30.03.1949
Sameinað þing: 59. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 200 í D-deild Alþingistíðinda. (4468)

177. mál, þátttaka Íslands í Norður-Atlantshafssamningi

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Ég tók ekki til máls við fyrri umr., þar sem ég hafði lýst afstöðu minni í útvarpsumr. um vantraustið á ríkisstj., og lýsti ég þar hinum almennu rökum fyrir málinu. Það var því aðeins út af brtt., að ég vildi segja nokkrar setningar. Miðstjórn og þingflokkur Framsfl. töldu rétt að gerast stofnaðili að Atlantshafsbandalaginu.

Ég tel þjóðaratkvæðagreiðslu óheppilega og óþarfa og skora á hv. þm. að fella þá till. Í sambandi við till. um fyrirvara við undirskrift sáttmálans eða viðaukann um, að við séum vopnlausir og viljum engan her, þá tel ég það óþarfa, þar sem engin slík ákvæði eru í samningnum og því algerlega á valdi Íslendinga sjálfra. Því hefur einnig verið lýst yfir í viðræðum, að slíkt kæmi ekki til greina, og í nál. meiri hl. utanrmn. er gerð grein fyrir sérstöðu Íslands. Til viðbótar við þetta hefur hæstv. utanrrh. lýst því yfir, að ef við gerumst þátttakendur í bandalaginu, muni hann geta þessarar sérstöðu Íslendinga í ræðu í sambandi við undirskrift sáttmálans —, og er þá þessi fyrirvari fullnægjandi og þetta því óþarft. — Í sambandi við till. um Keflavíkurflugvöllinn vil ég aðeins segja eins og áður, að um það, hvernig eigi að fara með hann, eru alveg ákveðnar skoðanir og óþarfi að setja hann í samband við þetta mál og aðeins sett þarna í því skyni að hindra, að við gerumst stofnaðilar, og vil ég því, að hún sé felld. Ég er því á móti till. hv. 2. þm. Reykv., en mun greiða atkv. þáltill., sem fram er komin um að gerast stofnaðili að Atlantshafsbandalaginu, og vil endurtaka áskorun mína frá útvarpsumr., að till. verði samþ. óbreytt eins og hún kom frá ríkisstj.