30.03.1949
Sameinað þing: 59. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 205 í D-deild Alþingistíðinda. (4473)

177. mál, þátttaka Íslands í Norður-Atlantshafssamningi

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég ætlaði að beina fyrirspurn til hv. þm. G-K., en hann er ekki viðstaddur, og vil ég leyfa mér að beina því til hæstv. forseta, að þingmanninum sé gert aðvart.

Hæstv. forsrh. og hæstv. menntmrh. lögðu áherzlu á það ákvæði samningsins, að stríðsaðildar yrði aldrei krafizt af neinum aðila. Þetta töldu þeir alveg ótvírætt. En mér fannst ekki fullur sannfæringarkraftur fylgja orðum þessara hæstv. ráðherra, því að það fylgdi með, að tilætlunin væri að hæstv. utanrrh. gerði síðar munnlega grein fyrir því, að Ísland gerðist aldrei hernaðaraðili. En væru ótvíræð ákvæði um það í samningnum, að stríðsþátttaka eða stríðsaðild væri hverjum aðila í sjálfsvald sett, þá væri líka allur munnlegur fyrirvari í þessu efni óþarfur. Samt ætlar ríkisstj. að láta þann fyrirvara fylgja. Ég tel, að gera verði ugglausan fyrirvara um það, að Ísland gerist aldrei stríðsaðili, annað er óverjandi, og sá fyrirvari þarf að vera skriflegur. Hæstv. menntmrh. lýsti því hins vegar yfir, að munnlegur fyrirvari væri jafngóður skriflegum, en það eru skiptar skoðanir um það. Ég bendi á, að glöggur lögfræðingur og gagnkunnugur utanríkismálum hefur tjáð mér, að hann sé einnig þeirrar skoðunar, að slíkur munnlegur fyrirvari nægi ekki. Um þetta mál hefur ekki verið rætt við aðra af Íslands hálfu, en utanríkisráðherra Bandaríkjanna, það hefur ekki verið rætt við ráðherra hinna þátttökuríkjanna. Nú má vera, að hin ríkin láti gott heita það, sem sagt hefur verið við utanríkisráðherra Bandaríkjanna, en hér má ekkert á milli fara, sérstaða okkar þarf að vera glöggt og ótvírætt mörkuð og koma skýrt fram og óumdeilanlega. Íslendingar hafa fyllstu ástæðu til að gæta mestu varúðar við slíka samningagerð, ekki sízt með hliðsjón af reynslunni af tveimur loðnum samningum, sem einmitt hafa verið gerðir við Bandaríkin, herverndarsamningnum og Keflavíkursamningnum. En reynslan af báðum þessum samningum er slík, að við höfum fyllstu ástæðu til að gæta mestu varúðar. Ég veit að vísu, að utanríkisráðherra Bandaríkjanna óskaði þess, að engin þjóð gerði skriflegan fyrirvara, en ég hygg þó, að ósk um það yrði ekki neitað, og ég skil satt að segja ekki, hví ekki má hafa hann skriflegan, úr því að það er skoðun ráðamanna, að slíkan fyrirvara þurfi að hafa. Ég vil leyfa mér að bera fram þá fyrirspurn til utanrrh., hvort hann vilji lofa Alþingi að heyra þennan munnlega fyrirvara. Ég æski þess eindregið.

Þá vil ég víkja svolítið að yfirlýsingu menntmrh. í sambandi við Keflavíkurflugvöllinn. Ég tel það mjög mikilvægt, að þessi flokkur er reiðubúinn til að beita sér fyrir endurskoðun Keflavíkursamningsins. En í beinu framhaldi af þessu vil ég beina þeirri fyrirspurn til hv. þm. G-K. og formanns utanrmn., hvort hann og flokkur hans vilji einnig beita sér fyrir endurskoðun Keflavíkursamningsins. Utanrrh. sagði, að vissulega væri æskilegt, að flugvöllurinn kæmist algerlega undir íslenzk yfirráð, en ég vil benda á, að þm. áttu þess kost að láta í ljós þá skoðun sína með því að samþykkja þá tillögu, sem við þá bárum fram en náði ekki fram að ganga, m. a. vegna andstöðu Ólafs Thors. Ef það nú kæmi í ljós, að það væri vilji Sjálfstfl., að endurskoða skuli Keflavíkursamninginn, þá sé ég ekki annað en það sé orðinn vilji allra flokka þingsins og skil þá ekki, hvað er því til fyrirstöðu að samþykkja nú tillögu okkar á þskj. 506. Menntmrh. sagði, að tillaga okkar væri ósamrýmanleg sáttmála Sameinuðu þjóðanna. Það er alger misskilningur. Fyrri liðurinn er varðandi skriflegan fyrirvara, en síðari liðurinn er viljayfirlýsing frá Alþingi um, að óskað sé eftir samkomulagi við Bandaríkin um endurskoðun á Keflavíkurflugvallarsamningnum.