30.03.1949
Sameinað þing: 59. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 186 í D-deild Alþingistíðinda. (4464)

177. mál, þátttaka Íslands í Norður-Atlantshafssamningi

Frsm. meiri hl. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Utanrmn. kom saman til fundar um þetta mál strax að aflokinni fyrri umr. málsins. Fundurinn tók stuttan tíma — eins og hv. 2 þm. Reykv. var alveg sannspár um. Aldrei þessu vant stóð allt heima, sem hann sagði, — og það tók stuttan tíma að afgreiða málið frá n. Við í meiri hl. n. bárum fram till. um, að málið yrði samþ. óbreytt. Hv. þm. Str. og hv. 1. þm. N-M. töldu sig ekki vilja samþ. það óbreytt og spurðust fyrir um það, hvort við í meiri hl. n. mundum fallast á breyt. Við töldum það ekki geta orðið, ef þær væru í verulegum efnum. Svo var ekki um það rætt meira. Og hv. 2. þm. Reykv. kvað sig hins vegar algerlega andvígan málinu, sem engum kom á óvart. Þessum nefndarstörfum var lokið á hálfri klukkustund, og fóru þau mjög friðsamlega fram, eins og alltaf er, þegar við höfum enga til að horfa á okkur eða hlusta á okkur aðra en fundarmennina sjálfa. Ég verð því að lýsa undrun minni á óstyrkleik kommúnista, þegar forseti ákvað að takmarka umr. við 3 klst. Eins og menn muna, þá var sami háttur á hafður 1946, þegar Alþingi hafði flugvallarsamninginn til meðferðar, þ. e. a. s., að ákveðið var að hafa um málið 3 klst. útvarpsumr. Nú hafa raunverulega verið útvarpsumr. um þetta mál og það eftir samkomulagi við 2. þm. Reykv., sem þrátt fyrir það hefur sýnt einna mest sjúkdómseinkenni við þessa ákvörðun forseta. En auk þessarar útvarpsumr. var málið svo rætt hér í allan gærdag, og höfðu andstæðingar málsins þá nær allan ræðutímann, svo að þeirra hlutur virðist ekki hafa verið fyrir borð borinn í umr. um þetta mál.

Hæstv. forseti hefur ákveðið, að við frsm. utanrmn. skulum hafa ½ klst. til umráða hver. Ef ég mætti ráða, væri mér sönn ánægja að láta þessa taugaóstyrku menn hafa minn tíma, en nota sjálfur aðeins fáar mínútur. Frá mínu sjónarmiði liggur þetta mál glöggt fyrir, þó að 2. þm. Reykv. og aðrir andstæðingar þessa máls séu nú á annarri skoðun. En sannleikurinn er sá um afstöðu þessara manna, að á meðan ekkert lá fyrir í þessu máli, þóttust þeir vita allt um það, en nú, þegar málið liggur ljóst fyrir, þá þykjast þeir ekkert vita og ætla alveg að sleppa sér, þegar umræðutími þeirra er takmarkaður við 3 klst. Slíkan skrípaleik tekur enginn alvarlega. Nei, þetta mál liggur ljóst fyrir, og þarf ekki annað en vísa til ræðu utanrrh. í útvarpsumr. í fyrrakvöld til að sanna það. Ég veit ekki, hvort það hefur nokkra þýðingu, að ég fari að endurtaka þau rök. Meginkjarni þeirra kemur fram á nál. meiri hl. á þskj. 510, en þar segir meðal annars, að sáttmálinn sé gerður „í algeru samræmi við sáttmála Sameinuðu þjóðanna, þar sem einungis sé um það að ræða, að aðilarnir bindist þeim samtökum, sem ráð er fyrir gert í 51. gr. þess sáttmála til þess að verjast árásum meðan öryggisráðið getur ekki gert nauðsynlegar ráðstafanir til þess að hnekkja yfirgangi árásarríkis. Telur nefndin, að Íslandi beri tvímælalaust að skipa sér í flokk með þeim ríkjum, er hefta vilja slíkar árásir, ef ekki fylgja því óeðlilegar skuldbindingar fyrir landið“.

