30.03.1949
Sameinað þing: 59. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 201 í D-deild Alþingistíðinda. (4470)

177. mál, þátttaka Íslands í Norður-Atlantshafssamningi

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. Hæstv. ríkisstj., hæstv. forseti og meiri hluti Alþ. hefur framið geipileg glöp í meðferð þessa máls. Það eru örlagarík mistök, að þetta mál skuli vera knúið í gegnum þingið með ósæmilegum hætti. Það er á þennan hátt, sem þingræði og lýðræði er tortímt. Alþ. bar að sýna í rauninni, að þessu máli vildi það sýna sóma og láta málfrelsi njóta sín og athuga það sem bezt. Ef það hefði verið gert, hefði ríkt ró og stilling í þingsölunum og hjá almenningi, en vegna þess, að það var ekki gert, skortir mikið á, að sú ró hafi verið, sem hæfir slíku máli og svo virðulegri stofnun. En hér hafa verið framin örlagarík glöp. Íslendingar höfðu ástæðu til að ætla, að þjóðfélagið væri svo þroskað, að lög og réttur giltu í samræmi við vilja þjóðarinnar, og það kynni að mæta rödd þjóðarinnar. En aðferðir þær, sem hér hefur verið beitt, benda til þess, að nokkuð skorti á þennan þroska, sem með þarf. En þeir, sem kosið hafa ofbeldið, verða síðar dregnir til ábyrgðar. En Alþ. á því miður eftir að fremja enn meiri glöp í dag, því að einsætt er, að Ísland verður gert að aðila í Atlantshafsbandalaginu, og verða því hv. þm. að gera sér ljóst, inn í hvað þeir eru að leiða þjóðina. Ég byggi á þeirri staðreynd, að Bandaríkin hafa fyrir löngu fest þá skoðun með sér í ræðu og riti, að Ísland sé æskileg og jafnvel nauðsynleg herstöð í hernaðarkerfi þeirra. Það er ákveðið af þessum aðila að halda hér herstöð, með góðu eða illu, og er ekkert til sparað, og má þar til nefna Keflavíkursamninginn. Marshallaðstoðina svokölluðu, og loks er það krafan um þátttöku Íslands í Atlantshafsbandalaginu. Bandaríkin hafa ákveðið að hafa hér herstöð, og hún er hér nú þegar, það er auðsætt. Hér ráða þau einum stærsta flugvelli heims, sem merktur er á öllum kortum þeirra sem stórkostlegasta árásarstöðin og herstöðin, sem Bandaríkin ráða yfir, því að það eru ekki Íslendingar, sem ráða Keflavíkurflugvellinum. Það eru Bandaríkjamenn. Það er rétt hjá hv. þm. Str., að þau loforð og skuldbindingar, sem Bandaríkjamenn gáfu okkur með Keflavíkursamningnum, hafa ekki staðizt. Olíustöðin í Hvalfirði er betur dulbúin herstöð, og hæstv. utanrrh., eða sá helmingur ríkisstj., sem vestur flaug, varð að heita því, að þar yrði allt til taks undir herstöð, ef til stríðs kæmi hér. Ísland hlýtur að verða stríðsaðili samkvæmt samningnum, ef til stríðs kemur, ella væri hann meiningarleysa, og það er hann auðvitað ekki. Við réðum engu, er við vorum hernumin 1940, og ekki réðum við neinu um herverndarsamninginn 1941 nema að forminu til, og hverjum dettur í hug í fullri alvöru, ef Bandaríkin þykjast þurfa að fara í stríð, að við verðum spurðir, hvort við viljum vera með? Hvert verður svo framlag Íslendinga? Þeir leggja fram land sitt sem herstöð fyrir erlendan her, sem e. t. v. á í árásarstríði, við verðum að láta vinna í þjónustu hernaðar og e. t. v. nokkra menn í herinn, og fjármunir okkar verða látnir ganga til hernaðarrekstrar, og svo getur farið, að helmingur þjóðarinnar týni lífinu og eignir þjóðarinnar verði að engu.

Það hefur verið upplýst fyrir íslenzku ráðherrunum í Bandaríkjunum, að Ísland verði ekki notað sem árásarstöð í fyrstu stríðslotu, en tapist stöðvar fjær Bandaríkjunum, þá verði Ísland árásarstöð. Þetta er staðreynd, sem ráðherrarnir hafa ekki dirfzt að mótmæla. Ég hef aldrei hér á Alþ. heyrt lágkúrulegri ræðu en hæstv. menntmrh. hefur nú flutt hér. Það var eymdin, sem einkenndi ræðu og ræðumann. Hann er lítill maður á stórri stundu. Hann sagði, að við fengjum fyrirvara, að aðrir samningsaðilar lofuðu að virða sérstöðu okkar sem vopnlausrar þjóðar. Og þetta segir hann, eftir að hafa heyrt formann síns eigin flokks lýsa því hér yfir, að engin loforð hafi verið haldin, sem okkur voru gefin í Keflavíkursamningnum. Hvers virði eru þá loforð þessara manna, sem enn á að fara að semja við? Hver gerir nokkuð með slík rök? Og hann sagði, að við ættum að gerast stofnaðili að bandalaginu. En hverjum liggur á? Okkur eða heiminum? Það getur engum legið á, og það er sjálfsagt og skyldugt í máli, þar sem um er að ræða líf eða dauða þjóðarinnar, að spyrja hana sjálfa. Engum hér liggur á. Við þurfum ekki að gerast stofnaðili, það liggur ekkert á. Þess vegna á að spyrja þjóðina fyrst. Það getur ekki verið bindandi fyrir þjóðina að binda hana þannig með ofbeldi eins og hér á sýnilega að gera.