31.03.1949
Sameinað þing: 60. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 225 í D-deild Alþingistíðinda. (4515)

177. mál, þátttaka Íslands í Norður-Atlantshafssamningi

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. mikið, en mér finnst þær sýna merkilegan hlut, sem maður að vísu hafði pata af áður, en hann er sá, að kommúnistar hugsa á annan hátt en venjulegt fólk. Þeir hugsa svo mikið öðruvísi en annað fólk, sérstaklega hv. 4. landsk., að það væri ekki óeðlilegt, að þeir væru geymdir á safni sem sérkennileg náttúrufyrirbrigði og varðveittir þar sem undur fyrir framtíðina. (HV: Engum mundi detta í hug að geyma hv. þm. N-Ísf. á safni.) Ég vil benda á það, á hverju þessi sérkenni byggjast. Þessir þm. hafa hvatt til glæpa. Þeir hafa hvatt til þess, að löggjafarsamkoman væri hindruð að vinna að ákveðnu máli, og þeir hafa sagt, að meiri hl. yrði ekki þolað að taka ákvörðun um það. Svo þegar hótanirnar rætast og það kemur í ljós, að þær hafa verið teknar alvarlega, hvað segja kommúnistar þá? Jú, daginn eftir átökin,. þegar flestir gluggar hér í salnum eru lokaðir með tréhlerum, þá stendur hv. 4. landsk. upp og segir, að hv. þm. G-K. hafi gefið fólkinu merki um að hefja grjóthríðina. Það verður merkilegt fyrir framtíðina að geta virt svona geirfugla fyrir sér, í sjálfu sér eru þeir enn merkilegri en geirfuglinn. (BrB: Þetta var í Morgunblaðinu í dag.) Það er ekki verra fyrir það. (Forseti: Ég óska ekki eftir slíkum umr. og tel, að þær eigi betur heima annars staðar.) Ég vil undanbiðja. mér það, að hæstv. forseti standi meðan ég tala. Ég vil sitja, er forseti stendur. — Þessir aumingjar og bjálfar urðu hræddir, þegar fólkið mætti með manndómi og þeir sáu, að þeir gátu ekki brotið vilja Alþ. Þá var gerð tilraun til manndrápa á löggæzlumönnunum. Og nú ljúga þessir aumingjar, bleyður og ragmenni upp nýjum sögum. En fólkið fylgdist með því, sem gerðist, og hefur á því eina og sömu skoðun. Kommúnistar eru ekki svo heppnir í þetta sinn, að þessir atburðir hafi skeð í Rúmeníu, þeir skeðu í hjarta Reykjavíkur. Þeir eru svo óheppnir, að nú eru ekki bara Morgunblaðið og Reuter til frásagna, og atburðirnir hafa hvorki skeð í Búlgaríu né Tékkóslóvakíu. Kommúnistar geta sagt Íslendingum, að öll þau óhæfuverk, sem flokksbræður þeirra fremja í þessum fjarlægu löndum, séu uppspuni, en þeim þýðir ekki að beita slíkum aðferðum, þegar um er að ræða atburði, sem þúsundir Reykvíkinga hafa horft á. — Svo var það eitt atriði, sem ég vil ekki láta ómótmælt. Kommúnistar hafa svívirt nokkur hundruð ungra manna, er skipuðu sér kringum þinghúsið í gær til þess að verja það, þeir hafa kallað þá hvítliða og sagt, að þeir hafi staðið fyrir manndrápum. Allir dáðust að því, hve rólegt þetta unga fólk var, þegar grjóthríðin dundi á veggnum og í höfuð þess. Það vakti aðdáun Reykvíkinga, hvernig það reyndi að hindra aðsókn skrílsins. Ég dáist að stillingu þess og vil ekki láta ómótmælt rógi kommúnista um það. Kommúnistar segja, að þetta hafi verið eintómir Heimdellingar. Meginhlutinn mun hafa verið úr því félagi, og ég segi: Það er heiður fyrir Heimdall. En raunar voru þarna ungir menn úr félögum annarra lýðræðisflokka. Einnig þeim ber heiður. — Loks vil ég minnast á eitt atriði. Kommúnistar neita nú þátttöku sinni í þessum árásum, en hvað stendur í blaði þessara (ÓTh: Skepna) já, skepna. Þeir hafa unnið til þess að verða teknir hörðum tökum og skulu vita það, að næst verða slíkir dólgar teknir enn harðari tökum. Jú, Þjóðviljinn jafnar ungri stúlku, sem reyndi að slá forsrh. landsins, við einn mesta kvenskörung, sem íslenzk saga geymir, Auði Vésteinsdóttur. Kommúnistablaðið segir, að þessi unga, og ég vil segja ógæfusama stúlka, sem gekk að forsrh. og klóraði hann eða gaf honum utan undir, hafi framið þennan verknað fyrir hönd íslenzkra kvenna og að minning hennar muni geymast um allar aldir í Íslandssögunni. Þetta er mat kommúnista á hetjudáðum. (Forseti: Þetta á betur heima í blöðunum.) Hæstv. forseti hefur ekki refsað þm. kommúnista sem skyldi fyrir framferði þeirra hér. Ég er hér að bera sakir af mönnum og álít, að það séu ekki forréttindi kommúnista að tala. — Já, Þjóðviljinn segir: „Kinnhestur sá mun geymast í hugum Íslendinga.“ Ég veit ekki um hug hvaða Íslendinga er að ræða, nema það væri kommúnista, en hugur þeirra er sú versta ruslakista, sem til er.