30.03.1949
Sameinað þing: 59. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 212 í D-deild Alþingistíðinda. (4485)

177. mál, þátttaka Íslands í Norður-Atlantshafssamningi

Áki Jakobsson:

Herra forseti. Það hefur verið reynt að hraða afgreiðslu þessa máls eins og frekast hefur verið unnt. Nú eru hér fram komnar till. um, að látin verði fara fram þjóðaratkvæðagreiðsla um málið og þjóðin látin skera úr þessum vanda. Nú segir hv. þm. V-Húnv., að gildi þessa samnings fari ekki eftir því, hvort hann sé borinn undir þjóðina eða ekki. Ég vil benda á, að hér er ekki um venjulega lagasetningu að ræða, heldur er verið að draga þjóðina inn í hernaðarblökk til 20 ára. Þetta er meiri skuldbinding en Íslendingar hafa gert í áratugi. Því var einu sinni lýst yfir af hæstv. ríkisstj., að þetta mál yrði þaulrætt, þegar það kæmi fyrir þingið, en nú er það afgreitt á röskum sólarhring. Ég tel þetta vera lögleysu og þjóðinni stafa mikil hætta af þessum samningi. Hér er um að ræða óttaslegna menn, en þjóðin ætti að verða sammála um það að gera þennan samning að markleysu. Sá hópur, sem samþ. þessa þál., ber alla sök á þeim skaða, sem Íslendingar kunna að verða fyrir af afleiðingum þeim, sem aðild Íslands að þessu hernaðarbandalagi kann að leiða af sér. Þeir menn verða síðar kallaðir svikarar, prettarar og ósannindamenn.