30.03.1949
Sameinað þing: 59. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 201 í D-deild Alþingistíðinda. (4469)

177. mál, þátttaka Íslands í Norður-Atlantshafssamningi

Forsrh. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Herra forseti. Út af framkomnum brtt. vil ég gera hið sama og hæstv. menntmrh., að vísa til samþykktar miðstjórnar og þingfl. Alþfl. og til ummæla minna í útvarpsumr. í fyrrakvöld. En ég skal geta þess út af till. um þjóðaratkv., að ég tel slíkt hvorki eðlilegt né heppilegt, enda hvergi viðhaft. Auk þess hefur aldrei komið fram till. um slíkt í miðstjórn eða þingflokki Alþfl. Ég tel því, að Alþfl. telji það óheppilegt. — Ég vil þá minnast á till. á þskj. 506. Hv. 4. þm. Reykv. gerði í langri og ýtarlegri ræðu grein fyrir henni. Meginatriði brtt. sagði hann að væri í samræmi við yfirlýsingu Alþfl. um samvinnu við hinar vestrænu lýðræðisþjóðir. Hins vegar tel ég bæði óeðlilegt og óþarft að samþ. þessar brtt. og vil geta þess, að þegar sams konar till. voru fluttar í miðstjórn og þingfl. Alþfl., var þeim vísað frá með miklum meiri hluta, eins og hv. 4. þm. Reykv. tók fram. Till. eru því ekki fluttar eftir markaðri stefnu flokksins, heldur einkaskoðun hv. þm. Hins vegar vil ég geta þess — og vitna til hæstv. utanrrh. og hæstv. menntmrh., að Alþfl. er þeirrar skoðunar, eftir þær upplýsingar, sem fyrir lágu og komu fram hjá hæstv. viðskmrh., að lýst verði fyrir stofnaðilum Atlantshafsbandalagsins þeirri sérstöðu, sem Ísland hefur sem óhervædd þjóð, og hún viðurkennd. Sá liður till. er því óþarfur að mínu áliti, þar sem þátttaka leiðir ekki til þess, að Ísland þurfi að fara í styrjöld, þó að aðrar bandalagsþjóðir geri það. Þá vil ég taka það fram, að við undirritun sáttmálans mun því verða lýst yfir, að Ísland sé vopnlaust og mun það tvímælalaust leiða til þess, að Íslandi mun hvorki verða lögð á herðar lagaleg né siðferðileg skylda til stríðsyfirlýsingar. Ég vona því, að þm. sjái, að slíkar brtt. eru þarflausar og tryggt verður á annan hátt það, sem þeir vilja láta koma fram. — Út af till. í sambandi við Keflavíkurflugvöllinn vil ég benda á, að þátttaka Íslands í bandalaginu er líkleg til að greiða fyrir auðfenginni endurskoðun á Keflavíkursamningnum fyrr en ella. Ég tel till. þessar óheppilegar og óþarfar og vil mælast til, að þær verði felldar. Ég mun ekki fjölyrða frekar um málið og læt nægja að vísa til umr. í fyrrakvöld.