30.03.1949
Sameinað þing: 59. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 185 í D-deild Alþingistíðinda. (4458)

177. mál, þátttaka Íslands í Norður-Atlantshafssamningi

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég er kosinn af þinginu í utanrmn. og á að skila áliti þaðan sem minni hl. Í 18. gr. þingskapa segir svo: „Nefndin lætur uppi álit sitt, og skal prenta það og útbýta því meðal þingmanna á fundi. Eigi má taka málið að nýju til umræðu fyrr en að minnsta kosti 2 nóttum síðar, en nefndarálitinu var útbýtt, ef um lagafrumvarp er að ræða, en 1 nóttu síðar, ef um er að ræða þingsályktunartillögur.“ Nú var kallaður saman fundur kl. 10 árd. í dag. En ekki er enn búið að útbýta nál. (Einhver: Jú.) Ekki öllum. Eftir er nál. frá mér. Ég skilaði því í prentsmiðjuna kl. 8 í morgun. Hér er því ekki einvörðungu verið að brjóta þingsköp, heldur og allar þingræðisvenjur. Þessu er ekki beitt að ráði hæstv. forseta Sþ. Hann er ekki sjálfráður gerða sinna. Hann er undir ánauðaroki frá hæstv. ríkisstj., sem þiggur mútur frá erlendu stórveldi til að keyra í gegnum þingið mál, sem þjóðin mundi ekki samþykkja, ef hún réði. Þessar aðferðir hafa aldrei tíðkazt í þingsögunni. (SK: Við mótmælum þessum málalengingum.) Ég ræð sjálfur minni grg. (Forsrh. grípur fram í.) Þegi þú, hirðstjóri. (Forsrh.: Þú ætlar ekki að gera stofnuninni sæmd.) Fyrir 5 árum kom þjóðin saman á Lögbergi til að endurreisa lýðveldið, og þá fagnaði þjóðin, því að þá var verið að vinna gott verk og vinsælt. En hvað er að gerast í dag hér á Alþingi? Jú, með ofbeldi er ríkisstj. að hefja niðurlægingartímabil, og hún vinnur sín illu verk í skjóli vopnaðrar lögreglu, því að hún er hrædd. Og af hverju er hún hrædd? Jú, hún er hrædd við fólkið, hún er hrædd við samþykktir, sem fólkið hefur gert, og hún er hrædd vegna þess, að hún veit, að hún er ekki að vinna gott verk. Það er hafið nýtt niðurlægingartímabil í sögu Íslands í sama anda og þegar erindrekar erlendra ríkja beittu valdi forðum til þess að kúga þjóðina. (Forseti: Atkvæði. — Forsrh.: Vill ekki forseti láta þm. greiða atkv.) Þegi þú, þú hefur ekki orðið. (Forseti: Atkvæði.) Já, það er byrjað nýtt niðurlægingartímabil, þar sem forseta Alþingis er þröngvað til að brjóta þingsköp og þingvenjur. (Forsrh.: Það ert þú, sem alltaf brýtur þingsköp. — Forseti: Atkvæði.) Ég vil biðja forseta að vera rólegan og láta forsrh. þegja, svo að ég geti lokið minni greinargerð. (Forseti: Þetta er allt of löng greinargerð.) Ég ræð minni greinargerð sjálfur. Hér er Alþingi Íslendinga, en ekki stofnun Bandaríkjaleppa. (Forsrh.: Þú ætlar ekki að gera það að sæmdarstofnun.) Þegi þú, þú hefur ekki orðið. Ég er alþingismaður Íslendinga, kosinn af 7.000 Reykvíkingum og tala hér í umboði þeirra, en þú ert uppbótarþingmannsræfill, sem sveikst þig inn á þing. (Samgmrh.: Þm. hlýðir ekki þingsköpum. Það á að láta hann út.) Hver beitir hér ofbeldi? Ég er að ljúka minni greinargerð, en fæ það ekki fyrir ráðh., sem eru orðnir vitlausir menn, sem hafa tekið við mútum frá Bandaríkjunum og krafizt þess, að ég yrði settur hér út. Ég vil biðja skrifara alveg sérstaklega að bóka það. (Forsrh.: Þetta eru ósannindi. — GJ: Vill ekki forseti halda áfram með atkvgr.? Þm. ætlar sýnilega ekki að greiða atkv. — StgrSt: Ég legg til, að þm. sé bara látinn út, ef hann hlýðir ekki fundarsköpum. — Forsrh.: Út með hann.) Ég óska enn eftir, að ráðh. þegi á meðan ég lýk máli mínu. En með tilliti til þess, sem ég hef sagt, vil ég endurtaka enn einu sinni, að ég mótmæli því ofbeldi, sem hér er haft í frammi, og segi nei.