30.03.1949
Sameinað þing: 59. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 214 í D-deild Alþingistíðinda. (4496)

177. mál, þátttaka Íslands í Norður-Atlantshafssamningi

Gylfi Þ. Gíslason:

Ég greiði atkv. um þessa till. með tilvísun til þeirrar ræðu, sem ég flutti við fyrri umr. málsins.

Ég tel þá bandalagsstofnun, sem hér er um að ræða, eðlilega frá sjónarmiði þeirra hervelda, sem liggja við norðanvert Atlantshaf, eins og nú háttar í alþjóðamálum. En sökum algerrar sérstöðu Íslands meðal Atlantshafsþjóða sem vopnlausrar smáþjóðar í stóru og hernaðarlega mikilvægu landi tel ég Íslendingum nauðsynlegt að gæta fyllstu varúðar í sambandi við aðild að slíku bandalagi. Þess vegna hef ég viljað gera tvennt að skilyrði fyrir fylgi mínu við aðild Íslendinga að Norður-Atlantshafsbandalaginu:

1. Að það verði algerlega ótvírætt, að sú sérstaða Íslands sé viðurkennd, að Íslendingar geti aldrei sagt öðrum þjóðum stríð á hendur og aldrei háð styrjöld gegn nokkurri þjóð.

2. Að Keflavíkursamningurinn verði endurskoðaður, þannig að Íslendingar taki rekstur flugvallarins við Keflavík algerlega í eigin hendur, svo að þeir öðlist óskoruð yfirráð yfir öllu íslenzku landi, en ella geta Íslendingar ekki talizt jafnréttháir öðrum samningsaðilum. Þar eð tillögur um þessi atriði hafa verið felldar, segi ég nei.