30.03.1949
Sameinað þing: 59. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 184 í D-deild Alþingistíðinda. (4455)

177. mál, þátttaka Íslands í Norður-Atlantshafssamningi

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. 37. gr. þingskapa hefst á orðunum: „Ef umræður dragast úr hófi fram, getur forseti úrskurðað, að ræðutími hvers þingmanns skuli ekki fara fram úr ákveðinni tímalengd“ o. s. frv. Nefnilega, aðeins undir þessum kringumstæðum er forseta rétt að skera umræður niður, — að umræður dragist úr hófi fram. Þetta hefur hann ekki gert. Í gær var málið tekið fyrir kl. 10 árd. og rætt til kl. 9–10 síðd. Nú eiga umræðurnar að hefjast á 11. tímanum og standa í 3 klst. En þetta mál verðskuldar sérstaklega að vera rætt dögum saman rækilega. Þetta eru brot á þingsköpum. Ég mótmæli, — mótmæli öllum þessum aðförum sem lögleysum og ofbeldi. Þær eru markleysa og umræðurnar ólöglegar, og segi ég því nei.