31.03.1949
Sameinað þing: 60. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 227 í D-deild Alþingistíðinda. (4516)

177. mál, þátttaka Íslands í Norður-Atlantshafssamningi

Ólafur Thors:

Herra forseti. Mér er sagt, að hv. 4. landsk. — ég veit ekki, hvort ég má kalla hann uppbótarþm., því að hv. 2. þm. hafði þau orð um hæstv. forsrh., að hann væri ekki annað en helvítis uppbótarþm., — en mér er sagt, að þessi hv. þm. hafi sagt, að ég hafi gengið út að glugganum til þess að skipa fyrir um árás. Ég lýsi þetta vísvitandi ósannindi. Mér varð það oft á að líta út um glugga þinghússins og varð sérstaklega starsýnt á um 200 manna hóp, alveg óvenjulega ljótan. Í þessum hópi tók ég sérstaklega eftir ungum manni, er afskræmdi sig og stakk út úr sér tungunni. Það er einhver sú ótútlegasta manndrusla, sem ég hef séð. Þessi piltur var með stúdentahúfu, og ég benti með fingrinum á enni mér, en það varð til þess, að unglingur þessi áttaði sig á, að hann bar á höfði sér einkenni þeirra, sem þjóðfélagið ver árlega milljónum króna til að mennta og manna. Hann bætti að skæla sig, eftir var aðeins sneypulegt ófrítt gelgjusmetti, og ég sá ekki til hans eftir þetta. Þetta gerðist klukkan tæplega eitt, og var ég staddur í vestasta herbergi þinghússins. Hitt er svo rétt, að lýður sá, sem hv. 4. landsk. hafði fylkt að þinghúsinu, kastaði tvívegis grjóti í glugga, sem ég stóð við. Ég gerði mér ekki hættuna ljósa og hélt, að ég hefði leyfi til að ganga um þinghúsið eins og aðrir. Ég endurtek það, að ummæli hv. 4. landsk. eru vísvitandi ósannindi. Ég hef ætíð viljað afstýra vandræðum og álít, að þjóðinni stafi voði af slíkum aðferðum. En ef skrílsæði kommúnista er látið afskiptalaust, þá er ekki lengur til frelsi í þessu þjóðfélagi. Það hefði verið öllum til skammar.

Ég mismælti mig áðan, er ég blandaði hv. 8. þm. Reykv. saman við hv. 4. þm. Reykv. Þessi hv. þm. á margt annað skilið, en ekki að maður blandi honum saman við Gylfa. Það var víst um tvöleytið í gær, að hv. 8. þm. Reykv. og hv. 4. landsk. ruku upp eins og nöðrur. Ég veitti þeim eftirför. Þeir fóru á fund Stefáns Ögmundssonar og Björns Bjarnasonar. Ég heyrði ekki á tal þeirra og fullyrði því ekki, að þeir hafi gefið fyrirmæli um árás á þingið, en strax á eftir hófst nær látlaust aur- og grjótkast á þinghúsið.

Í marga mánuði hefur þjóðin verið æst upp og henni sagt, að verið væri að svíkja föðurlandið. Og ég segi fyrir mig, að ef ég væri ungur maður og tryði því, að einhverjir væru að svíkja föðurlandið, þá mundi blóð mitt hitna. Og menn eins og Sigurbjörn dósent Einarsson, Pálmi Hannesson rektor, Klemenz Tryggvason, Einar Ólafur Sveinsson og Gylfi Þ. Gíslason — þessir menn hafa æst bálið, og á þeim hvílir þung ábyrgð um þá atburði, sem hér urðu í gær. Það kann að vera, að þeir hafi ekki ætlazt til, að við værum drepnir. En þeir ætluðu að halda fund til þess að hindra ákvarðanir löglegs meiri hluta á Alþingi, en þeir guggnuðu á því, og kommúnistarnir komu svo sjálfir til fundar. Og til hvers? Það átti að vera til þess að æsa lýðinn og stefna honum til alþingishússins; þeir höfðu 200 manna talkór, sem þeir höfðu æft og létu standa fyrir hópnum. En við sáum við þessu herbragði og sendum okkar áskorun og sögðu: „Komið þið, sem viljið, að Alþingi hafi frið.“ Og fólkið kom, og gagnvart þeim fjölda reyndust æsingamennirnir fáir og máttvana. Og ef ekki hefði verið viðhafður viðbúnaður til öryggis, hefði leikurinn orðið allur annar, því að það þýðir ekki að neita því, að vikum saman höfðu æsingabumburnar verið barðar. Það var æpt að forsrh., þegar hann kom frá útlöndum, þessari „manndruslu,“ eins og hann var kallaður, og það kvað við sama tón, þegar ráðherrarnir þrír komu frá Ameríku; það var sagt, að Alþingi skyldi verða hindrað í að samþykkja aðild Íslands að Atlantshafsbandalagi. Og hvernig átti að hindra þingmeirihluta frá að taka sínar ákvarðanir nema með ofbeldi? Vilja kommúnistar svara því hér í áheyrn Alþingis? Hvernig ætluðu þeir sér að hindra þetta án ofbeldis?

Ég get auðvitað ekki fullyrt, hvaða hætta hefði verið hér á ferðum, ef ekki hefðu verið varnir við hafðar. En óspektirnar á þriðjudaginn voru barnaleikur á móts við það, sem hér gerðist í gær. En þá gengum við hæstv. dómsmrh. ásamt Jóhanni Hafstein héðan út í Sjálfstæðishús, og lögreglan vildi veita okkur fylgd, en við bægðum henni frá okkur. En á leiðinni safnaðist að okkur kommalýður og kastaði að okkur skít.

En út af því, sem nú hefur gerzt, eru kommúnistar sneyptir og leiðir, og þeir harma það. Og vegna hvers? Vegna þess að þeir skilja, að þeir hafa af þessu skömm og fylgistap svo mikið, að það munu hrynja af þeim þúsundir atkvæða og þeir munu ekki einungis verða að heyja baráttu til þess að skafa af sér skömmina næstu vikur og mánuði, heldur miklu lengur, og mun þó aldrei takast það. Um þá ungu menn, sem settu vörð um friðinn hér fyrir utan þinghúsið, er það að segja, að þeirra framkoma var svo aðdáanleg, að hún mun aldrei gleymast. Með stillingu stóðu þeir af sér grjót og skít, sem að þeim var kastað að klukkutímum saman, og hrundu árásunum með þvílíku þreki og stillingu, að þeir ættu skilið, að nöfn þeirra væru skráð og geymd í minni.

Árásir á lögregluna út af þessum atburðum eru hinar ómaklegustu og rakalausar með öllu. Hún sýndi einmitt festu og stillingu, og stjórn lögreglustjóra var honum til hins mesta sóma og einkenndist af öryggi og ró.

Ég harma þessa atburði, og það er vissulega mikil alvara á ferðum, ef slíkir viðburðir ættu að fara að verða tíðir á Íslandi. En ef kommúnistar halda, að þeir geti kúgað okkur, þá skjátlast þeim. Öllu má ofbjóða. Og sérhvern þann hlut, sem þeir gera okkur, munum við og þeim gera.