Þegar sáttmáli Sameinuðu þjóðanna var gerður, var tilgangur hans sá, að friðelskandi þjóðir byndust samtökum til þess að koma í veg fyrir stríð og skapa nýja veröld, og þetta skyldi gert með vopnavaldi, ef annað dygði ekki. Nú hafa þessar frelsisunnandi þjóðir orðið fyrir vonbrigðum með samtök sín og fyrst og fremst vegna þess, að Rússar hafa brugðizt í samstarfi Sameinuðu þjóðanna. Afleiðing af því er sá samningur, sem hér um ræðir, og hann er eingöngu gerður til að hnekkja yfirgangi árásarríkis, og því er hann aðeins varnarsamningur. Eða hver vill trúa því, að Norðmenn eða Danir hafi í hyggju að ráðast á Sovétríkin eða nokkurt annað ríki, ætli þessar þjóðir séu ekki búnar að fá nóg af hörmungum styrjaldarinnar? Og eins er ég sannfærður um, að það hvarflar ekki að nokkrum Íslendingi að ráðast á Rússa. Ég gat því miður ekki hlustað á erindi þm. Str. um Sameinuðu þjóðirnar, sem hann flutti í útvarpið nú fyrir skömmu, en mér er sagt, að það hafi verið gott. Hann hafði getið þess, að hugsjónir Sameinuðu þjóðanna lifðu enn, þó að vonir manna í sambandi við stofnunina hafi brugðizt. En einmitt vegna þess, að hugsjónin lifir þrátt fyrir vonbrigðin, hafa þær þjóðir, sem unna frelsi og lýðræði og beinlínis vegna friðarþarfar þeirra ákveðið að gera með sér þann samning, sem hér um ræðir. — Ég ætlaði ekki að nota langan ræðutíma, en ég finn, að það er gaman að tala um þetta og tíminn er ekki lengi að líða, enda skil ég nú betur, að sósíalistarnir séu margorðir.

Þegar svo okkur Íslendingum, sem gortum af því, að við unnum frelsi og lýðræði, er boðin þátttaka í slíku friðarbandalagi lýðræðisþjóðanna, þá væri skömm fyrir okkur að hafna því boði, þar sem ekki fylgja þátttökunni neinar óeðlilegar skuldbindingar fyrir þjóðina. Það er allt annað mál, þó að við neitum að bera vopn, slíkt kæmi að sjálfsögðu aldrei til greina vegna sérstöðu okkar, og það má ekki á nokkurn hátt leggja út sem bleyðuskap, því að vopnaburð getum við ekki hugsað okkur og alls ekki vegið mann. Þetta er svo rótgróið í meðvitund þjóðarinnar eftir margra alda frið og verður að teljast nægileg afsökun fyrir þeirri sérstöðu okkar að neita algerlega hvers konar herskyldu. Það er líka gott til þess að vita, að þær lýðræðis- og menningarþjóðir skilja þetta og segja, að það sé eðlilegt, að Íslendingar segi: Við höfum ekki her og við viljum ekki hafa her og við ætlum okkur aldrei að hafa her og aldrei að segja nokkurri þjóð stríð á hendur. — Við hefðum farið okkar fram í þessum efnum, hvað sem aðrar þjóðir hefðu sagt. En það er ánægjulegt, að þær skilja afstöðu okkar í þessu efni. Við Íslendingar getum ekki hugsað okkur að gera hundi mein. Við getum því síður hugsað okkur mann að vega. En við kunnum því miður flestum þjóðum betur bolabrögð með penna og munni hverjir gagnvart öðrum. Þessi réttur okkar Íslendinga og þetta hugarfar hefur lýst sér í því, að okkar ríkisstj. hefur skýrt og greinilega tekið það fram, að undir þau skilyrði að hafa her viljum við ekki gangast, og fengið um það örugg svör, að aðrar þjóðir líti svo á, að við þurfum ekki að gera það. M. ö. o., við öðlumst þann öruggleika og þau réttindi, sem sáttmálanum fylgja, án þess að þurfa nokkuð að leggja af mörkum annað en það, sem við sjálfir viljum, þegar þar að kemur, um leið og það er undirskilið af okkar hendi, að við höfum aldrei herstöðvar eða hersetu á friðartímum eða hermenn á friðartímum og að við segjum aldrei nokkurri þjóð stríð á hendur. Að öðru leyti er ætlazt til þess, að við leggjum til, ef til stríðs skyldi koma, það, sem við í góðri trú teljum eðlilegt. Undir öðrum betri skilyrðum geta Íslendingar ekki búizt við að geta orðið þátttakendur í samstarfi frjálsra þjóða. Og ég veit ekki betur en að á stúdentafundinum, sem var fyrsti fundurinn til þess að mótmæla þessu bandalagi, þá hafi verið lýst yfir því, að við Íslendingar ættum að vera í vinsamlegri samvinnu við vestræn veldi, og að því hafi verið þar lýst yfir líka af kommúnistum. Mér er sagt, að hv. 2. þm. Reykv. (EOl) hafi greitt atkv. með því.

Ég sé svo ekki ástæðu til að segja hér fleira. Ég vona, að þáltill. þessi verði samþ., og þykist þess viss, að svo muni verða, og vísa að öðru leyti til þeirrar útvarpsræðu, sem ég flutti hér í sambandi við vantrauststill. á dögunum.