
Sameinað þing: 58. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 182 í D-deild Alþingistíðinda. (4447)

177. mál, þátttaka Íslands í Norður-Atlantshafssamningi

Einar Olgeirsson:

Forseti sagði áðan, að hann mundi ákveða fundartíma eftir því, hvernig nefndarstörfin kynnu að ganga. Ég get upplýst hann um það nú þegar og fyrir fram. Ég mun verða þar í minni hluta, og það verður því undir mér komið, hvernig nefndarstörfin ganga. Ég mun hraða svo mínu nál., að það verði tilbúið kl. 1.30 á morgun, ef hæstv. forseti vill ákveða fundartímann þá. Það verður ekki afgreitt á skemmri tíma. Og ég veit ekki til, að nokkurn tíma í þingsögunni hafi nál. verið hraðað svo, þótt um smámál hafi verið að ræða, hvað þá slíkt stórmál, sem hér liggur fyrir. Ég held því, að hæstv. forseti geti sparað sér að láta þm. bíða hér fram á nótt í húsinu eftir því, að fréttir berist um störf n., og ákveðið nú fundartímann. Ég get sem sagt alveg sagt forseta, hvernig nefndarstörfin muni ganga. Formaður utanrmn., hv. þm. G-K., mun setja fund með makt og miklu veldi. Hann mun ekki láta rannsaka málið mikið og skjóta sér með öllu undan því að láta nokkra lærða menn í landinu, sem reynslu hafa haft af milliríkjasamningum síðustu 20–30 árin, koma hér nokkuð við sögu. N. mun því klofna í meiri hluta og einn til tvo minni hluta, sem þurfa að semja hver sitt nál. (ÓTh: Komdu nú á nefndarfund!) — Það verður nú ekki fyrr en þessum fundi slítur. Og ég get sagt hæstv. forseta, að það er óhugsandi, að nál. verði til í nótt. Og ef forseta finnst, að ég hafi staðið mig slælega sem þingmaður í dag, get ég minnt hann á, að hann setti fund í morgun kl. 10 f. h. Hæstv. utanrrh. upplýsti, að ræða skyldi málið mjög vandlega, talaði nú að vísu sjálfur skamma stund, — en hæstv. ríkisstj. fór svo fram á það við hæstv. forseta að láta mig ekki fá matarhlé. Þó gaf nú forseti eftir, að ég fengi að borða hádegismatinn. En svo lét hann undan þeirri kröfu ríkisstj. að taka engan kaffitíma og loks undan þeirri kröfu hennar að gefa engan tíma til kvöldverðar. Ég held því, að hæstv. forseti geti ekki ætlazt til meira starfs á einum degi en þetta er orðið, — eða er það herra forseti? Ég trúi því ekki, að forseti vilji nú ekki lýsa því yfir, að þessum upplýsingum gefnum, og þar sem líða tekur að miðnætti, að næsti fundur verði ekki boðaður fyrr en á venjulegum fundartíma á morgun, kl. 1.30.