30.03.1949
Sameinað þing: 59. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 184 í D-deild Alþingistíðinda. (4456)

177. mál, þátttaka Íslands í Norður-Atlantshafssamningi

Áki Jakobsson:

Herra forseti. Mikið hefur nú verið rætt um þetta mál í blöðum og mikil háreysti gerð um það, að mótmælendur þessa samnings færu með fleipur eitt. Því var lofað af ráðamönnum okkar og blöðum, að þegar málið kæmi til þingsins, fengi það þinglega meðferð. Ég býst við því, að hver maður hafi lagt þann skilning í þau orð, að því mundi fylgja ýtarleg grg. og skýrsla og þá sérstaklega af hendi þeirra, sem fóru til Ameríku. En framkvæmdin er sú, að höfuðpaurinn í samsærinu, hæstv. utanrrh., talaði í 10 mín., en hinir gæta þess að koma ekki inn í þingsalinn — eða þá að þeim er haldið utan hans — nema hæstv. utanrrh. Þetta er aðferðin. En hin þinglega meðferð er sú, að þegar þetta mál hefur verið rætt um hríð, er ræðutími hvers þm. takmarkaður niður í stundarfjórðung. 1. umr. er lokið eftir 9. klst. og ekkert matarhlé gefið. En auk þess ákvað hæstv. ríkisstj., þegar umr. var lokið um kl. 10 í gærkvöld, að settur skyldi fundur að nýju á miðnætti, og ætlaði að halda áfram í myrkrinu. Þessu var beinlínis lýst yfir. Þetta var nú hin þinglega meðferðin. (Forseti: Þetta er orðin nokkuð löng grg.) Þetta er ofvaxið skilningi þm. En nauðsynlegt er að lýsa forsögu hennar. Svo þegar búið er að ræða málið á fyrsta degi, þá er staðið upp, og hæstv. forseti lýsir því yfir, að hann ætli að beita ákvæðinu um 3 klst. takmörkun í 37. gr. þingskapa. Hver maður, sem horfir á þetta mál án hræðslu, sér agnúana. En hér eru hræddir menn að verki, sem vita, að þeir verða fordæmdir. Þess vegna vilja þeir hraða málinu. (Forseti: Þetta er orðin allt of löng ræða.) Þingið hefur enga heimild til þess að svipta minni hl. málfrelsi. Þegar meiri hl. ætlar að svipta hann málfrelsi, þá á minni hl. rétt til þess, að forseti skeri úr um það. (Forseti hringir.) Ég heyri, að hæstv. forseti er ekki frjáls maður. Form. flokks hans situr framan við hann og hefur í hótunum við hann. Þetta áhrifavald hans á hæstv. forseta er miklu meira, en vera ætti. (Forseti: Ég mótmæli.) Það er hart til þess að vita, að þvílíkt getur gerzt á þingi. Hv. þm. G-K. kemur ekki inn í þingsalinn til annars en að handjárna þm. Sjálfstfl. Þegar alls þessa er gætt, segi ég nei.